Utandagskrárumræða um málefni Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:50:47 (993)

1997-11-05 14:50:47# 122. lþ. 19.94 fundur 80#B utandagskrárumræða um málefni Sjómannaskólans# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:50]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir að nefna þetta mál vegna þess að það undirstrikar þann vanda sem stjórn þingsins er í í sambandi við utandagskrárumræður og liggur þannig að í seinni tíð hafa menn tekið upp þann sið eða ósið eftir atvikum að skrá sig á utandagskrárumræður jafnvel margar vikur eða mánuði fram í tímann. Þar af leiðandi eru þessi mál orðin afar sérkennileg í þessari stofnun. Ég segi alveg eins og er að ég styð forseta í því að taka umræðu um formlegt þingskjal fram yfir utandagskrárumræðu. Þannig á það að vera og verður að vera.