Dreifikerfi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:38:46 (987)

1997-11-05 14:38:46# 122. lþ. 19.6 fundur 183. mál: #A dreifikerfi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:38]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Slæm móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á einstökum landsvæðum hafa verið oft til umræðu á Alþingi á undanförnum árum og ekki að ástæðulausu því að fólk sem býr á þessum svæðum sættir sig ekki við það í lok 20. aldar að búa ekki við svipuð skilyrði og aðrir landsmenn til að njóta sendinga útvarps og sjónvarps.

Í ræðu hæstv. menntmrh. kom fram að þetta væri ekki mjög stór hluti landsmanna en fróðlegt væri að heyra tölur ef til væru um það hvað mundi kosta að bæta þarna fullkomlega úr.

Við þessa umræðu lýsi ég ánægju minni með nýja langbylgjusendinn á Gufuskálum og þakka hæstv. menntmrh. fyrir að beita sér fyrir þeirri þörfu framkvæmd. Sendirinn er fyrst og fremst mikið öryggistæki og hann hefur einnig stórbætt útsendingar útvarps til bæði einstakra landshluta og ekki síst til fiskimiðanna í kringum landið. Ég hef heyrt það á mörgum sjómönnum, vinum mínum sem ég þekki vel og treysti, að þeir eru mjög ánægðir með þessar nýju útsendingar og telja að þær hafi stórbætt skilyrði þeirra til að hlusta á útvarp og nú heyra þeir það vel á hafsvæðum þar sem þeir heyrðu ekki bofs áður. Þetta er sjálfsögð þjónusta við þessa fjölmennu stétt og ég tek undir með síðasta ræðumanni að næst hljóta menn að huga að því með hvaða hætti hægt verður að koma sjónvarpinu út á þessi sömu svæði. Það hefur til þessa varla þótt fært vegna kostnaðar og af tæknilegum ástæðum en tækninni fleygir fram og vonandi verður þess ekki langt að bíða að sjómenn geti fengið sjónvarpssendingar og notið þeirra með sama hætti og þeir sem í landi búa.