Kjör stjórnenda Pósts og síma hf.

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:36:20 (962)

1997-11-05 13:36:20# 122. lþ. 19.1 fundur 49. mál: #A kjör stjórnenda Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:36]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Spurning mín til hæstv. samgrh. er á þessa leið:

Hver eru kjör tíu æðstu stjórnenda Pósts og síma hf. og hvernig eru þau ákveðin í launum, í öðrum beinum fjármunum, í bifreiðum, í öðru? Hafa verið keyptar bifreiðar sérstaklega fyrir þessa einstaklinga, og þá hverja, og hvað hefur það kostað?

Á fyrsta degi þingsins var dreift skýrslu forsrh. um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins. Tilefnið var fyrirspurn á þingi frá í vor um launakjör æðstu stjórnenda hjá Pósti og síma hf. Samgrh. sem hefur á hendi eina hlutabréfið í Pósti og síma hf. hafði neitað að svara fyrirspurninni og urðu af því tilefni nokkrar deilur.

Í umræddri skýrslu forsrh. kemur fram að samgrh. hafi ekki borið lagaleg skylda til að veita upplýsingar um kjör stjórnenda Pósts og síma hf. Hins vegar sé ekkert í lögum sem banni það. Reyndar segir í skýrslunni á þá leið að sérstaða Pósts og síma sé nokkur varðandi upplýsingaskyldu almennt því, og nú vitna ég orðrétt í skýrsluna, með leyfi forseta: ,,... því að samgönguráðherra getur krafist upplýsinganna á grundvelli þess að hann er æðsta stjórnvald í félaginu þar sem ríkið er eini hluthafinn og samgönguráðherra fer með eignaraðild ríkisins samkvæmt þeim lögum.``

Nú reynir á vilja ráðherrans og afstöðu hans, hvaða skyldur hann telur sig eiga við almenning í landinu, eigenda Pósts og síma, að upplýsa hvað þar fer fram innan dyra.