Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 10:32:57 (1026)

1997-11-06 10:32:57# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[10:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Grundvallarmarkmið utanríkisstefnunnar er að tryggja hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi hvort sem er á sviði stjórnmála, öryggismála, viðskipta- eða menningarmála. Þessi hagsmunagæsla verður æ viðameira og margslungnara verkefni og ekki verður hjá því komist að efla utanríkisþjónustuna svo að hún geti betur gegnt hlutverki sínu í breyttum heimi. Líta ber á eflingu þjónustunnar sem fjárfestingu í framtíðaröryggi og velferð íslensku þjóðarinnar í samfélagi þjóðanna. Í þessu skyni var skipuð nefnd sl. vor til að kanna hvernig utanríkisþjónustan geti best rækt skyldur sínar.

Á undanförnum árum hafa æ fleiri ríki kosið að nýta sendiráð sín með markvissari hætti í þágu útflutnings. Þessi þróun hefur átt sér stað samfara gífurlegum breytingum á alþjóðlegu viðskiptaumhverfi þar sem frjálsræði hefur aukist og samkeppni að sama skapi farið vaxandi. Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins, sem tók til starfa 1. september sl., er ætlað að aðstoða íslensk fyrirtæki í þessu nýja umhverfi. Mikilvægur þáttur í þjónustu hennar verður að efla starfsemi sendiráða Íslands á sviði viðskiptamála.

Viðskiptafulltrúar hafa verið ráðnir til Parísar og New York. Tilnefndir hafa verið viðskiptafulltrúar í öðrum sendiráðum. Jafnframt hafa verið staðarráðnir starfsmenn í Moskvu og Berlín til að sinna viðskiptamálum. Ætlunin er að þróa og auka enn frekar starfsemi viðskiptaþjónustunnar á komandi missirum.

Annar þáttur í breyttum áherslum í utanríkisviðskiptastefnu Íslands er að auka tengsl við ríki sem búa við stöðugleika og mikinn hagvöxt. Ekki síst þau ríki þar sem hefð er fyrir sjávarútvegi. Í þessum tilgangi var farið í opinbera heimsókn til Argentínu og Chile í ágúst sl. Með í för voru hátt í 30 fulltrúar íslenskra fyrirtækja og hagsmunasamtaka. Var þetta stærsta viðskiptasendinefnd sem hefur verið með íslenskum ráðherra í för erlendis.

Um það er vissulega ágreiningur hvort hafa eigi samskipti við ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Þetta getur verið álitamál en ég tel ekki rétt að útiloka tengsl við slík ríki, t.d. á sviði markaðsöflunar. Á móti kemur að ekki verður skorast undan því að ræða mannréttindi við ráðamenn þessara ríkja, því að mannréttindi eru ekki innanríkismál heldur grundvallarréttindi sem tilheyra einstaklingnum sem slíkum. Eins og segir í inngangsorðum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: ,,Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.``

Það hefur verið ákveðið að leggja aukna áherslu á upplýsinga- og menningarstarfsemi utanríkisþjónustunnar. Í þeim tilgangi tók til starfa skrifstofa upplýsinga- og menningarmála í ráðuneytinu hinn 1. ágúst sl.

Markviss og öflug þátttaka í norrænu samstarfi er sem fyrr grundvallarþáttur íslenskrar utanríkisstefnu. Til marks um vilja okkar til að styrkja norrænt samstarf er nýleg og löngu tímabær ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að opna sendiráð í Helsinki en eins og kunnugt er hafa Finnar haft sendiráð í Reykjavík síðan 1982. Auk þess má geta samstarfs Norðurlanda um að setja á fót norræna menningarmiðstöð í New York en þar hefur Ísland haft frumkvæði með samþykki ríkisstjórnarinnar um fjárframlag til verkefnisins.

Á sviði Evrópumála eiga Norðurlönd með sér náið samstarf í málaflokkum sem tengjast Evrópusambandinu og á grundvelli EES-samningsins. Aðild Finnlands og Svíþjóðar að ESB hefur ekki dregið út þátttöku þeirra í norrænu samstarfi og hefur á ýmsum sviðum skerpt umræðu og samstarf í málum tengdum ESB. Norrænt samstarf getur því orðið grundvöllur frumkvæðis í einstökum málaflokkum í evrópsku samhengi.

