Framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:01:03 (973)

1997-11-05 14:01:03# 122. lþ. 19.5 fundur 161. mál: #A framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Það fer eftir lögum í hverju landi hverjar endurgreiðslurnar eru. Það hefur sérstaklega verið kvartað undan því að endurgreiðslurnar eru minni á Spáni nema kannski hvað einstök lyf varðar. Það fer eftir lyfjaflokkum líka. Ég tel að viðmiðun við aðrar þjóðir sé Íslandi í vil. Það er samkomulag milli þjóðanna um að viðkomandi ríki greiði sjúkraþjónustu fyrir þessa tryggðu aðila þar heima og síðan er heildarpakkinn gerður upp og það er engin leið fyrir einstaklinga að gera út á það neitt sérstaklega. Þetta er hreint samkomulag þarna á milli.

En varðandi fyrirspurn frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um það hvort til væri nákvæm sundurliðun á því hvað af þessum 7,5 millj. væri lækniskostnaður, hvað væri lyfjakostnaður og hvað væri sjúkrahúskostnaður, þá er sú sundurliðun ekki til. Hún er ekki til nákvæm í Tryggingastofnun.