Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:37:24 (926)

1997-11-04 15:37:24# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:37]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Málefni Reykjavíkurflugvallar eru í þeirri stöðu að skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar hefur enn ekki afgreitt frá sér hvernig endurbótum á Reykjavíkurflugvelli skuli háttað, hvar flugstöðin skuli vera og þar fram eftir götunum. Skipulag Reykjavíkur er núna í vinnslu og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að það geti legið fyrir áður en hægt er að bjóða út framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli.

Ég vil einnig taka fram í þessu sambandi að auðvitað er flugvöllurinn orðinn gamall og slitinn og lúinn, en reynt er að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að hann sé ekki hættulegur með lagfæringum, endurbótum, viðgerðum og einnig ef náttúrlega þannig viðrar, þá er tekið tillit til þess.

Að síðustu vil ég segja að það er í athugun og vinnslu hvernig staðið skuli að útboði og rekstri á Reykjavíkurflugvelli og liggur ekki fyrir. En eins og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er hugsuð er gert ráð fyrir því að verkið verði boðið út á síðari hluta næsta árs og síðan hægt að vinna það á tveim næstu árum. En eins og sakir standa núna, hefur málið sem sagt ekki verið afgreitt úr skipulagsnefnd Reykjavíkur.