Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:41:29 (916)

1997-11-04 14:41:29# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:41]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur allmikið fallið af orðum sem kannski minna frekar á eitthvað sem heitir drekasæði heldur en rökstuðning og er svo sem óþarfi að elta ólar við þann þátt umræðunnar.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á ákveðnum þætti í fjarskiptaþjónustu landsins í dag, óheyrilegri og óþolandi mismunun á tengigjöldum internetþjónustuaðila þar sem sú gjaldtaka miðast við mismunandi fjarlægð frá Intís eða Tæknigarði í Reykjavík. Þessi mismunun veldur því að landsbyggðin er skilin eftir nánast á köldum klaka í öllu sem heitir þróun og möguleikar í atvinnusköpun með internetþjónustu og menntunarmöguleikum og þessa mismunun verður að leiðrétta.

Þessi mismunun er svo óheyrileg að ég vil nefna dæmi á Vestmannaeyjum, Akureyri, Neskaupstað, Reykjavík, Ísafirði og Hornafirði. Það má nota sömu tölu nánast fyrir Akureyri, Ísafjörð og Hornafjörð því að þeir staðir eru mældir í nánast sömu fjarlægð frá Reykjavík, um 430--460 km. Ef miðað er við 256 kílóbit á sekúndu, þá kostar þessi þjónusta á ársfjórðungsgrundvelli í Reykjavík 40 þús. kr. Hún kostar 600 þús. kr. í Vestmannaeyjum og 1 millj. á Akureyri, Ísafirði og Hornafirði. Hún kostar 1,3 millj. á Neskaupstað. Hún er 33 sinnum dýrari en í Reykjavík. Hún er 25 sinnum dýrari á Akureyri, Ísafirði og Hornafirði en í Reykjavík. Hún er 15 sinnum dýrari í Vestmannaeyjum. Þetta er nokkuð sem gengur ekki hjá fyrirtæki sem er að ganga inn í nýja öld og er að bjóða upp á nýja tækni.

Ég vil nefna Tölvun sem dæmi. Það er það fyrirtæki í landinu sem er lengst frá Tæknigarði með internetþjónustu í gegnum Intís. Annað er allt of dýrt þannig að menn neyðast til að fara aðrar leiðir sem eru úreltar. Tölvun í Vestmannaeyjum er mæld í 149 km fjarlægð frá Tæknigarði. Hún er með litla línu má segja, 128 kílóbit á sekúndu sem er minnsta einingin sem er leigð út í dag og stækkunarmöguleikar tölvunnar eru augljóslega ekki miklir ef tekið er mið af ársfjórðungsgjöldum sem liggja fyrir. Samkeppnisaðstaða þessa fyrirtækis, Tölvunar, er einnig mun lakari en þjónustuaðila í Reykjavík þar sem landið er nú eitt gjaldsvæði hvað varðar almenna símanotkun en enn þá er mismunun á þessum leigulínugjöldum.

Það má minna á, herra forseti, að NATO lagði ljósleiðarann þannig að ekki ætti það að íþyngja Pósti og síma í þessu dæmi en þarna er mikil mismunun sem verður að kappkosta að leiðrétta þannig að landsmenn standi allir jafnfætis í þessum möguleikum í menntun og atvinnuuppbyggingu.