Stimpilgjald

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 17:28:54 (958)

1997-11-04 17:28:54# 122. lþ. 18.10 fundur 163. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[17:28]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 163 hef ég lagt fram frv. til laga um breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum. Meðflm. mínir að þessu frv. eru hv. þm. Árni Ragnar Árnason, Guðjón Guðmundsson og Kristján Pálsson. Í 1. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Heimilt er að fella niður stimpilgjöld af kaupsamningum, veðböndum og afsölum kaup skipa á árinu 1997.``

Herra forseti. Íslenskar kaupskipaútgerðir og flugfélög eiga nú í vaxandi samkeppni við erlenda aðila. Gripið hefur verið til þess ráðs hvað áhrærir flugvélakaup Íslendinga að fella niður stimpilgjöld til að létta þeim róðurinn og gera íslensku flugfélögin hæfari til samkeppni við erlenda aðila. Því láni hefur hins vegar ekki verið að fagna hvað áhrærir íslenska kaupskipaútgerð. Nú er svo komið aðeins fjögur íslensk kaupskip eru undir íslenskum fána.

[17:30]

Það eru tímar tvennir síðan Íslendingar heistu þjóðfánann að húni stoltir af sínum mikla og góða kaupskipaflota. Þá fór íslenski fáninn víða um veröldina og menn töluðu um að svona ætti ásýnd Íslands að vera um ókomin ár. En þegar svo er komið að kaupskip Íslendinga eru ekki fleiri en svo undir íslenskum fána að þau séu teljandi á fingrum annarrar handar hlýtur mönnum að bregða við.

Sjálfsagt hefði enginn trúað því á árum áður að slík þróun ætti eftir að eiga sér stað. En engu að síður er þetta sú staðreynd sem blasir við í dag. Það má segja, þegar til þess er litið að Íslendingar misstu sjálfstæði sitt af því að þeir áttu ekki kaupskipaflota til að halda uppi siglingum að og frá landinu, að þá sé nú nokkuð illa komið fyrir eyþjóð sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi og siglingum.

Í greinargerð með frv. segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Í 6. gr. fjárlaga hefur lengi tíðkast að veita fjármálaráðherra heimild til að fella niður stimpilgjöld sem stofnað er til í tengslum við kaup eða leigu á flugvélum. Sambærilegar heimildir hafa ekki verið til staðar varðandi kaupskip. Íslenskar kaupskipaútgerðir og flugfélög eiga í sívaxandi samkeppni við erlenda aðila. Mismunun milli þessara flutningsaðila á alþjóðamarkaði hlýtur því að teljast vafasöm og í andstöðu við almenn jafnræðissjónarmið. Hér er lagt til að þessi mismunun verði leiðrétt þannig að við stimpilgjaldslögin bætist sérstakt ákvæði til bráðabirgða með heimild til að fella niður stimpilgjald í tengslum við kaup slíkra skipa á árinu 1998. Flutningsmenn telja eðlilegt að slíkt ákvæði verði síðan tekið inn í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1999.

Kaupskipastóll Íslendinga samanstendur af 25 skipum sem eru í reglubundnum rekstri íslenskra útgerða. Þess utan er nokkur fjöldi erlendra kaupskipa í leigu íslenskra aðila um stundarsakir vegna ýmissa flutninga, t.d. á mjöli og lýsi.

Af þeim 25 skipum sem fyrr er getið eiga íslenskar útgerðir 19 skip og eru aðeins fjögur þeirra skráð á Íslandi og sigla undir íslenskum fána.

Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kaupskipaútgerða hefur lýst því yfir að ástæða þess að svo fá skip eru skráð undir íslenskum fána sé fyrst og fremst óeðlilega há skráningargjöld hér á landi sem nemi milljónum króna á meðan kaupskipaútgerðir í Noregi greiði aðeins um sex þúsund íslenskra króna í gjald á hvert skip. Nauðsynlegt er að grípa í taumana og lækka stimpilgjöld hér á landi svo að um ókomin ár megi kaupskip undir íslenskum fána sjást sem víðast. Öflugur íslenskur kaupskipafloti er einn þáttur í sjálfstæði þjóðarinnar og því er rétt að stuðla að því að sem flest kaupskip í eigu íslenskra útgerða sigli undir íslenskum fána. Sem fyrr kemur fram eru 15 kaupskip í eigu íslenskrar kaupskipaútgerðar skráð erlendis. Nái þetta frumvarp fram að ganga má ætla að þau skip verði skráð á Íslandi. Í engu mundi ríkissjóður verða af tekjum við samþykkt þessa frumvarps nema síður yrði, enda nánast engar skráningar á kaupskipum hér á landi hin síðari ár.

