Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 11:05:20 (1027)

1997-11-06 11:05:20# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[11:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu og ekki síst það fróðlega yfirlit um starfsemi utanrrn. sem er að finna í skýrslunni sem fylgir ræðunni og lögð var í hólf okkar þingmanna. Ég og hæstv. ráðherra erum í mismunandi pólitískum flokkum. Við höfum mismunandi pólitískar skoðanir og þar af leiðandi er það afar margt sem ég set spurningarmerki við. Eigi að síður er ýmislegt í þessari ræðu sem ber að þakka hæstv. ráðherra og sér í lagi vil ég segja að ég var mjög ánægður með það sem kom fram í niðurlagi ræðu hæstv. utanrrh. þegar hann beindi tali sínu að þróunarmálum. Ég tel að sú stefnubreyting sem hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir þar sé mjög lofsverð. Í kjölfar magurra ára er ljóst að við blasir góðæri í íslensku þjóðfélagi og við höfum ákveðnar móralskar skyldur til þess að láta meira fé af hendi rakna til þeirra þjóða sem eru verr staddar en við. Mér sýnist á því sem hæstv. ráðherra sagði að þá mundi þetta leiða til þess að upp úr aldamótunum verði búið þrefalda þróunaraðstoðina. Ég tel það þakkarvert. Sömuleiðis held ég að sú breyting, sem hann hefur beitt sér fyrir og gerir það að verkum að Þróunarsamvinnustofnunin getur nú lagt línur til fleiri ára en áður, muni gera starfsemi hennar og þróunaraðstoðina miklu skilvirkari og hnitmiðaðri en áður. Fyrir þetta ber að þakka.

Herra forseti. Það liggur í hlutarins eðli að af hálfu þjóðar sem á velferð sína að stórum hluta undir fiskveiðum hlýtur utanríkisstefnan að verulegu leyti að markast af þessari sérstöðu. Hæstv. ráðherra gerði uppsögn loðnusamningsins að umtalsefni undir lok sinnar ræðu og ég verð að segja að þar eru ýmis álitaefni uppi.

Loðnusamningurinn er í eðli sínu þríhliða samningur millum okkar, Noregs og Grænlendinga þar sem við fáum obbann af stofninum eða 78% meðan hinar tvær þjóðirnar fá 11% hvor, en í rauninni höfum við verið að veiða 80--90% vegna þess að við fáum þann afgang sem til fellur frá hinum þjóðunum. Samningurinn er okkur að mörgu leyti hagstæður og ég tel að það þurfi sérstakar aðstæður til þess að segja honum upp. Ég tel að það séu sérstakar aðstæður fyrir hendi núna. Ég tel að þær erfiðu deilur sem við höfum átt í í samskiptum okkar við Norðmenn og sú framkoma sem þeir hafa sýnt okkur, réttlæti fyllilega að segja þessum samningi upp. En ég hefði talið að það ætti að minnsta kosti að liggja alveg skýrt fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að með þessu væri verið að sýna Norðmönnum fram á það að við kunnum að taka á móti og við viljum fá samning, draga þá að samningaborðinu, um þau mál sem nú eru útistandandi og þá er ég ekki síst að tala um deiluna í Barentshafi.

Markmiðið með uppsögn samningsins kom hins vegar giska skýrt fram í ræðu hæstv. ráðherra. Þar er ekki minnst á að það eigi að nota þetta til þess að reyna að ráða til lykta heildardeilum okkar við Norðmenn. Þar er talað um það að uppsögn samningsins hafi verið ákveðin til þess að rétta hlut Íslands í loðnuveiðunum. Ég hlýt að skilja þetta þannig að hæstv. ráðherra telji að það sé mögulegt fyrir okkur að ná hærri prósentu en þeirri sem er í samningnum og ég óska honum góðs gengis með það ef hann telur að það sé unnt. Ég set hins vegar spurningarmerki við rökstuðninginn sem kemur fram fyrir uppsögninni.