Norðurlöndin leggja áherslu á að samræma stuðning og starfsemi sína í Eystrasaltsríkjunum, Norðvestur-Rússlandi og á heimskautasvæðunum. Ísland hefur tekið virkan þátt í svæðisbundnu samstarfi á vegum Eystrasaltsráðsins og vill þannig leggja sitt af mörkum til að stuðla að efnahagslegum og stjórnmálalegum stöðugleika í norðausturhluta Evrópu.

Norðurskautsráðið var stofnað fyrir rúmu ári og eru skipulagsreglur þess nær fullgerðar. Einungis stendur eftir ágreiningur um hvernig haga skuli brottvikningu frjálsra félagasamtaka, sem veitt hefur verið áheyrnaraðild, ef þau fyrirgera rétti sínum með ábyrgðarlausri framgöngu. Íslendingar og margar aðrar þjóðir hafa bitra reynslu af öfgum slíkra samtaka. Þau njóta mörg hver ekki lýðræðislegs aðhalds en ráða hins vegar yfir miklu fjármagni sem oft er misnotað til blekkjandi áróðurs. Því kemur ekki annað til greina en að áheyrnaraðild þeirra falli niður ef og um leið og ekki ríkir lengur um hana samstaða meðal aðildarríkjanna.

Samskipti við Evrópusambandið eru í föstum farvegi og samstarf innan EES hefur gengið vonum framar. Því er hins vegar ekki að leyna að álag og ábyrgð ríkjanna þriggja sem eftir sitja við rekstur EFTA-hluta EES-samningsins er meiri en áður. Þátttaka Íslands verður að vera öflug og virk í allri umræðu og mótun ákvarðana. Láti íslensk stjórnvöld sitt eftir liggja í því starfi verður hlutur Noregs sem stærsta ríkisins EFTA megin í EES hlutfallslega stærri. Það gæti stefnt fjölþjóðlegu eðli samstarfsins í hættu. ESB hefur staðið við sínar skuldbindingar en það er engu að síður full ástæða til að fylgjast grannt með því að aðildarríki þess virði stöðu Íslands, Noregs og Liechtenstein sem fullgildra aðila í hinum innri markaði. Það eftirlit framkvæmir enginn fyrir okkur en EES-samningurinn er í stöðugri þróun rétt eins og Evrópusambandið sjálft.

Stærstu málin sem Evrópusambandið þarf að kljást við á næstu missirum er stofnun Efnahags- og myntbandalagsins, EMU, og aðild nýrra ríkja. Æ fleiri telja að ekki verði aftur snúið varðandi stofnun Efnahags- og myntbandalagsins.

Í desember næstkomandi verður tekin ákvörðun um hvernig staðið verður að aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögur um að viðræður hefjist fyrst í stað við sex ríki en önnur fimm ríki fái áfram aðstoð við undirbúning aðildar. Enn fremur hefur hún lagt til að stofnaður verði sameiginlegur evrópskur umræðuvettvangur um utanríkismál, sem taki til ESB-ríkja og allra umsóknarríkja. Hafa verður í huga að aðild nýrra ríkja að ESB er sjálfkrafa aðild að EES. Það er því brýnt að Ísland og önnur EFTA-ríki fylgist með samningaferlinu sem fram undan er. Verður það eitt helsta verkefni Íslands, sem tekur við formennsku í EFTA í byrjun næsta árs, að sjá til þess að svo verði. Einnig verður haldið áfram að efla samskipti EFTA við ýmis ríki utan ESB, svo sem við ríki Asíu, Suður-Ameríku og Miðjarðarhafslönd.

Frjáls för fólks er snar þáttur EES-samningsins en hann tekur ekki til vegabréfaeftirlits á landamærum. Samstarf um það verkefni hefur hins vegar verið virkt um nokkra hríð meðal nokkurra Evrópusambandsríkja samkvæmt ákvæðum Schengen-samningsins svokallaða. Öll aðildarríki Evrópusambandsins, að Bretlandi og Írlandi frátöldum, hafa nú samið um aðild að Schengen og Ísland og Noregur gengu frá samstarfssamningi í desember á síðasta ári. Afnám vegabréfaeftirlits er háð þátttöku í tölvuvæddu upplýsingakerfi sem aftur krefst töluverðs undirbúnings. Afnám vegabréfaeftirlitsins milli Norðurlanda og annarra Schengen-ríkja getur því vart orðið að veruleika fyrr en árið 2000.

