Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:14:31 (939)

1997-11-04 16:14:31# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:14]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Flugmálaáætlun er eins og venjulega mjög eftirtektarvert plagg. Komið hefur fram að hún hefur tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum, nýir liðir að koma inn sem ekki var í upphafi gert ráð fyrir að kæmu inn í flugmálaáætlun yfirleitt.

[16:15]

Þar ber að nefna Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hún er nú í annað sinn á framlögum og þau fara vaxandi samkvæmt þessari áætlun, verða 60 millj. á næsta ári og verða komin upp í 92 millj. kr. árið 2001. Það stóð dálítill styr um það þegar þessi áætlun gerði ráð fyrir framlögum til Leifsstöðvar á sínum tíma vegna þess að það var talið taka fé frá öðrum völlum. Auðvitað er það rétt röksemd að þegar tekið er af áætlun í nýja velli þá hlýtur það að koma einhvers staðar annars staðar niður. Eigi að síður hafa menn þó fallist á þá röksemd að sá völlur sem skapar langmestar tekjur flugmálaáætlunar er Keflavíkurflugvöllur sem hefur síðan í raun verið sveltur af því fjármagni sem þaðan hefur komið og flugstöðin sem slík setið uppi með skuldir og mörg vandamál óleyst. Þetta er að sjálfsögðu bara dropi til að mæta öllum þeim vanda, en er þó skref í rétta átt.

Reykjavíkurflugvöllur hefur verið mjög til umræðu og er það að sjálfsögðu eðlilegt þar sem um er að ræða einn helsta innanlandsflugvöll landsins. Sá flugvöllur þjónar miklu stærra hlutverki en því að þjóna innanlandsflugi. Þar er margs konar annað flug, m.a. millilandaflug, sem Flugfélag Íslands og Flugleiðir hafa sinnt og fært í rauninni frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur, fyrir utan allt einkaflug sem er gríðarlega mikið á þessu svæði. Ég hef haldið því fram að notkunin á Reykjavíkurflugvelli sé allt of mikil. Í rauninni ætti að flytja þann flugvöll. Það eru margir sem halda því fram, m.a. borgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, að þessi flugvöllur ætti ekki heima hér, hvað þá að hann verði ofnotaður eins og gert er í dag.

Það kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að ein braut, sem kölluð er 07/25 eftir því sem hann segir, er lokuð af öryggisástæðum vegna þess að flugáttin er yfir Landspítalann. Önnur braut, svokölluð norður-suður braut, liggur yfir miðborgina í aðflugi til suðurs og aðflugið er ekkert venjulegt flug heldur lágflug. Maður hefur á tilfinningunni að flugvélarnar rétt skríði hér yfir húsþökunum þegar þær lenda í suðurátt. Flugvélar sem koma á þessa sömu braut úr suðri og lenda í norðurátt fara mjög lágt yfir Kópavoginn. Ég veit að fólk á því svæði hefur kvartað yfir hávaða og óróleika vegna þess lágflugs sem stundað er yfir Kópavogi. Það eru því að minnsta kosti tvær brautir af þrem sem eru stórhættulegar fyrir umhverfið og ættu í rauninni báðar að vera lokaðar. Það þýddi þá um leið að flugvöllurinn væri ónothæfur. Af þeirri ástæðu er náttúrlega ekki farið út í það af hálfu flugmálayfirvalda að loka þeirri braut.

Ég hef undrað mig á því hvað flugmálayfirvöld og þá væntanlega Flugmálastjórn og samgrh. hafa gert lítið til þess að minnka flug um Reykjavíkurflugvöll vegna þess hættuástands sem skapast við allt flug yfir Reykjavíkurborg. Flugmálastjórn ber ábyrgð, ekki eingöngu á Reykjavíkurflugvelli, heldur einnig á Keflavíkurflugvelli í samráði við utanrrn. og ætti að geta beint því flugi, sem talað hefur verið um af opinberum aðilum að ætti að flytjast héðan, eins og svokallað ferjuflug og annað flug sem ekki tengist beinlínis innanlandsfluginu.

Ég vil beina því til hæstv. samgrh. hvort ekki hafi farið fram nein umræða eða skoðun á því hvort hluti þessa flugs yrði hreinlega fluttur með aðgerðum Flugmálastjórnar og samgrh. til Keflavíkurflugvallar til að minnka þá gríðarlegu hættu sem flug skapar hér á þessu svæði.

Það hlýtur einnig að vefjast fyrir mönnum að ætla sér að fara út í fjárfestingar upp á milljarða á Reykjavíkurflugvelli í ljósi þeirrar miklu hættu sem flugvöllurinn skapar fyrir íbúa þessa svæðis. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort tímabært sé að fara út í nokkrar framkvæmdir og hvort ekki væri réttara að fara út í allsherjarúttekt á flugvellinum. Margar skýrslur hafa komið fram um þetta en ekki hafa þær allar verið samstiga. Ég held að út frá þessum sjónarmiðum sé mjög brýnt af hálfu samgrh. og flugmálayfirvalda að skoða þetta mál með tilliti til þessara þátta og taka þær ákvarðanir sem lúta að framtíðaröryggi Reykvíkinga og þeirra sem þurfa að nota þennan flugvöll. Ég trúi því ekki að þeir þingmenn Reykvíkinga, sem hér hafa talað og mæla með því að setja stórfé í Reykjavíkurflugvöll til að bæta ástandið, og þá fyrst og fremst öryggisþátt vallarins sjálfs en ekki aðflugsmál eða þá hættu sem skapast í bænum sjálfum, vilji í rauninni halda þessu hættuástandi um ókomna tíð. Ég trúi því vart. Þess vegna held ég að full ástæða sé til fyrir þingmenn Reykvíkinga að skoða þann þátt sem snýr að öryggi íbúa í Reykjavík og þeirra sem fara um Reykjavíkurflugvöll samtímis.