Með kaupskipum er hér átt við skip sem notuð eru til flutnings á farmi gegn endurgjaldi en geta jafnframt flutt 12 farþega eða færri í samræmi við alþjóðlegar reglur, sbr. skilgreiningu í 2. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum.``

Herra forseti. Í fylgiskjali með frv. sem er allrar athygli vert og lýsir enn betur því ástandi sem ríkir í íslenska kaupskipaflotanum er grein sem birtist í Morgunblaðinu 23. janúar sl. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Áætla má að ríkissjóður verði af allt að 220 milljónum króna vegna skráningar íslenskra kaupskipa erlendis. Skráningargjöld kaupskipa eru reiknuð út frá andvirði þeirra en gera má ráð fyrir því að skráningargjöld skips, sem siglir undir íslenskum fána, séu að meðaltali í kringum tíu milljónir króna.

Af þeim 26 kaupskipum sem nú eru í rekstri íslenskra útgerða eru aðeins fjögur sem sigla undir íslenskum fána, þar af eru tvö skip í eigu olíufélaganna. Alls eru 18 skip í eigu útgerðanna en átta eru leiguskip. Andvirði skipanna er mjög mismunandi og eru verðminnstu skipin um 100 milljón króna virði en það verðmesta um 1.500 milljón króna virði. Þegar reiknuð eru gjöld vegna skráningar skipa hér á landi er tekið mið af verðmæti þeirra og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins væru skráningargjöld af hverju skipi um tíu milljónir króna.

Samkvæmt reglum um nýskráningar skipa ber að greiða 0,26% af andvirði skips við skráningu þess. Ef skipið er í flokkunarfélagi, viðurkenndu af íslenskum stjórnvöldum, greiðir útgerð skipsins 60% af skráningargjaldinu. Árlegt gjald til Siglingamálastofnunnar eru 170 þúsund krónur á skip.

Verulegur hluti kostnaðar við skráningu skipa hér á landi felst hins vegar í stimpilgjöldum. Í lögum um skráningu skipa segir að fyrir skip sem kemur til nýskráningar undan erlendum fána skuli greiða stimpilgjald af afsali, 0,4% af heildarverði skipsins. Sé skipið selt úr landi er útgerð þess einnig skylt að greiða sömu upphæð í stimpilgjald af afsali.

Einnig ber að taka tillit til þess að í flestum tilvikum þurfa viðkomandi aðilar á verulegum lánafyrirgreiðslum að halda til kaupa á eignum af þessari stærðargráðu. Ef um nýbyggingu er að ræða má áætla að um 80% af verði skipsins séu tekin að láni. Af þeirri upphæð þarf lántakandinn að borga 1,5% í stimpilgjöld.

Allt byggist þetta á kaupverði skipsins. Sé tekið dæmi af nýju skipi Eimskipa, Brúarfossi, sem kom til landsins í sumar [þ.e. sumarið 1996], þá kostaði það um 1,5 milljarða króna og er dýrasta kaupskip í eigu Íslendinga. Þá má gera ráð fyrir að skráningarkostnaður skipsins hafi numið 2,8 milljónum króna. Ef miðað er við 80% lánsfjármögnun skipsins þarf útgerðin að greiða um 18 milljónir króna miðað við gefnar forsendur. Þá er ekki meðtalið stimpilgjald af afsali skipsins verði það selt úr landi, sem verður að teljast líklegur kostur þar sem eftirspurn eftir kaupskipum hér á landi er lítil sem engin.

Í nágrannalöndunum eru skráningargjöld lægri en á Íslandi og í Noregi greiða útgerðir því sem nemur sex þúsund íslenskum krónum í gjald fyrir hvert skip, óháð stærð þess eða andvirði. Einar Hermannsson, hjá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, segir þessi háu gjöld meðal annars hafa ýtt undir þá þróun að kaupskip hætti að sigla undir íslenskum fána. Hann segir að ef gjöldin væru lægri og vænlegra væri að gera út kaupskip hér á landi, mundu útgerðir nota eigin skip í hærra hlutfalli í stað leiguskipa. ,,Það má segja að mönnum sé beinlínis refsað fyrir að vera með skip undir íslenskum fána. Svokallaður skráningarkostnaður er margþættur en það er ekki hægt að segja að siglingamálayfirvöld séu að innheimta óeðlilega háar upphæðir. Kostnaðurinn liggur fyrst og fremst í stimpilgjöldunum sem eru í raun skattur sem innheimtur er af fjármálaráðuneytinu. Við höfum ítrekað leitað til ráðuneytisins um niðurfellingu á þessum gjöldum í samræmi við það sem gerist í nágrannalöndunum. Það hefur hins vegar ekki fengið mikinn hljómgrunn,`` segir Einar.

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Ég ætla ekki að segja meira um þetta frv. en legg til að að lokinni 2. umr. verði frv. vísað til hv. efh.- og viðskn.