Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 11:27:18 (1032)

1997-11-06 11:27:18# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[11:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gef ekki hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þá einkunn að hann sé háskalegur og ósvífinn. En það mætti draga þá ályktun af hans eigin röksemdafærslu hérna áðan. Hann sagði að það væri háskalegt og ósvífið af stjórnmálaflokkum að geta ekki haft frambærilega stefnu í þeim málum sem mestu varða í íslenskum þjóðmálum. Hvaða mál varða mestu í íslenskum þjóðmálum? Það er þetta mál sem hv. þm. nefnir, en það er líka stefnan í sjávarútvegsmálum. Er einhver flokkur fyrir utan kannski einn sem hefur samstæða og frambærilega stefnu í þeim efnum? Eru ekki allir flokkar meira og minna sundurtættir vegna afstöðunnar til sjávarútvegsmála? Það er einfaldlega svo að flokkakerfið íslenska ræður ekki við sum mál sem uppi eru. (HG: Láta Evrópusambandið um það.) Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum og Evrópusambandið er eitt af þeim málum. En ég segi bara í fullri einlægni að ég treysti mér alveg til þess að vera í stórum flokki sem er ósammála um mál eins og Evrópusambandið, ég geri það. Og ég ítreka það líka, herra forseti, að ég tel ekki að ég sé með nokkrum hætti að koma aftan að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni með ræðu minni. Hann vísaði til þess sjálfur að hann hefði lesið um það margar greinar í ágætu örblaði sem nú er illu heilli horfið til sinna feðra og mæðra.

Ég held einfaldlega, herra forseti, að þetta mál sem ég nota þetta tækifæri til þess að reifa, verði að taka á dagskrá öðruvísi en menn hafa gert. Menn hafa alltaf sagt: ,,Það er ekki hægt og Íslendingar mega ekki ræða afstöðuna og mögulega aðild að Evrópusambandinu vegna hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu.`` (HG: Hver bannar það?) Þegar ég a.m.k. skoða það mál þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að hún er ekki sá þrándur í götu okkar sem menn ætluðu áður. Það eru aðrir hlutir þarna sem auðvitað tengjast henni, sem tengjast fjárfestingum útlendinga og það eru þeir sem við þurfum að ræða. Þeir eru nú þegar á dagskrá í nokkrum stjórnmálaflokkum. Menn hafa jafnvel í þessum þingsölum talað um að það eigi að leyfa útlendingum að fjárfesta í fiskvinnslu upp að ákveðnu marki, menn í fleiri en tveimur stjórnmálaflokkum og jafnframt hafa menn reifað að það eigi að hleypa útlendingum inn í fiskveiðarnar sjálfar. Ég tek ekki afstöðu til þess á þessu stigi en það er eitt af því sem þarf að ræða. Það þarf að setja það á dagskrá.