Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:11:52 (923)

1997-11-04 15:11:52# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:11]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á undanförnum áratug hefur helsta markmið flugmálaáætlunar verið að endurbæta flugbrautir á áætlunarflugvöllum landsins og leggja þær bundnu slitlagi. Í þessu sambandi má geta flugvallanna á Bíldudal, Patreksfirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Húsavík, Þórshöfn, Mývatni og á Vopnafirði, sem hafa allir verið lagðir bundnu slitlagi á síðustu þrem árum. Jafnframt hefur slitlag verið endurnýjað á flugbrautunum á Akureyrarflugvelli og Hornafjarðarflugvelli sem auk þess hefur verið lengdur til þess að geta annað stærstu flugvélum sem notaðar eru í innanlandsflugi án takmarkana.

Auk ofangreindra verkefna hefur verið unnið að því að bæta aðstöðu fyrir farþega á flugvöllunum. Í því sambandi má geta viðbyggingar við flugstöðina á Akureyrarflugvelli og endurbóta á flugstöðinni á Egilsstöðum. Þessum framkvæmdum hefur verið skipt í áfanga og er ekki enn lokið þótt aðstaðan hafi batnað til muna á þessum stöðum. Þá hefur nú verið hafist handa um að endurbyggja flugstöðina á Ísafirði sem var komin mjög til ára sinna. Endurbætur á flugbrautunum hafa kallað á betri tækjabúnað til að hreinsa flugbrautirnar og gera kleift að halda þeim opnum við erfið veðurskilyrði. Því hefur verið unnið að því að endurnýja þennan tækjabúnað jafnt og þétt í samræmi við gildandi flugmálaáætlun. Enn vantar þó mikið á að tækjabúnaður flugvallanna sé fullnægjandi, bæði hvað varðar fjölda þeirra og ástand. T.d. má nefna að enn eru í notkun átta snjóruðningstæki frá sjötta ártugnum og sex tæki frá sjöunda áratugnum á flugvöllum landsins. Allt of víða getur bilun eins tækis gert erfitt eða jafnvel ókleift að ryðja flugbraut í tæka tíð.

Eftir því sem flugbrautirnar hafa verið bættar hefur verið lögð aukin áhersla á ýmsan flugöryggisbúnað. Einkum hafa flugbrautir og aðflugsljós verið endurbætt jafnframt því sem unnið hefur verið að endurnýjun á rafkerfum flugvallanna. Þá hefur verið unnið að því að nýta gervihnattakerfi fyrir flugleiðsögu bæði í leiðarflugi og aðflugi. Framkvæmdaáætlun Flugmálastjórnar um innleiðingu GPS-kerfisins í flugi hér á landi miðar vel áfram og er þess vænst að flugrekendur muni byrja að færa sér þessa nýju tækni í nyt á næsta ári.

Í þáltill. þeirri um flugmálaáætlun sem nú er lögð fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að halda áfram endurbótum á mannvirkjum flugvallanna og ljúka þeim verkefnum sem hafa verið í gangi á þessu sviði um árabil. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðast í endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar og áætlað að sú framkvæmd verði boðin út á næsta ári.

Þá verður enn aukin áhersla á flugöryggismál, m.a. með áframhaldandi endurbótum og endurnýjun á ljósabúnaði flugvalla og búnaði til að afla og dreifa veðurupplýsingum. Haldið verður áfram að vinna að því að nýta GPS-gervihnattakerfið til flugleiðsögu en það mun ásamt endurbótum á ljósabúnaði flugvallanna enn auka öryggi í flugi hér á landi jafnframt því að opna nýja möguleika í aðflugi að flugvöllum.

Í hinni nýju flugmálaáætlun er einnig að finna nokkur nýmæli. Þetta kemur m.a. fram í því að nú eru ýmis verkefni sem áður voru sérstaklega tilgreind á einstökum flugvöllum færð inn á sameiginleg verkefnasvið án sundurliðunar. Í þessu sambandi ber hæst stofnun tækjasjóðs sem ætlað er að kaupa og eiga allan hreyfanlegan tækjabúnað flugvallanna. Þess er vænst að með þessu móti verði unnt að mæta þörfum flugvallanna fyrir tækjabúnað á sveigjanlegri hátt en verið hefur. Þá er gert ráð fyrir að kaup og uppsetning á veðurmælibúnaði og kerfum til að miðla veðurgögnum og öðrum upplýsingum verði sameiginlegt verkefni fyrir flugvallakerfið í heild sinni.

Þessi þróun endurspeglar þá breytingu sem er að verða í uppbyggingu á flugvöllum landsins þar sem verið er að leggja aukna áherslu á hvers konar tæknibúnað og flugöryggiskerfi eftir því sem mannvirkin verða fullkomnari. Hér er þó mikilvægt að hafa í huga að komið er að því að endurnýja þurfi slitlag á flugbrautum þeirra flugvalla sem fyrst var ráðist í að byggja upp í upphafi flugmálaáætlunar. Þessar endurbætur munu kalla á aukin framlög af flugmálaáætlun þegar fram líða stundir.

