Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:01:19 (936)

1997-11-04 16:01:19# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það lætur nærri að saga flugmálaáætlunar á grundvelli sérstakra tekna sé tíu ára um þessar mundir. Það var nálægt árinu 1987 sem lög voru sett um tekjuöflun til flugmála ef ég man rétt og flugmálaáætlun fór af stað. Því verður ekki á móti mælt að þessi áætlun og þær tekjur sem henni hafa verið samfara hafa skilað mjög miklum framförum hvað varðar aðstæður til áætlunarflugs í landinu og almenns flugs. Þó vantar nokkuð upp á að lokið sé því verkefni að ljúka uppbyggingu flugvalla og flugvallarmannvirkja og koma því öllu í fullnægjandi gott horf eins og áætlunin reyndar gerði ráð fyrir að tækist á um það bil tíu árum.

Það sem aðallega hefur farið úrskeiðis í þeim efnum er tvennt. Annars vegar hefur verkefnum verið bætt inn á flugmálaáætlunina sem ekki var gert ráð fyrir að yrðu fjármögnuð af henni á sínum tíma. Þá var gert ráð fyrir að framkvæmdir eins og við flugbraut á Egilsstöðum yrðu sérverkefni. Þá var ekki gert ráð fyrir því að bygging vegna alþjóðaflugþjónustunnar yrði kostuð af flugmálaáætlun og reyndar var heldur ekki gert ráð fyrir því að flugbraut í Reykjavík yrði kostuð af flugmálaáætlun heldur að þetta yrðu allt saman sérverkefni. Hefði flugmálaáætlunin heil og óskipt runnið til uppbyggingar almennra flugvallarmannvirkja, þá er lítill vafi á því að þessu verkefni væri því sem næst lokið.

Sömuleiðis, herra forseti, hefur nú allra síðustu árin því miður verið gripið til þess ólánsúrræðis að skerða hinar mörkuðu tekjur og ráðstafa þeim í raun og veru í ríkissjóð. Það er að vísu látið heita svo að þetta renni til að kosta að hluta til rekstur flugvalla eða rekstrarútgjöld Flugmálastjórnar sem áður voru greidd úr ríkissjóði og gildir þá einu hvort bókhaldslega sé þetta merkt fluginu. Í reynd er þarna á ferðinni skerðing á sértekjum flugmálaáætlunar. Þeirra var aflað og er aflað með álagningu sérstakra gjalda á flugfarþega og flugrekendur sem lögð voru á með flugmálaáætluninni á sínum tíma 1987.

Það er ástæða, herra forseti, til að rifja þetta upp, hvort heldur það er rætt í samhengi við almenna stöðu framkvæmda í þessum efnum eða einstök verkefni eins og úrbætur á Reykjavíkurflugvelli.

Þetta er, herra forseti, því miður mjög dapurlegt og ég verð að segja eins og er að það að þessi tala skuli nú fyrir árið 1998 eiga að verða 190 millj. kr. er mikið umhugsunarefni. Ég man eftir áflogum hér á þingi, ekki í bókstaflegri merkingu þó en þó nokkrum átökum, um tillögur til að skerða þessar mörkuðu tekjur um 75 millj. sem fékkst þá eftir nokkuð harða sennu hér lækkað niður í 30 millj. En síðan hefur þetta á líklega tveimur eða þremur árum rokið tiltölulega hægt og hljótt upp í 190 millj. sem er áætlað að þetta verði á næsta ári sem verður varið af mörkuðum tekjum flugmálaáætlunar í annað en þau lög gera ráð fyrir.

Þá er ástæða, herra forseti, til að rifja upp og hafa í huga hver er grundvöllur þessarar tekjuöflunar. Jú, það eru álögur á flugfargjöld og það eru álögur á flugrekendur sem valda auðvitað meiri kostnaði við áætlunarflugið. Ég held, herra forseti, að þetta sé einhver allra óheppilegasti og vitlausasti skattstofn sem lengi hefur verið fundinn upp vegna þess að fargjöld í áætlunarflugi innan lands eru auðvitað óheyrilega há og þar af leiðandi eru þessar álögur skattur á þessi dýru fargjöld. Það er mikið umhugsunarefni þegar svo er komið að þeim er ráðstafað að þetta miklu leyti í ríkissjóð og koma í staðinn fyrir almennar skatttekjur ríkissjóðs en ekki til þeirrar uppbyggingar í flugmálum sem ætlunin var. Og ég spyr mig að því, herra forseti, hvort ekki sé þá ósköp einfaldlega skynsamlegra að lækka þessar álögur. Horfast í augu við að það sé ekki pólitískur vilji til að ráðstafa öllu þessu fé til framkvæmda í flugmálum en lækka þá þessar álögur þannig að fargjöldin geti lækkað, fleiri geti notað flugið sem mætti síðan verða til þess að því verði haldið úti á mörgum stöðum sem standa núna frammi fyrir því að það er ekki lengur grundvöllur fyrir áætlunarflugi þangað.