Herra forseti. Þar nefnir hæstv. ráðherra sérstaklega útbreiðslu stofnsins. Það er auðvitað rétt að loðnan hefur ekki um tíu ára skeið gengið til Jan Mayen en hún gerði það áður og hún getur gert það aftur og þá mun skipta máli fyrir okkur að geta veitt þar líka. Það skiptir þó ekki öllu máli heldur finnst mér mikilvægara að skoða þessa röksemdafærslu með hliðsjón af samningum okkar um norsk-íslensku síldina. Þar höfum við nefnilega gert harða kröfu um hlutdeild sem mér finnst byggjast á rökum sem ganga þvert á þau rök sem hæstv. utanrrh. færir fyrir aukinni hlutdeild okkar í loðnuveiðunum. Þar kröfðumst við nefnilega hlutdeildar í krafti veiðireynslu en ekki dreifingar. Að vísu var sérstakt þróunarákvæði í síldarsamningnum sem ríkisstjórnin sagði að yrði notað af hennar hálfu til þess að krefjast aukinnar hlutdeildar í norsk-íslenska stofninum ef hann tæki aftur upp göngur inn í íslensku efnahagslögsöguna. En þetta getur auðvitað verkað á báða vegu, herra forseti. Ég óttast að í ljósi þeirrar röksemdafærslu sem hér er höfð uppi varðandi loðnuna þá geti þetta ákvæði snúist í höndum okkar og Norðmenn gætu vakið upp þróunarákvæðið og krafist enn minni hlutdeildar Íslendinga úr síldarsamningnum en við höfum í dag og notað nákvæmlega sömu rök og hæstv. ráðherra gerir til þess að skýra þessa uppsögn loðnusamningsins. Ég tel að menn verði að vera sjálfum sér samkvæmir og ég held að ríkisstjórnin sé í þessari röksemdafærslu komin út á hála braut og beinlínis leggi vopn í hendur þeirra manna sem síst skyldi.

Ég vil líka segja um loðnusamninginn að ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur að hafa góð samskipti við Grænlendinga. Miðað við það hvernig Norðmenn hafa komið fram við okkur í samningunum þá grunar mig að samningur um loðnuna gæti dregist á langinn. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. hvort hann telji að það sé möguleiki í stöðunni, ef það gerist, að gera tvíhliða samning við Grænlendinga um loðnustofninn.

Herra forseti. Stór hluti ræðu hæstv. ráðherra snerist eðlilega um þróun Evrópusambandsins. Við jafnaðarmenn erum þeirrar skoðunar að langtímahagsmunir Íslands felist í því að Ísland verði í fyllingu tímans fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Gegn þessu hafa menn eðlilega fært ýmis rök. Í fyrsta lagi er því haldið fram að EES-samningurinn sé það góður að hann nægi okkur fullvel. Það er að sönnu rétt að sá samningur var okkur afar hagstæður og við náðum gífurlega mikilvægum tollafríðindum gegnum hann. Þetta er eitt af því sem við jafnaðarmenn erum hvað stoltastir af í þeirri arfleifð sem við höfum skilið eftir okkur í ríkisstjórnum. Utan Evrópusambandsins höfum við hins vegar lítil áhrif á þróun sambandsins sem nú er á barmi mikillar stækkunar og mikilla breytinga er að vænta innan sambandsins. Þessi stækkun kann eðlilega að breyta stöðu ríkja eins og okkar sem stöndum utan við, jafnvel þó við höfum hálfgildings aukaaðild í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Ég held að byrjunin hafi verið góð með EES en að til langframa verði hagsmunum okkar gagnvart Evrópu ekki að fullu borgið nema sem fullgildum þátttakanda innan þessa sambands. Og þar held ég reyndar að við hefðum góða stöðu vegna þess að hið hefðbundna samstarf okkar við Norðurlöndin mundi skapa okkur nokkuð tryggt vægi. Ég vek líka eftirtekt á því að um þessar mundir er nánast hvert einasta ríki í Mið- og Austur-Evrópu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ekkert þeirra hefur óskað eftir því að gerast aðili að EES. Hvers vegna? Vegna þess að þessi ríki eru að horfa til langs tíma og þau telja og skilja að hagsmunum þeirra til lengri framtíðar horft sé betur borgið innan sambandsins.

