Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 11:23:13 (1030)

1997-11-06 11:23:13# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[11:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að rifja það upp fyrir hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að 80% af fylgi Alþb. er sammála mér en ekki honum um sameiningu jafnaðarmanna í einum flokki. Svo einfalt er það nú.

Ég kem hér einfaldlega upp og lýsi ærlega mínum skoðunum á þessum flókna og erfiða málaflokki. Er það ekki, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, einmitt ærlegt af mér, einmitt þegar ég er að knýja dyra og segja að ég vilji freista þess að sameina þessa tvo flokka, að menn viti nákvæmlega í hvaða fötum ég stend hér? Það ætti hins vegar ekki að koma hv. þm. á óvart vegna þess að þessi skoðun hefur legið fyrir. Ég tel hins vegar að ég geti vel rúmast í flokki með manni eins og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og hv. þm. Svavari Gestssyni þó að við værum algerlega ósammála um þetta mikilvæga atriði. Ég bendi á það að t.d. á Norðurlöndunum er að finna mjög stóra flokka jafnaðarmanna sem skiptast í andstæðar fylkingar einmitt út af þessu atriði og ég tel að það sé allt í lagi að í stórum flokkum séu menn með andstæðar skoðanir.

Það má segja að langstærsti flokkur íslensku þjóðarinnar, Sjálfstfl., skiptist samkvæmt skoðanakönnunum í tvennt um þetta. Að vísu samkvæmt síðustu skoðanakönnun sem ég hef séð er það þannig að 49% af fylgismönnum Sjálfstfl. vildu sækja um aðild en 40% voru á móti þannig að ég sé enga þverstæðu í þessu.

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ætti frekar að vera mér þakklátur fyrir það að segja nákvæmlega hvar ég stend nákvæmlega á þeim tíma þegar ég kem og kný dyra.