Þetta vildi ég í öðru lagi, herra forseti, gera hér lítillega að umtalsefni, það er ósköp einfaldlega vandi flugsins. Það er ekki nema von og þótt fyrr hefði verið að áætlunarflug við þær sérstöku aðstæður sem eru á Íslandi, fámenni í stóru og strjálbýlu landi, eigi í erfiðleikum og það er auðvitað það sem er að gerast núna á fjölmörgum stöðum að grundvöllurinn undir áætlunarflugi er að bresta. Þá sitja fjölmörg byggðarlög, þar með talið afskekkt byggðarlög, uppi með það að þangað eru engar almenningssamgöngur vegna þess að á Íslandi hefur sú sérstaða verið að flugið hefur í stórum stíl verið einu almenningssamgöngurnar sem fólk hefur átt aðgang að. Það er ekki áætlunarferðum á landi til að dreifa á stórum svæðum á landinu þannig að um leið og flugið brestur, þá bresta einu almenningssamgöngurnar sem fyrir hendi eru.

Þetta er mjög alvarlegt mál, herra forseti, og ég hefði talið að það væri ástæða til þess að hæstv. samgrh. gerði Alþingi grein fyrir því hvar þessi mál eru á vegi stödd, bæði þær breytingar sem orðið hafa undanfarin nokkur ár og þær breytingar sem eru í farvatninu t.d. á þessum vetri á norðausturhorni landsins.

Einn þáttur sem hér hefur áhrif er einkavæðingin á Pósti og síma og svo ákvörðun Pósts og síma eða póstsins að hætta að nota áætlunarflugið til fjölmargra staða til að dreifa pósti. Þar með minnka tekjurnar og grundvöllurinn verður enn síður fyrir hendi fyrir áætlunarfluginu. Þetta er auðvitað arfavitlaust út frá þjóðhagslegum hagsmunum séð, arfavitlaust að það skuli ekki vera hægt að samnýta þessar einustu skipulögðu almenningssamgöngur og áætlunarsamgöngur sem eru inn í byggðarlögin. En það er ekki hægt. Einn vill gera þetta svona og annar hinsegin og það má engu stjórna nú til dags í hinu yndislega frelsi sem menn verða að taka á sig eins og hverjar aðrar náttúruhamfarir sem yfir þá dynja, hvort sem það eru skertar samgöngur á sjó eða landi sem koma í kjölfar frelsisins.

Varðandi stöðuna í framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli, þá er auðvitað ófremdarástand hvað varðar það mannvirki og löngu tímabært að taka á því. Það er ljóst að um langa framtíð a.m.k. verður miðstöð innanlandsflugsins frá Reykjavík og ég held að það verði þar af leiðandi að ráðast í framkvæmdir til þess að það geti farið fram við fullnægjandi aðstæður. En auðvitað þarf líka að marka Reykjavíkurflugvelli skýrt hlutverk. Ég tel að það sé löngu tímabært að einkaflug og leiguflug fari frá Reykjavíkurflugvelli eins mikið og mögulegt er og sá flugvöllur verði fyrst og fremst miðstöð fyrir áætlunarflug innan lands, áætlunarflug og leiguflug innan lands og kannski það flug sem flugrekendur kjósa að reka héðan til nágrannalandanna, Grænlands, Færeyja og að einhverju leyti til Skotlands og Bretlandseyja. Og það væri auðvitað nærtækast, herra forseti, að benda á liðinn ,,Til reksturs flugvalla`` upp á 190 millj. kr. sem á að fara af flugmálaáætlun í ríkissjóð, lækka hann, draga úr þessari skerðingu á mörkuðum tekjum flugmálaáætlunar og ráðstafa því í brýnar framkvæmdir, þar með talið að hefja framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli. Það er alveg borðleggjandi, það er tæknilega ákaflega einfalt ef meiri hlutinn á Alþingi vill gera þá breytingu á áherslu í flugmálum og ríkisfjármálum að láta minna renna í ríkissjóð og meira til framkvæmda, þá geta brýnar framkvæmdir eins og t.d. þær að hefjast handa á Reykjavíkurflugvelli komist af stað. En reyndar minni ég á að í almennum flugframkvæmdum víða á landinu eru líka mjög þörf og brýn verkefni sem ekki fá fullnægjandi úrlausn í þessari flugmálaáætlun.