[15:15]

Í lögum nr. 31/1987, um flugmálaáætlun, voru markaðir tveir tekjustofnar til framkvæmda í flugmálum, þ.e. flugvallargjald og eldsneytisgjald. Árið 1996 var fyrrgreindum lögum breytt þannig að tekjum af flugvallargjaldi mætti einnig ráðstafa til rekstrar flugvalla. Tekjur flugmálaáætlunar hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum í samræmi við aukna flutninga í flugi, einkum aukinn straum ferðamanna milli landa. Þannig er áætlað að á næsta ári verði alls 623 millj. kr. til ráðstöfunar sem auk tekna ársins 1998 innifelur 14 millj. kr. umframtekjur frá fyrra ári. Gert er ráð fyrir að tekjur flugmálaáætlunar muni enn aukast um 4% milli áranna 1998 og 1999 og um 3% milli ára eftir það. Alls er því gert ráð fyrir að 2.625 millj. kr. verði til ráðstöfunar á fjögurra ára tímabili flugmálaáætlunar. Þar af verði 1.486 millj. kr. eða 1,5 milljörðum kr. varið til framkvæmda og tækjakaupa á flugvöllum landsins utan Keflavíkurflugvallar, 297 millj. kr. til flugumferðar og flugleiðsögubúnaðar, 535 millj. kr. til rekstrar flugvalla og 307 millj. kr. til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Framkvæmdaverkefni flugmálaáætlunar skipast í þrjá meginflokka: Framkvæmdaverkefni tengd einstökum flugvöllum. Framkvæmdir við flugumferðar- og flugleiðsögukerfi. Aðrar framkvæmdir á flugvöllum og kaup á tækjabúnaði.

Auk framangreindra verkefna fara 60 millj. kr. til framkvæmda við Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 1998 og nokkru hærri upphæðir næstu ár á eftir. Þá er gert ráð fyrir að á næsta ári fari 190 millj. kr. af ráðstöfunarfé flugmálaáætlunar til reksturs flugvalla, sem er sama upphæð og fer til þessa þáttar á yfirstandandi ári. Hins vegar er gert ráð fyrir að þessi upphæð lækki í 145 millj. kr. á árunum 1999 og í 100 millj. kr. á árunum 2000 og 2001. Verður nú gerð nokkur grein fyrir helstu framkvæmdum sem felast í fyrirliggjandi flugmálaáætlun.

Eins og áður er getið er helsta markmið framkvæmda á flugvöllum landsins nú einkum að ljúka gerð þeirra mannvirkja sem unnið hefur verið að á helstu áætlunarflugvöllum landsins á undanförnum árum og eru flest komin vel á veg. Jafnframt er lögð rík áhersla á að bæta aðflugs- og flugöryggisbúnað, ekki síst lýsingu og annan rafmagnsbúnað, svo sem raflagnakerfi og vararafstöðvar, en segja má að slík verkefni hafi setið á hakanum á undanförnum árum. Þá er gert ráð fyrir að hafist verði handa um uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar sem er brýnt verkefni.

Verkefnin vegna flugvallarmannvirkja eru tvíþætt, flugbrautir og hlöð annars vegar og hins vegar byggingar. Eftirfarandi þættir falla undir liðinn flugbrautir og hlöð: Uppbygging flugbrauta, bundið slitlag, öryggissvæði, flughlöð, bílastæði og lóð. Í þessari tillögu að flugmálaáætlun er gert ráð fyrir að verja 709 millj. kr. í þessi verkefni á fjögurra ára tímabili, þar af 534 millj. kr. vegna endurbyggingar Reykjavíkurflugvallar.

Undir byggingarframkvæmdir á flugvöllum koma eftirfarandi þættir: Flugstöðvar og tæki, geymslur, sandgeymslur. Tillagan gerir ráð fyrir að til þessara verkefna verði varið 257 millj. kr., þar af 30 millj. kr. til undirbúnings byggingar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Af öðrum verkefnum á þessu sviði má geta endurbyggingar flugstöðvarinnar á Ísafirði sem verður lokið á næsta ári og endurbóta á flugstöðinni í Vestmannaeyjum, en fjárveitingar til þessara tveggja verkefna nema 85 millj. kr. á næstu tveimur árum.

