Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:52:42 (932)

1997-11-04 15:52:42# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:52]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta fróðleg ræða hjá hæstv. samgrh. Það er greinilega hans mat að það þjóni betur flugöryggi, það er hans niðurstaða, að halda í þessa braut, að halda í þessa umdeildu braut. Þar með er hann að hafna þeim öryggiskröfum sem borgaryfirvöld í Reykjavík gera. Þau hafa bent á að það sé varasamt að hafa fluglínu yfir Landspítalann og Norðurmýrina eins og þarna er um að ræða. Þau hafa bent á að í staðinn sé hægt að nýta sér í undantekningartilvikum flugbraut á Keflavíkurflugvelli. Það er greinilegt að samgrh. hafnar þessum öryggiskröfum borgaryfirvalda varðandi lendingar alls sjö til tíu sinnum á ári eða svo. En þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er þetta skoðun Flugmálastjórnar? Er það skoðun Flugmálastjórnar að það verði að halda þessari braut 07/25? Það er mjög athyglisvert ef það er fagleg niðurstaða Flugmálastjórnar sem á auðvitað að horfa á hlutina út frá almennum faglegum forsendum en ekki einhverjum pólitískum áherslum sem ráðherrann kann að hafa í það skipti. Og ég fullyrði, í öðru lagi, að það að deiliskipulag sé ekki til í þessu máli skiptir engu varðandi framkvæmdirnar. Það sem skiptir máli er það að ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja ekki peninga í þessar framkvæmdir 1998. Það er forgangsröð ráðherrans sem ræður því en ekki deiliskipulag Reykjavíkur vegna þess að það breytir engu í þessu máli og að því er ég best veit þá hljóta flugmálayfirvöld að sjá það líka.