Þegar samkomulag náðist um það í Amsterdam meðal aðildarríkja ESB að fella skyldi Schengen-samstarfið inn í Evrópusambandið var tekið fram að virða skyldi samstarfssamninga um Schengen við Ísland og Noreg. Þeir samningar verða því áfram grundvöllur framtíðarsamstarfs Íslands við ESB um þau málefni sem falla undir Schengen-samninginn. Hins vegar þarf að ganga frá sérstakri bókun eða samningi vegna þess að Schengen-samstarfið var fellt inn í Evrópusambandið. Samningaviðræður milli Íslands, Noregs og ESB um þetta hefjast síðar í þessum mánuði.

Málið er í sjálfu sér ekki flókið og ættu því ekki að vera neinir örðugleikar á að ganga frá samningi tiltölulega fljótt. Afstaða Íslands og Noregs er ljós. Tryggja þarf fulla þátttöku í allri umræðu um Schengen-málefni eftir að þau falla undir ESB en stofnanir þess geta ekki haft sama hlutverk gagnvart Íslandi og Noregi og gagnvart aðildarríkjum þess. Nýi samningurinn verður að vera þjóðréttarsamningur líkt og samstarfssamningurinn. Það eru hins vegar gömul sannindi og ný að hjól innan ESB snúast hægt. Enn hefur ekki verið gengið frá því á hvaða lagagrunni einstakar Schengen-gerðir verða felldar inn í ESB-kerfið. Einnig er óljóst að hve miklu leyti Bretland og Írland muni koma að þessu samstarfi. Þótt þetta tengist ekki beint samningum við Ísland og Noreg getur það valdið töfum. Enn fremur er óljóst hversu langan tíma fullgildingarferli vegna Amsterdam-samningsins tekur.

Norræna vegabréfasambandið hefur reynst vel. Hefðu samningar ekki náðst við Ísland og Noreg um þátttöku í Schengen-samstarfinu hefði Norræna vegabréfasambandið verið úr sögunni. Í þess stað má segja að með tilkomu Schengen sé það bæði útvíkkað og eflt til að greiða enn frekar fyrir för hins almenna ferðalangs. Jafnframt fylgir því stóraukið samstarf yfirvalda um eftirlit með glæpamönnum, hryðjuverkamönnum og öðrum þeim sem kynnu að vilja misnota hið nýfengna frelsi.

Í sumar var sett á fót fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu til að undirstrika þá áherslu sem við leggjum á starfsemi þess og til að undirbúa formennsku Íslands í ráðinu eftir rösklega eitt og hálft ár.

Hornsteinninn í starfsemi Evrópuráðsins er efling og varðveisla mannréttinda ásamt styrkingu lýðræðisþróunar í aðildarríkjunum. Í ljósi aðlögunar ríkja Mið- og Austur-Evrópu að vestrænum stjórnarháttum hefur Evrópuráðið því geysilega mikilvægu hlutverki að gegna.

Ísland styður heils hugar nýja skipan mannréttindadómstóls Evrópu og leggur áherslu á skilvirkara eftirlitshlutverk Evrópuráðsins á sviði mannréttinda. Mikilvægt er að stækkun ráðsins leiði ekki til lakari mælikvarða á þessu sviði þar sem virðing fyrir mannréttindum er órjúfanlegur hluti af tryggingu öryggis og jafnvægis í Evrópu.

Undanfarin ár hafa verið mikill umbrotatími í öryggis- og varnarmálum Evrópu. Í stað ógnarjafnvægis kalda stríðsins er í örri þróun nýtt öryggisfyrirkomulag þar sem ólíkar alþjóðastofnanir vinna saman að tryggingu öryggis og friðar í álfunni. Skýrasta dæmið er samvinna þessara stofnana í Bosníu þar sem SFOR, herlið Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess í Mið- og Austur-Evrópu, tryggir öruggt umhverfi til að aðrar alþjóðastofnanir geti sinnt uppbyggingarhlutverki sínu á grundvelli Dayton-friðarsamkomulagsins.