Í öðru lagi, herra forseti, hafa menn sett fyrir sig hina sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Því er stöðugt haldið fram í umræðunni að vegna sameiginlegrar fiskveiðistefnu bandalagsins yrðum við ofurseld erlendum valdboðum um tilhögun fiskveiðanna. Við yrðum jafnvel að hleypa inn í landhelgina útlendum skipum. En umræðan um fiskveiðistefnuna hefur fyrst og fremst, finnst mér, markast af því að menn hafa ekki viljað ræða þetta út í hörgul fordómalaust. Það hefur verið sett eins konar bann á það hvað þetta í rauninni þýddi, bann á umræðuna um það. Mér finnst skorta talsvert á það. Ef menn reyna að grafast fyrir um áhrif sameiginlegu fiskveiðistefnunnar á Ísland, hvað er þá hæft í því að hún útiloki fyrir fram aðildina? Í hverju felst þessi stefna? Hún er um sameiginlega nýtingu á sameiginlegum hafsvæðum á sameiginlegum fiskstofnum innan 200 mílna lögsögu ESB. Og hvernig stendur Ísland gagnvart því? Í fyrsta lagi er Ísland með algjörlega aðskilda efnahagslögsögu. Í öðru lagi nýtum við enga fiskstofna sameiginlega með ESB þannig að árekstrarnir að því leyti til ættu að vera í algjöru lágmarki eða engir. Í þriðja lagi ber að rifja upp að við fengum kröfuna um veiðiheimildir í staðinn fyrir markaðsaðgang út af borðinu í samningum okkar um EES og það þýðir einfaldlega að þær verða ekki teknar upp aftur. Við fengum líka staðfest og bókað á fundum með Spánverjum í tíð síðustu ríkisstjórnar að þeir muni ekki gera kröfur um einhliða veiðiheimildir í íslenskri lögsögu. Þeir hafi ekki rök fyrir því vegna þess að lykilorðið hér er veiðireynsla. Þannig er staðan. Ég tel því, herra forseti, að að þessu leyti sé staða okkar tiltölulega sterk. Íslensk skip gætu ekki gert kröfu um að fara að veiða niður við Spán eða Portúgal og það væri heldur ekki hægt að gera kröfu um það að ensk, þýsk og portúgölsk skip færu að veiða uppi í kálgörðum íslenskrar alþýðu.

[11:15]

Menn þurfa hins vegar að ræða annað atriði út í hörgul og þar koma ásteytingarsteinar upp á yfirborðið. Það eru afleiðingar þess að hið frjálsa flæði fjármagns er eitt af lykilatriðum Evrópusambandsins og þar er komið að mjög mikilvægum atriðum sem við þyrftum eðlilega að semja um færi svo að við sæktum um aðild eins og meiri hluti þjóðarinnar vill samkvæmt skoðanakönnunum.

Frjáls flutningur á fjármagni innan ESB gæti eðlilega leitt til þess, ef maður skoðar málið fyrir fram, að erlendir aðilar mundu vilja sækjast eftir því að fjárfesta hér í veiðum og í vinnslu og það er um þessi atriði sem styrinn mundi standa og það er um þau sem við þyrftum að semja. Þetta er lykilatriðið. Það er á niðurstöðu þeirra atriða sem mundi brjóta.

Þá þurfum við, herra forseti, að gera okkur grein fyrir því að fiskveiðar og fiskvinnsla eru lífsbjörg Íslendinga. Lífshagsmunir okkar felast í þeim og þess vegna mundi afstaða okkar gagnvart Evrópusambandinu ráðast af samningum um þetta. Ef maður horfir til baka og reynir að skoða málið, þá sést, herra forseti, að í öllum samningum um stækkun sambandsins, hefur verið tekið tillit til þess sem skilgreina má sem lífshagsmuni aðildarríkja. Það eru nefnilega ekki hagsmunir ESB, ef sambandið er í samningum við einhverja þjóð um aðild, að reyna að svipta viðkomandi þjóð lífsbjörginni. Ég nefni þetta umdeilda atriði --- ég sé að margur maðurinn strýkur nú skegg sitt úti í sal --- vegna þess að ég tel að það sé nauðsynlegt að ræða þetta fordómalítið. Ég tel að á næstu árum hljóti þetta mál að komast á dagskrá og þetta eru atriðin sem við þurfum að ræða, herra forseti.

Ég minni á að þegar Norðmenn voru að semja við Evrópusambandið á sínum tíma, þá tókst þeim t.d. í þeim samningum að halda fullum yfirráðum yfir sinni olíu. Ég minni líka á að norðurhjarabúskapur var hugtak sem var skilgreint í samningum við Svía og Finna vegna þess að landbúnaður þeirra var sérstakur. Það þurfti sérstaka samninga um hann og þeir tókust. Það mætti nefna önnur atriði og smærri. En ég nefni þetta hér, herra forseti, vegna þess að mér finnst að það þurfi opinskáa og hreinskilna umræðu um það hvernig afstaða Íslands til Evrópusambandsins eigi að vera á næstu árum.