Jafnréttisráðstefna í Lettlandi

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:10:24 (977)

1997-11-05 14:10:24# 122. lþ. 19.3 fundur 107. mál: #A jafnréttisráðstefna í Lettlandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra jafnréttismála fyrir svörin. Það er ánægjulegt að norræna ráðherranefndin hyggst fylgja ráðstefnunni eftir og málaflokkarnir sem hæstv. ráðherra nefndi eru að mínu mati allir góðir þó ekki sé kannski alveg ljóst hvort þeir nái yfir öll þau mál sem ég nefndi áðan.

Spurningin sem enn er óljós í mínum huga er hvernig að hugsanlegum styrkveitingum verður staðið til félagasamtaka eða hvort þetta verður allt á embættismannaplani. Ég tel mjög mikilvægt að staðið verði skipulega að þessum styrkveitingum. Þeir verði t.d. kynntir í norræna fréttablaðinu um jafnréttismál eða í bréfum til Valmierafara þannig að ekki verði um handahófskenndar styrkveitingar að ræða. Það er ljóst að yfirleitt geta Íslendingar ekki sótt fé í norræna sjóði nema það séu að minnsta kosti tveir norrænir umsækjendur þannig að það er ekki í öllum tilvikum þannig miðað við þær upplýsingar sem nú eru tiltækar. Það er því alveg ljóst að einnig þurfa að koma til styrkir héðan ef það eiga að koma til tvíhliða samskipti á milli baltnesku landanna og Íslands. Því vona ég að það verði ákvörðun ráðherra í framhaldi af fundinum í desember að komið verði upp einhvers konar íslenskum sjóði sem konur og karlar geti sótt í. Karlar voru líka á þessari ráðstefnu. Jafnvel mætti benda á að í Noregi stendur til að nota hluta af norrænni þróunaraðstoð í þessum tilgangi til að styrkja svokölluð pörunarverkefni á þessu sviði.

Ég var ein þeirra sem sóttu þessa ráðstefnu og finnst mjög miður ef ekki verður mögulegt að hlúa að þeim tengslum sem þarna mynduðust því kvennabaráttukonur og karlar sem vinna að jafnréttismálum hér á landi hafa af miklu að miðla og það getur skipt sköpum fyrir jafnréttisbaráttuna í þessum löndum að þessi tengsl rofni ekki. Ég hvet því hæstv. félmrh. að stofna íslenskan sjóð og hafa þá skýran umsóknarfarveg þannig að allir viti hvert þeir eiga að snúa sér.