[10:45]

Auk NATO gegnir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, hvað veigamestu hlutverki í Bosníu. Stofnunin hefur m.a. haft með höndum undirbúning og eftirlit með framkvæmd kosninga í landinu, hefur stuðlað að eflingu mannréttinda og er vettvangur afvopnunarviðræðna. Aðrar stofnanir sem taka þátt í þessari starfsemi eru m.a. Sameinuðu þjóðirnar, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandið og Alþjóðabankinn.

Ísland hefur lagt sitt af mörkum til enduruppbyggingar í Bosníu. Fyrir utan framlag að fjárhæð 1,7 millj. Bandaríkjadala starfar íslensk heilsugæslusveit í SFOR undir verkstjórn breska hersins. Sveitina skipa tveir læknar og tveir hjúkrunarfræðingar. Ísland leggur einnig til þrjá lögreglumenn í alþjóðalögreglulið Sameinuðu þjóðanna.

Það er geysilega mikilvægt að Ísland taki þátt í samstarfi sem þessu og skorist ekki undan ábyrgð á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir skort á þeirri sérþekkingu sem felst í hernaðarlegum hluta friðargæslu höfum við alla burði til að sinna slíkum verkefnum. Það starf byggir ekki eingöngu á fólki sem hlotið hefur hefðbundna herþjálfun heldur einnig fólki með sérþekkingu á öðrum sviðum svo sem læknisfræði eða verkfræði. Þar höfum við mjög hæfu fólki á að skipa. Það sama gildir um lögregluna. Gera má ráð fyrir aukinni þörf á alþjóðlegum lögreglusveitum í framtíðinni. Á því sviði eigum við einnig úrvalsfólk.

Atlantshafsbandalagið sem tekið hefur gífurlegum breytingum frá því á tímum kalda stríðsins er hornsteinninn í hinu nýja öryggiskerfi Evrópu. Herafli bandalagsins hefur gert því kleift að takast á hendur erfitt friðarstarf í Bosníu-Hersegóvínu þar sem engin önnur alþjóðastofnun reyndist í stakk búin til að koma á og viðhalda friði. Með stofnun Evró-Atlantshafssamvinnuráðsins og eflingu friðarsamstarfsins er samstarfsríkjunum opnuð leið til að taka fullan þátt í áætlunum Atlantshafsbandalagsins um friðargæslu og aðgerðum til að koma á friði.

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madrid í júlí sl. var þremur ríkjum boðið til aðildarviðræðna. Samstaða aðildarríkjanna sextán um stækkunina var alger þrátt fyrir áherslumun um fjölda þeirra ríkja sem bjóða ætti til aðildar í fyrstu lotu. Niðurstaðan sem náðist var mjög í samræmi við þá afstöðu Íslands að takmarka ætti fyrstu umferð stækkunar við sem fæst ríki en bandalagið stæði áfram opið fyrir nýjum aðildarríkjum.

Ég hef lagt áherslu á öryggishagsmuni Eystrasaltsríkjanna í umræðunni um stækkun Atlantshafsbandalagsins og beitti Ísland sér ákveðið í aðdraganda leiðtogafundarins í þá veru. Í yfirlýsingu leiðtogafundarins í Madrid var sérstaklega vikið að öryggishagsmunum Eystrasaltsríkjanna og vísað til þess að dyr bandalagsins stæðu áfram opnar. Það er von mín að þessi ríki nýti þau tækifæri sem í boði eru á samstarfi við bandalagið og aðildarríki þess á vettvangi friðarsamstarfsins og Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins.

Í ljósi þessa vil ég ítreka að ekki má líta á stækkun NATO úr samhengi við hið nýja öryggisfyrirkomulag Evrópu. Þau ríki, sem ekki koma til með að gerast aðilar að NATO í nánustu framtíð, eru með einum eða öðrum hætti aðilar eða samstarfsaðilar þeirra stofnana sem mynda öryggisfyrirkomulagið. Þannig eru öll ríkin aðilar að Sameinuðu þjóðunum og ÖSE sem gegna veigamiklu hlutverki í evrópskum öryggismálum. Flestöll eru þegar orðin aðilar að Evrópuráðinu. Önnur hafa sótt um aðild að ESB og/eða hafa við það samstarf. Það er því ekkert ríki sem stendur eitt og sér utan evrópska öryggisnetsins. Öll taka þau þátt í því með einum eða öðrum hætti.

