Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:43:05 (949)

1997-11-04 16:43:05# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:43]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hv. 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, formann fjárln. koma upp og ræða um stöðu Reykjavíkurflugvallar, það hættuástand sem þar hefur skapast. Þá vildi ég beina til hans spurningu sem kom ekki fram í svari hæstv. samgrh.: Hvert er álit hans á sértækum aðgerðum til að afla fjár til Reykjavíkurflugvallar svo að hægt verði að hefja framkvæmdir á miðju ári 1998?

Menn hafa rætt nokkuð um hættuna af Reykjavíkurflugvelli og staðsetningu hans. Ég hugsa að ég sé í meiri hættu í umferðinni þegar ég ek heiman frá mér úr Breiðholti og hingað niður eftir dags daglega en þeir sem koma fljúgandi utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Flugvélarnar eru miklu öruggari tæki en bílar og eru eitt af öruggustu farartækjum í dag. Öll umræðan um áhættu er góðra gjalda verð en hún er ekki þess eðlis að eðlilegt sé að taka upp umræðuna um það að loka Reykjavíkurflugvelli og færa allt innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar. Ég tek alveg undir það með hv. 2. þm. Austurl. að það muni þýða nánast endalok á innanlandsflugi og með tilvísun til þess líka að ekki er langt í að Hvalfjarðargöngin verði tekin til notkunar mun það enn frekar ýta undir það að íbúar Norðurlands muni frekar setjast upp í bifreið sína og aka norður í land eða suður en fara að eyða heilum klukkutíma í það að keyra til Keflavíkurflugvallar og standa síðan frammi fyrir því að flug hafi verið fellt niður vegna veðurs. Þá eru farnir nokkrir klukkutímarnir í ferðalag sem þyrfti ekki annars að efna til auk þess sem stórhætta mundi þá skapast í umferðinni og er nú ekki á bætandi.