Starfsmat

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:17:33 (980)

1997-11-05 14:17:33# 122. lþ. 19.4 fundur 190. mál: #A starfsmat# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í tillögum starfshóps hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um starfsmat, í skýrslunni frá febrúar 1996, var lagt til að farið yrði út í tilraunaverkefni þar sem starfsmati yrði beitt í einni eða tveimur stofnunum á vegum ríkisins, einu einkafyrirtæki og einu fyrirtæki eða stofnun á vegum Reykjavíkurborgar. Tilgangurinn væri að nota kynhlutlaust starfsmatskerfi til að raða störfum innbyrðis á hverjum vinnustað.

Tilraunaverkefni hefur verið hrint af stað og er vinna við starfsmat þegar hafin innan Ríkisspítalanna. Þar verða metin nokkur dæmigerð karla- og kvennastörf líkt og miðað var við í tillögu starfshóps um starfsmat. Hjá Ríkisspítölunum hefur verið sett á fót nefnd skipuð fulltrúum stjórnenda Ríkisspítala, fulltrúum starfsfólks frá stéttarfélögum innan heildarsamtaka launþega, þ.e. ASÍ, BSRB og háskólamenntaðra starfsmanna. Þessi nefnd ásamt starfsfólki verkefnisins sér um framkvæmd starfsmatsverkefnis innan Ríkisspítala í samræmi við ákvarðanir starfshópsins um starfsmat. Nefndin er tekin til starfa og meðal verkefna sem fram undan eru hjá henni er að aðlaga starfsmatskerfið, sem ákveðið hefur verið að nota í verkefninu, að aðstæðum sjúkrahússins.

Eins og starfshópurinn um starfsmatið lagði til verður hluti af tilraunaverkefninu fólginn í starfsmati hjá Reykjavíkurborg. Þar hefur lítillega verið vikið frá upphaflegri tillögu starfshópsins um að gera starfsmat hjá einni stofnun eða fyrirtæki hjá borginni. Ástæðan er sú að til að uppfylla markmið verkefnisins, þ.e. að bera saman hefðbundin störf karla og kvenna, var talið nauðsynlegt að gera starfsmat hjá tveimur stofnunum í stað einnar af því það fannst ekki ein stofnun hjá borginni sem væri upplagt að gera starfsmatið í. Það skiptist nokkuð mikið í annað hvort karlastofnanir eða kvennastofnanir. Þannig má bera saman störf á milli stofnana þar sem konur eru í miklum meiri hluta annars vegar og karlar hins vegar. Fyrir valinu hjá Reykjavíkurborg urðu Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Hitaveitan og er undirbúningur að starfsmati innan þessara stofnana vel á veg kominn. Starfshópurinn hefur einnig fengið vilyrði frá fyrirtæki á einkamarkaði um þátttöku í tilraunaverkefninu. Framkvæmd starfsmats þar verður svo látin bíða um skeið og ræðst framhaldið nokkuð af því hvernig starfsmatsverkefninu miðar hjá Ríkisspítölum og Reykjavíkurborg.

Það er rétt að hafa í huga að hér er um að ræða mjög viðamikið starfsmatsverkefni og einnig er um að ræða fyrsta verkefni hér á landi þar sem sérstök áhersla er lögð á að starfsmatið sé kynhlutlaust eins og það er kallað, þ.e. að haft verði í huga að uppræta kynbundið mat á gildi starfs. Kynbundinn launamunur er svo aftur blettur á íslensku samfélagi og mikilvægt að leita allra leiða til að uppræta hann. Það er mitt mat að kynhlutlaust starfsmat geti skilað þar nokkrum árangri. En þetta er flókið verkefni og það verður að vinna það í góðri sátt við hlutaðeigendur og það er sérstaklega mikilvægt í þessu sambandi þar sem um er að ræða tilraunaverkefni sem gæti, ef vel tekst til, orðið leiðbeinandi og öðrum til eftirbreytni. Vegna þessa hefur verið kostað kapps um að vanda vel til undirbúnings þessa verkefnis. Félmrn. hefur starfsmann í fullu starfi til þess að standa að þessum undirbúningi með starfshópnum um starfsmatið og hefur hún unnið mikið og gott verk.

Þá er spurt hvort ég muni leggja til að starfsmat verði liður í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Það er ráðgert að halda þessu tilraunaverkefni áfram og ljúka því og að því búnu er fyrst hægt að meta hvort rétt sé að fara út í frekari verkefni á þessu sviði eða sérstaka kynningu á kynhlutlausu starfsmati. Þessari tilraun er því miður ekki lokið, og satt að segja hefur tekið lengri tíma en ég vonaði að koma henni á, en málið er flókið eins og ég sagði og það hefur tekið sinn tíma.

Síðan er spurt um reynslu af starfsmati sveitarfélaga. Öflun upplýsinga um starfsmat sveitarfélaganna var hluti af undirbúningsvinnu hópsins. Í því skyni kallaði hópurinn m.a. til fundar við sig fulltrúa sveitarfélaga og stéttarfélaga bæjarstarfsmanna. Enn fremur var leitað til bresks sérfræðings um starfsmats og hann fenginn til að gera úttekt á starfsmatskerfinu sem sveitarfélögin nota. Var það gert til að kanna hvort kerfið stæðist almennt þær kröfur sem gerðar eru til kynhlutlauss starfsmats. Þetta var gert í samráði við höfund kerfisins og launanefnd sveitarfélaganna.

Starfshópurinn ákvað að nota sænskt starfsmatskerfi til grundvallar tilraunaverkefni félmrn. Þetta sænska kerfi hefur verið í þróun undanfarin missiri hjá sænsku vinnumálastofnuninni og það var niðurstaðan að það væri heppilegasta kerfið.