Með eflingu samstarfs Atlantshafsbandalagsins við Rússland og Úkraínu hafa þessi ríki beinan aðgang að samráði og samvinnu við bandalagið. Hvernig til tekst með samstarfið við Rússland innan ramma bandalagsins og á öðrum alþjóðavettvangi kemur til með að hafa afgerandi áhrif á öryggisumhverfið í heild sinni.

Það fer heldur ekki á milli mála að Öryggissamvinnustofnun Evrópu gegnir lykilhlutverki í tryggingu friðar og öryggis í Evrópu. Þessi stofnun sem öll Evrópuríki auk Bandaríkjanna og Kanada eru aðilar að hefur sótt í sig veðrið á undanförnum árum. ÖSE hefur sem fyrr segir gegnt veigamiklu hlutverki í Bosníu. Framganga sendinefndar ÖSE átti stærstan þátt í því að það tókst að koma í veg fyrir borgarastyrjöld í Albaníu. Það sama má segja um þau mál sem ÖSE hefur komið að bæði í Serbíu, Króatíu og einnig í Tsjetsjeníu og Nagorno-Karabakh. Í ljósi vaxandi mikilvægis ÖSE fyrir öryggi Evrópu, sérstaklega á sviðum þar sem við höfum mikið fram að færa, svo sem á sviði mannréttinda og lýðræðisuppbyggingar, tel ég brýna þörf á því að opna á ný fastanefnd Íslands hjá ÖSE í Vín. Þar eru öll aðildarríkin 55 með fulltrúa nema Ísland og Andorra.

Hættan á styrjöld í Evrópu er orðin afar fjarlæg og engar beinar hernaðarlegar ógnir steðja að Íslandi. Engu að síður eru það margir óvissuþættir í öryggismálum Evrópu að Ísland verður áfram að búa við trúverðugar varnir. Það er engin launung á því að við erum undir stöðugum þrýstingi frá samstarfsríki okkar í varnarmálum um að spara í útgjöldum vegna varnarstöðvarinnar. Verulegur árangur hefur náðst varðandi sparnað í samvinnu við varnarliðið. Mikilvægast í þessu sambandi er að á undanförnum missirum hefur verið komið á útboðum varðandi flestar varnarliðsframkvæmdir og kaup þess á vörum og þjónustu. Í stórum dráttum gilda nú almenn markaðslögmál varðandi viðskipti við varnarliðið.

Umræðan um varnarmál hefur oft snúist frekar um atvinnumál, flugstöðvarrekstur og verktöku en raunveruleg öryggismál landsins. Þessir þættir eru auðvitað mikilvægir vegna þeirra þjóðhagslegu áhrifa sem þeir hafa en mega ekki vera ráðandi þættir í umræðunni um varnarmál.

Ég tel því nauðsynlegt að við hefjum þegar vinnu við að meta varnarþarfir okkar þegar til lengri tíma er litið í ljósi breyttra aðstæðna. Þar eigum við að hafa þrjá þætti að leiðarljósi:

Í fyrsta lagi að tryggja áfram trúverðugar varnir fyrir Ísland.

Í öðru lagi að auka framlag Íslands til eigin öryggis og sameiginlegs öryggis bandalagsríkja okkar með öflugri þátttöku í friðarsamstarfi og friðargæslu.

Í þriðja lagi að taka ábyrgan þátt í mótun nýs öryggiskerfis fyrir Evrópu með markvissari þátttöku í NATO, innan friðarsamstarfsins, í ÖSE og í VES.

Við komum ekki til með að bjóða fram herstyrk eða umtalsvert fjármagn heldur fyrst og fremst miðla af langri reynslu okkar á sviði mannúðarmála og uppbyggingu lýðræðislegra stofnana. Þar höfum við mikilvægt lóð að leggja á vogarskálarnar.

