Stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:49:40 (1021)

1997-11-05 15:49:40# 122. lþ. 19.92 fundur 77#B stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er þarft að ræða um stöðu Ríkisútvarpsins og framtíð þó að vísu sé ástæða til að ætla og jafnvel óttast að þetta verði ekki sú eina eða síðasta á þessum vetri. Ástæðan er að sjálfsögðu framganga Sjálfstfl. í málefnum Ríkisútvarpsins sem hefur verið og er með miklum endemum. Menn þekkja framgöngu menntmrh. flokksins, bæði fyrrverandi og núverandi, hvað varðar mannaráðningar og fleira og menn þekkja að á landsfundum Sjálfstfl. hefur það lengi verið aðalumfjöllunarefnið og aðalályktunarefnið þannig að heilu landsfundirnir í þessum mikla flokki hafa farið undir það mikla mál að selja Rás 2. Maður undrast alla þá orku sem þessi mikli flokkur leggur í þetta stórmál að hamast (Gripið fram í: Hefur þingmaðurinn verið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins?) á Ríkisútvarpinu og selja Rás 2. --- Það koma fréttir af landsfundinum og þær snúast yfirleitt um þetta að ungliðarnir eru með mikla tillögu um að nú eigi að selja Rás 2. (Gripið fram í: Það er ein í uppsiglingu núna.) Og ein er í uppsiglingu enn, trúlega. En það er ekki von á góðu, herra forseti, þegar ráðherrar þessa flokks, hver á fætur öðrum, leggja stofnunina í einelti. Ég held að þjóðin hafi loksins skilið almennilega það hugtak sem menn hafa verið að ræða í skólunum þegar bent var á samanburðinn við framgöngu Sjálfstfl. í málefnum Ríkisútvarpsins. Þá skildi þjóðin loksins hvað einelti var. Það er þetta sem Sjálfstfl. hefur verið að gera gagnvart Ríkisútvarpinu undanfarin ár. Þetta er mikilvæg menningarstofnun og mikilvægur fjölmiðill sem gegnir vaxandi hlutverki og enn þá mikilvægari í dag, m.a. af tveimur ástæðum, vegna aukinnar samþjöppunar í fjölmiðlun og vegna aukinna erlendra áhrifa, aukins flæðis af erlendu efni. Menningarhlutverk og dagskrárgerð Ríkisútvarpsins er því enn þá mikilvægara en ella. Ég fer þar af leiðandi fram á það, herra forseti, að Sjálfstfl. láti Ríkisútvarpið í friði.