Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:31:21 (913)

1997-11-04 14:31:21# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:31]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Stjórn Landssíma Íslands hf. og hæstv. samgrh. hafa fengið harkaleg viðbrögð vegna útfærslu og framkvæmdar á þeirri samþykkt Alþingis að gera landið allt að einu gjaldsvæði. Sú ákvörðun Alþingis undir forustu hæstv. samgrh. markaði vissulega tímamót sem mikilvæga réttarbót gagnvart þeim sem greitt hafa hæstu gjöldin.

Þetta mikilvæga mál hefur hins vegar snúist í það að verða árásarefni á hæstv. samgrh. sem er mjög ósanngjarnt í ljósi þess að hæstv. samgrh. hefur lagt sig mjög fram um að auka samkeppni á þeim sviðum sem hann hefur með að gera til hagsbóta fyrir neytendur og notendur þjónustu í landinu. Viðbrögð almennings við gjaldskrárbreytingunum voru eðlileg miðað við þá kynningu sem gjaldskrárbreytingin fékk af hálfu stjórnar og stjórnenda Landssímans hf.

Fyrirtæki í einokunarstöðu verður að gæta mjög vel að því að nota ekki stöðu sína til þess að auka tekjur sínar ótæpilega í skjóli sterkrar stöðu. Lág verðbólga og árangurinn á síðustu árum í efnahagsmálum kemur m.a. fram í sterkri varðstöðu almennings gagnvart hækkunum. Hin jákvæða hlið viðbragða almennings sem birtist á fjölmennum fundi í höfuðborginni er að neytendur þjónustunnar standa vörð um hagsmuni sína og tryggja að hin frjálsa samkeppni virki einnig gagnvart þeim sem hafa markaðsráðandi aðstöðu. Er ástæða til þess að leggja sérstaka áherslu á þá hlið málsins.

Þáttur stjórnarandstöðunnar í þessu máli er hins vegar heldur dapurlegur. Úr þeirri átt birtast einungis yfirboð, upphrópanir og rangtúlkanir og það gleymist að megintilgangur gjaldskrárbreytingarinnar var að skapa öllum landsmönnum sömu möguleika til þess að nýta sér hið vel uppbyggða fjarskiptakerfi Landssíma Íslands sem skapar okkur möguleika til þess að takast á við og nýta okkur tölvuvæðinguna, upplýsingabyltinguna sem í mörgu tilliti er grundvöllur framfara í okkar landi. En stjórnendur Landssíma Íslands hf. verða að muna að þeim hefur verið falið að fara með mikla eign sem er fólgin í símkerfinu og þeim möguleikum sem felast í forskotinu sem Landssíminn hafði vegna þess að hann var einn á markaði og vissulega með miklum og góðum árangri. Þá eign verður að ávaxta varlega og af öryggi og án þess að stjórn fyrirtækisins skjóti sér í skjól samgrh. þegar kemur að hinum erfiðu ákvörðunum.

Þegar fram líða stundir verða það hins vegar samgrh. og þeir sem studdu hann í þessu erfiða viðfangsefni og stjórn fyrirtækisins sem munu standa með pálmann í höndunum eftir að Alþingi undir forustu samgrh. hefur gert símann að hlutafélagi og framfylgt stefnu um nútímalegt upplýsingasamfélag sem byggir og nýtir alnetið og hefur gert landið að einu gjaldsvæði.