Við höfum þegar lagt allmikið af mörkum. Þar ber hæst almannavarnaræfinguna Samvörð 97 sem var haldin hér í sumar. Þar komu saman sveitir frá 20 ríkjum til að æfa viðbrögð við stóráfalli. Þessi æfing hefur fengið afar jákvæða athygli erlendis. Sérstaklega hefur verið á það bent að stjórn æfingarinnar hafi tekist með miklum ágætum en þetta er í fyrsta skipti sem æfingu innan friðarsamstarfsins er stýrt af borgaralegum aðila. Vil ég færa Almannavörnum ríkisins og þeim fjölmörgu björgunaraðilum sem að æfingunni komu sérstakar þakkir fyrir þeirra merka framlag. Jafnframt tel ég rétt að efna til annarrar æfingar í náinni framtíð, þar sem lögð er áhersla á að tryggja öryggi fólks í glímunni við náttúruöflin. Þar kæmi m.a. til greina að æfa samræmingu björgunarstarfs þjóða á norðanverðu Atlantshafi.

Markvisst hefur verið unnið að því að leysa langvarandi fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar með víðtækri endurskipulagningu rekstrar og þjónustu. Viðskiptahættir í stöðinni hafa verið færðir í nútímalegra horf. Með aukinni þjónustu og útboðum eru nú allar horfur á að stöðva megi skuldasöfnun vegna flugstöðvarinnar og byrja að greiða niður skuldir. Ekki eru allir ánægðir en um eitt hljótum við að vera sammála, skuldasöfnunina varð að stöðva og það hefur nú verið gert.

Þessar aðgerðir eru ein mikilvægasta forsenda þess að hægt verði að ráðast í stækkun flugstöðvarinnar, en í ljósi vaxandi umferðar og metnaðarfullra framtíðaráforma flugrekstraraðila og ferðamannaiðnaðarins er ljóst að ekki verður lengur beðið með að taka ákvarðanir um stækkunina.

Æ fleiri vandamál heimsbyggðarinnar verða því aðeins leyst að sem flestar þjóðir taki höndum saman. Því hefur mikilvægi Sameinuðu þjóðanna líkt og annarra alþjóðastofnana farið vaxandi.

Á undanförnum árum hafa aðildarríki Sameinuðu þjóðanna reynt að ná samkomulagi um víðtækar breytingar til að búa stofnunina undir að takast á við krefjandi úrlausnarefni sem blasa við í dögun nýrrar aldar. Skömmu eftir að Kofi Annan tók við embætti aðalframkvæmdastjóra í byrjun árs sagðist hann setja endurbætur stofnunarinnar á oddinn. Í því skyni lagði hann fram umfangsmiklar tillögur í júlí sl. þar sem hann freistaði þess að ná málamiðlun um raunhæfar aðgerðir. Á fundi mínum með hr. Annan á meðan á opinberri heimsókn hans stóð hér á landi í byrjun september lýsti ég eindregnum stuðningi íslenskra stjórnvalda við endurbótastarfið.

Mikilvægt er að umbótastarfið beri árangur og að rekstur stofnunarinnar verði færður í nútímalegra horf. Einnig er mikilvægt að öll aðildarríki greiði skylduframlög sín tímanlega og að fullu, án skilyrða. Þess verður jafnframt að gæta að endurbæturnar skerði ekki framkvæmdagetu stofnunarinnar heldur styrki umsvif hennar og skilvirkni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa unnið geysilega mikilvægt starf á sviði mannréttinda, ekki síst með gerð alþjóðasamninga. Í ræðu minni á allsherjarþinginu í haust gafst mér tækifæri til að minna á nauðsyn þess að bæta hlut kvenna en einnig þarf að tryggja vel mannréttindi annarra sem eiga á brattann að sækja eins og barna. Tryggja verður að umræða og umhyggja fyrir mannréttindum fari ekki minnkandi. Barátta fyrir umhverfisvernd fær sífellt aukinn meðbyr og er það vel. Sú umræða má hins vegar ekki verða á kostnað mannréttinda heldur verða frekar hluti af mannréttindaumræðunni. Þessir tveir málaflokkar eru ótvírætt mjög samofnir og er það reyndar eðli mannréttinda að þau eru órjúfanlegur hluti nánast hvaða málaflokks sem er hvort sem það eru öryggismál, viðskiptamál, þróunarmál eða umhverfismál

Það vekur vissan ugg hversu umhverfisverndarsinnum hefur tekist að fá almenning í hinum iðnvæddu ríkjum til að fylkja sér gegn hvers konar nýtingu sjávarspendýra og ýmissa annarra dýrategunda sem ekki eru í útrýmingarhættu. Ég tel að við eigum oftar en ekki samleið með þróunarríkjunum í þessum málum. Það hvernig á þessum málum er haldið mun í framtíðinni hafa áhrif á lífsviðurværi margra þjóða. Það er ekki hægt að líða iðnríkjunum að gera þau ríki sem lifa á náttúruauðlindum að einhvers konar þjóðgörðum. Það er ekki hægt að líða það.

