Starfsmat

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:23:05 (981)

1997-11-05 14:23:05# 122. lþ. 19.4 fundur 190. mál: #A starfsmat# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:23]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma inn á þetta mál. Það er alveg ljóst að starfsmat er afar umfangsmikið og ég hugsa að það sé miklu umfangsmeira en menn áttuðu sig á í upphafi. Það er alveg rétt að þetta verkefni hefur gengið tiltölulega rólega en það eru ákveðnar ástæður fyrir því. Það dróst verulega vegna þess að tekist var á um það í nefndinni sem er að gera þetta tilraunaverkefni hvernig ætti að vigta starfsmatið, hvar ætti að vigta það. Með vigt er átt við vægi þátta, hvað þeir eiga að vera miklir í prósentum talið. Sumir vildu vigta það í nefndinni sjálfri sem er að stýra tilraunaverkefninu. Aðrir vildu vigta það inni á viðkomandi vinnustöðum, þ.e. hjá Ríkisspítölunum eða innan Hitaveitunnar eða hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar.

Það var tekist á um þetta mjög lengi. Niðurstaðan varð sú að þetta verður vigtað í nefndinni. Ef það tekst ekki á fjórum vikum þá fer boltinn yfir til vinnustaðanna.

Um tíma var líka talað um að Reykjavíkurborg færi jafnvel út úr verkefninu. Niðurstaðan varð að svo verður ekki. En verkið er miklu umfangsmeira en menn áttuðu sig á þannig að það er alveg ljóst að það mun frestast alla vega í tvo mánuði. Niðurstöðu er því ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi í maí í vor.