Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:45:06 (917)

1997-11-04 14:45:06# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:45]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim hv. þm. sem hér hafa varið þá ákvörðun að gera landið að einu gjaldsvæði. Þegar meiri hluti samgn. Alþingis ákvað að leggja það til við Alþingi að rekstri Pósts og síma yrði breytt í hlutafélag óskipt var það vegna þess trausts sem það fyrirtæki hefur haft alla tíð. Það var einnig talið nauðsynlegt vegna aukinnar samkeppni, sem óhjákvæmileg er, þegar einkaleyfi símhlutans fellur niður vegna skuldbindinga okkar út af EES-samningnum.

Póstur og sími hf. er fyrirtæki sem er mjög vel búið undir alla samkeppni bæði hér innan lands og frá útlöndum. Hér á hinu háa Alþingi var lögð mikil áhersla á það þegar þessi framkvæmd var samþykkt að breytingin yrði í mikilli sátt við starfsmenn fyrirtækisins og í mikilli sátt við viðskiptavini fyrirtækisins. Því miður hefur sú ekki orðið raunin og trúnaðarbrestur hefur orðið á milli viðskiptavina og Pósts og síma á síðustu mánuðum, trúnaðarbrestur vegna gríðarlegra hækkana á símgjöldum og gjöldum sem innheimt eru af Pósti og síma og hækkanirnar hafa verið gerðar án rökstuðnings. Það skal tekið fram að forsvarsmenn Pósts og síma hafa á síðustu sólarhringum verið að útskýra fyrir almenningi hvers vegna þessar hækkanir hafa verið gerðar en trúnaðarbresturinn er orðinn og því er verr.

Því skal samt fagnað hér, og tekið undir með öðrum hv. þm., að það var mjög svo drengilegt, fannst mér, af hæstv. forsrh. að grípa inn í þetta mál og breyta atburðarásinni neytendum í vil, því þar var í raun gert það eina sem hægt var að gera í stöðunni í því misræmi sem orðið hafði. Að draga til baka þessa hækkun að hluta til var mjög góð ákvörðun. Ég tel þó að það sé alls óviðunandi að við stöndum uppi með jafnmikilvægt fyrirtæki og Póstur og sími er með skert traust almennings og neytenda. Þetta fyrirtæki er svo mikilvægt fyrir land og þjóð að við svo búið má ekki standa. Ég mun því sem nefndarmaður í samgn. Alþingis beita mér fyrir því að þær ákvarðanir Pósts og síma, sem teknar hafa verið á undanförnum mánuðum, verði teknar til gagngerðrar skoðunar í hv. samgn. og allar forsendur skoðaðar ofan í kjölinn.