Það var mikið ánægjuefni að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skyldi sækja Ísland heim í haust. Með því gafst gott tækifæri til að ræða við hann um málefni Sameinuðu þjóðanna og hagsmunamál Íslands.

Sameinuðu þjóðirnar hafa reynst eini mögulegi vettvangur allra þjóða heims til að ná árangri í umhverfisvernd og jafnframt að tryggja rétt þjóða til skynsamsamlegrar nýtingar lifandi auðlinda sjávarins. Öflug hagsmunagæsla á þessum vettvangi er nauðsynleg. Íslensk stjórnvöld hafa skipað nefnd til að sinna þætti Íslands í Ári hafsins 1998, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa efnt til.

Í athugun er aðild Íslands að sáttmálanum um alþjóðleg viðskipti með dýra- og jurtategundir í útrýmingarhættu (CITES). Ísland tók þátt í ársfundi aðildarríkja þessa samnings í sumar og lagði áherslu á að stefnt yrði að svæðisbundnum lausnum á vandamálum varðandi sjálfbæra þróun lifandi auðlinda. Það er nauðsynlegt að stuðla að skynsamlegri umræðu um þessi mál á alþjóðavettvangi og hef ég varað við því að látið verði undan þrýstingi óábyrgra verndunarsamtaka sem ekki viðurkenna tengslin á milli verndunar umhverfisins og nýtingar auðlinda.

Á ráðstefnu aðildarríkja rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldin verður í Kyoto í Japan í desember næstkomandi verður þess freistað að ganga frá bókun við samninginn þar sem kveðið verði á um bindandi mörk losunar gróðurhúsalofttegunda í einstökum aðildarríkjum. Í samningaviðræðum til undirbúnings ráðstefnunnar hafa komið fram margar mismunandi tillögur og er samkomulag ekki í sjónmáli. Ísland hefur lagt áherslu á eftirtalin atriði: að bókunin taki til allra gróðurhúsalofttegunda; að binding kolefna, t.d. landgræðsla og skógrækt verði metin til jafns við aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda; að skuldbindingar miðist við losun á hvern íbúa þannig að tillit verði tekið til mismunandi þróunar fólksfjölda í einstökum ríkjum; og að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja svo sem eins og Íslands sem mætir orkuþörf sinni að verulegu leyti með endurnýjanlegum orkugjöfum. Af Íslands hálfu er lögð á það rík áhersla að nýjar skuldbindingar takmarki ekki möguleika aðildarríkja til að nýta endurnýjanlega orkugjafa sem ekki hafa í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda. Slíkar skuldbindingar eru andstæðar þeim markmiðum sem stefnt er að, auk þess að hindra efnahagslegar framfarir sem byggja á sjálfbærri þróun.

[11:00]

Síðastliðið sumar náðist samkomulag milli Íslands annars vegar og Danmerkur og Grænlands hins vegar um afmörkun umdeilda hafsvæðisins norður af Kolbeinsey. Samkomulagið felur í sér viðurkenningu á fullum áhrifum Grímseyjar við afmörkunina og hafsvæðið umdeilda vegna Kolbeinseyjar skiptist þannig að Íslendingar fá 30% í sinn hlut og Grænlendingar 70%. Telja verður þessa niðurstöðu vel viðunandi enda var það mat íslenskra stjórnvalda að fengnu áliti innlendra og erlendra sérfræðinga á þessu sviði, að við fengjum ekki betri niðurstöðu í dómsmáli.

Eins og kunnugt er var í desember síðastliðnum lokið gerð samnings milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Nú í lok október var gengið frá samkomulagi fyrir vertíðina árið 1998 með sömu hlutfallslegu skiptingu og fyrr, en 13,2% lægri heildarafla. Við þá ákvörðun var tekið fullt tillit til ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES). Hlutur Íslands verður 202.000 lestir.

