Kjör stjórnenda Pósts og síma hf.

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:46:38 (966)

1997-11-05 13:46:38# 122. lþ. 19.1 fundur 49. mál: #A kjör stjórnenda Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við þurfum að breyta lögunum ef við eigum að fá þessar upplýsingar og fyrir þingi liggja tvö frumvörp þar sem 1. flm. er Guðmundur Árni Stefánsson og fleiri þingmenn í stjórnarandstöðunni meðflutningsmenn. Þar er einmitt kveðið á um að veittar skuli upplýsingar um hlutafélög í eigu ríkisins þannig að menn ættu nú að geta ráðið bót á þessu.

Í tilefni af því að það var nánast boðað í Morgunblaðinu í gær að það ætti að selja hluta í hlutafélagi Pósts og síma, langar mig til að benda á það að í Bandaríkjunum, þar sem hlutabréfamarkaður er mjög þróaður, fá fyrirtæki ekki að setja hlutabréf sín á markað nema að upplýsa um hluti eins og þá sem er beðið um í þessari fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hefur reyndar verið spurt um áður hér á þingi og neitað um upplýsingar. Ef menn eru því að huga að því að fara að selja hluta af þessu fyrirtæki, (Forseti hringir.) þá ættu þeir að taka til fyrirmyndar ríki eins og Bandaríkin og veita þessar upplýsingar.

Herra forseti. Mig langar aðeins í lokin (Forseti hringir.) að ítreka að beðið hefur verið um umræðu um þá skýrslu sem hér var til umræðu áðan, skýrsluna frá hæstv. forsrh.