Á sviði aðflugs- og flugöryggisbúnaðar á flugvöllum er einkum um að ræða flugvallarlýsingu og raforkukerfi. Alls er gert ráð fyrir að verja 166 millj. til þessa verkefnaflokks á áætlunartímabilinu. Meginmarkmið verkefna á sviði flugumferðar- og flugleiðsögukerfa er að stuðla að auknu flugöryggi, m.a. með því að færa sér í nyt nýjustu tækni á sviði upplýsingatækni, gervihnattaleiðsögu og gagnafjarskipta. Gott dæmi um þetta er nýtt aðflug að Hornafjarðarflugvelli með GPS-gervihnattakerfinu sem tekið verður í notkun á þessu hausti.

Verkefni á þessu sviði skiptast í eftirfarandi meginþætti: Flugumferðarstjórnarkerfi, flugupplýsingakerfi, gervihnattaleiðsögukerfi, sérhæfðan prófanabúnað, rannsóknarverkefni.

Til flugumferðarstjórnarkerfa er gert ráð fyrir að verja 80 millj. kr. á fjögurra ára tímabili til að standa við skuldbindingar við Alþjóðaflugmálastofnunina um þátttöku í framkvæmdum vegna alþjóðaflugþjónustunnar. Gert er ráð fyrir að til annarra verkefna sem einkum eru vegna þjónustu við innanlandsflugið verði varið 217 millj kr. á tímabilinu.

Hér er um að ræða framkvæmdaverkefni við flugvelli aðra en áætlunarflugvelli og framlög til tækjasjóðs auk nokkurra fjármuna til kaupa á sérhæfðum tækjabúnaði, einkum slökkvibúnaði, sem ekki hefur verið ráðstafað til tiltekinna flugvalla.

Til flugvalla og lendingarstaða sem ekki er þjónað með áætlunarflugi er áætlað að verja 48 millj. kr. Um er að ræða 61 flugvöll og lendingarstaði, þar af 12 þjónustuflugvelli sem flestir voru áætlunarflugvellir fyrr á árum.

Stofnun tækjasjóðs er nýmæli sem gert er ráð fyrir að standi undir endurnýjun á þeim tækjabúnaði sem notaður er á flugvöllumn landsins, t.d. til snjóruðnings og brautarhreinsunar. Gert er ráð fyrir að framlag til sjóðsins verði 27 millj. kr. á fyrsta ári og hækki í 36 millj. kr. í lok tímabilsins.

Auk framangreindra verkefna er að venju gert ráð fyrir nokkru fjármagni til leiðréttingar og til að sinna brýnum verkefnum. Þessi liður hefur reynst afar mikilvægur til að hægt sé að sinna þörfum sem oft koma upp með skömmum fyrirvara. Þetta á ekki síst við nú eftir að sérleyfi hafa fallið niður á áætlunarflugleiðum innan lands og virk samkeppni flugfélaganna hefur hafist á mörgum flugleiðum.

Stjórnunarkostnaður Flugmálastjórnar vegna flugmálaáætlunar er vegna almennrar umsýslu en ekki síður vegna undirbúnings og stjórnunar framkvæmda. Því er gert ráð fyrir að þessi liður hækki nú í 15 millj. kr. sem er m.a. ætlað að mæta kröfum frá opinberum aðilum um aukna áherslu á áætlana- og skýrslugerð.

Á þeim áratug sem liðinn er síðan flugmálaáætlun kom til sögunnar hefur orðið gjörbylting í uppbyggingu íslenskra flugvalla. Nægir í því sambandi að nefna byggingu Egilsstaðaflugvallar og stórfelldar endurbætur á nánast öllum áætlunarflugvöllum landsins utan Reykjavíkur, uppsetningu flugleiðsögu- og fjarskiptakerfa og framlag Íslands til byggingar nýju flugstjórnarmiðstöðvarinnar.

Í fyrirliggjandi tillögu til þál. um flugmálaáætlun fyrir árin 1998--2001 eru þó enn mörg brýn verkefni sem bíða úrlausnar í flugsamgöngukerfi landsins. Þetta má m.a. sjá af því hve fjármunir flugmálaáætlunar dreifast á mörg verkefnasvið sem hvert um sig mun hafa meiri þörf fyrir fjármagn en fram kemur í fjárveitingum til þeirra verkefna sem skilgreind eru í fskj. með þáltill. Í mörgum tilvikum er um að ræða lágmarksframkvæmdir sem aðeins ber að líta á sem fyrsta áfanga að settu marki. Ekkert bendir því til þess að fjárþörf til framkvæmda í flugmálum muni minnka á komandi árum, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirra breytinga sem óheft samkeppni í innanlandsflugi hefur í för með sér. Jafnframt er ljóst að auknar alþjóðlegar og evrópskar kröfur á sviði flugöryggis gera það að verkum að við megum ekki vera eftirbátar annarra í uppbyggingu og viðhaldi þeirra mannvirkja sem mynda flugsamgöngukerfi landsins. Því er brýnt að ekki verði slakað á í þessum efnum á komandi árum.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og samgn.