Tilkynnt hefur verið um uppsögn loðnuveiðisamningsins milli Íslands, Grænlands og Noregs, en hann hefur verið í gildi frá árinu 1994 og mun gilda til og með 30. apríl á næsta ári. Uppsögn samningsins á sér stað nú í þeim tilgangi að rétta hlut Íslands, en ljóst er að nokkrar af forsendum samningsins eru brostnar, svo sem útbreiðsla stofnsins. Það er fullur vilji ríkisstjórnarinnar að hafa vinsamleg samskipti við Grænlendinga og Norðmenn um stjórn loðnuveiðanna og er stefnt að viðræðum á næstu vikum um nýjan loðnuveiðisamning.

Fram undan eru margvísleg vandasöm úrlausnarefni á sviði fiskveiði- og sjávarútvegsmála. Engu að síður er full ástæða til bjartsýni vegna þess hve skilningur á samstarfi þjóða á þessu sviði fer stöðugt vaxandi. Mikilvægt er að hafa ávallt í huga að einungis með samstarfsvilja aðila næst góður árangur. Drög að samningi Íslands og Rússlands frá því í ágúst síðastliðnum um samstarf á sviði rannsókna, veiða og viðskipta á sjávarútvegssviðinu er ánægjulegur vitnisburður um framtíðarsamstarf nágranna sem mun koma báðum aðilum til góða er fram líða stundir.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur mikið þarfaverk í þeim ríkjum sem hún á samstarf við eins og Namibíu, Mósambík, Malaví og á Grænhöfðaeyjum. Ríkisstjórnin gerði samþykkt nýlega sem mun leiða til aukinnar starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á næsta ári og auðvelda mun langtíma stefnumörkun varðandi verkefnaval stofnunarinnar. Í dag fær stofnunin 172 millj. ísl. kr., en gert er ráð fyrir 250--300 milljónum árið 2000 og 400--500 milljónum árið 2003.

Ísland fer nú með formennsku fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í þróunarnefnd Alþjóðabankans sem markar stefnu bankans í þróunarmálum. Á fundi nefndarinnar í Hong Kong í haust lagði ég áherslu á leysa þyrfti vandamál skuldsettustu þróunaríkjanna og lýsti yfir fullum stuðningi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við frumkvæði bankans á því sviði. Ég fagnaði nýrri áherslu bankans á baráttu gegn spillingu og fyrir bættum stjórnarháttum og lýsti yfir stuðningi við sérstakt átak bankans til að auka fjráfestingar einkaaðila í orkumálum og samgöngu- og fjarskiptakerfum í þróunarríkjunum.

Það sem hefur borið hæst á sviði afvopnunarmála á síðari hluta þessa árs er tvímælalaust hin jákvæða þróun sem átt hefur sér stað í baráttunni gegn jarðsprengjum. Er þar skemmst að minnast nýafstaðinnar ráðstefnu í Ósló þar sem samningsdrög að algjöru jarðsprengjubanni voru samþykkt af fulltrúum nærri 90 ríkja, þar á meðal Íslands. Íslensk stjórnvöld líta á þetta sem mannúðarmál, en hreinsun á jarðsprengjum er eitt erfiðasta og kostnaðarsamasta verkefnið í sambandi við uppbyggingu samfélagsins eftir ófriðarlok. Ísland mun að sjálfsögðu undirrita samninginn um jarðsprengjubann í Ottawa í byrjun desember og þar með axla þá ábyrgð sem samningurinn leggur aðildarríkjunum á herðar til að útrýma þessari miklu vá.

Herra forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef til umráða hef ég minnst á helstu viðburði í íslenskum utanríkismálum og leitast við að skýra utanríkisstefnu Íslands í grófum dráttum. Á sviði utanríkismála blasa verkefnin hvarvetna við. Verkefni, sem tengjast hagsmunum þjóðarinnar á öllum sviðum, þau eru jafnframt samofin örlögum annarra þjóða sem okkur ber að láta okkur annt um. Baráttan gegn fátækt, hungri, misrétti, ofbeldi og margvíslegum hörmungum verður aldrei háð með árangri án samstöðu þjóða. Við munum aldrei ná árangri í eigin baráttu án skilnings á stöðu annarra.