Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 11:29:46 (1033)

1997-11-06 11:29:46# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[11:29]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil að sjálfsögðu byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur lagt hér fram. Það er orðinn nokkur tími liðinn frá því jafnítarleg skýrsla af þessu tagi hefur verið lögð hér fram og það er út af fyrir sig þakkarvert.

Ég vil áður en ég kem að efnisatriðum skýrslunnar þakka sérstaklega hv. 15. þm. Reykv. fyrir skörulega ræðu og það hvernig hann setti á dagskrá aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst mjög mikilvægt að hann skuli hafa gengið fram eins og hann gerði áðan og heimtað opinskáa og hreinskilna umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það hefur reyndar verið þannig um nokkuð langt skeið að mér hefur skilist að málið lægi þannig af hálfu ýmissa talsmanna jafnaðarmanna að í raun og veru væri umræðan um þetta mál ekkert aðalatriði íslenskra stjórnmála eins og sakir stæðu og það væri gagnstætt því sem haldið var fram fyrir síðustu kosningar.

[11:30]

Nú kemur aðaltalsmaður Alþfl. og jafnaðarmanna í þessari umræðu um utanríkismál og talar ekki um neitt annað en að Ísland þurfi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það er mjög fróðlegt og það er þakkar vert. Ég tel að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefði líka átt að þakka fyrir það hér áðan að hv. þm. Össur Skarphéðinsson setur málið á dagskrá. Þá skulum við hafa málið á dagskrá, herra forseti, og ræða það. Að því er minn flokk varðar, Alþb., og aðild að Evrópusambandinu þá liggur það alveg skýrt fyrir að við erum andvíg aðild að Evrópusambandinu. Við teljum að aðild að Evrópusambandinu ógni í fyrsta lagi stjórnarfarslegu sjálfstæði Íslendinga og í öðru lagi þýði aðild að Evrópusambandinu eins og það er í dag að við mundum glata yfirráðum yfir auðlindastjórninni í landinu og í kringum það. Það eru grundvallarþættir. Við erum líka þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að leysa svona mál með því að vísa því til einhverrar þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að umræða fari fram um málið og efni þess áður. Þess vegna á hv. þm. Össur Skarphéðinsson miklar þakkir skildar fyrir að setja þetta mál á dagskrá einmitt þegar landsfundur Alþb. kemur saman í dag.

Ég vil síðan í framhaldi af fyrstu orðum mínum endurtaka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir skýrsluna og marga þætti í henni. Þar er ýmislegt sem ég get út af fyrir sig tekið undir. Ég get tekið undir þær áherslur sem hæstv. utanrrh. gerði mjög skýrt grein fyrir að því er varðaði viðskipta\-áherslur í utanríkisþjónustunni. Ég tek undir þær áherslur sem hæstv. utanrrh. hefur verið með uppi varðandi það að auka skipulega tengsl við önnur efnahagssvæði í viðskiptum og ég tek sérstaklega undir þær áherslur sem hann er með varðandi vaxandi mikilvægi ÖSE og nauðsyn þess að við tökum betur á aðild okkar að ÖSE heldur en við höfum gert að undanförnu með því að opna þar á ný fastanefnd þannig að við fylgjumst þar með málum reglulega og skipulega. Þetta er fagnaðarefni og ég þakka fyrir það. Ég tel hins vegar enga ástæðu til að þakka hæstv. utanrrh. fyrir það hvernig hann talar um umhverfisverndarsamtök. Það eru ummæli sem ég get fyrir mitt leyti ekki tekið undir.

Ég tel hins vegar að umræðan um skýrslu utanrrh. megi auðvitað annars vegar gjarnan snúast um þau meginverkefni sem utanríkisþjónustan og utanríkisráðuneytið er að glíma við frá degi til dags en hún má líka gjarnan fjalla um grundvallarefni, þ.e. þá framtíðarsýn og þá grundvallarþætti sem við teljum að utanríkisþjónustan eigi í raun og veru að snúast um í þessu landi.

Ég ætla að víkja að þessum grundvallaratriðum eins og við alþýðubandalagsmenn höfum gjarnan horft á þau. Við höfum litið þannig á að megináherslur okkar í alþjóðapólitík byggðust á þremur meginþáttum. Í fyrsta lagi auðvitað á öryggi og sjálfstæði Íslands, hvernig það verður best tryggt, bæði á okkar vegum og í samvinnu við aðra að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, sem það auðvitað er vegna þess að við tryggjum aldrei okkar öryggi ein og sér, við þurfum að horfa vítt um heim til að sjá því farborða.

Í öðru lagi byggjast áherslur okkar í utanríkismálum og alþjóðapólitík á hinum almennu áherslum okkar á það sem við köllum mannréttindi. Þar er ég að tala um mannréttindi í heiminum í mjög víðum skilningi, bæði pólitísk mannréttindi og réttaröryggi viðkomandi aðila og viðkomandi þjóða.

Í þriðja lagi er ég síðan að tala um félagsleg mannréttindi sem ég kalla svo, þ.e. mannréttindi sem lúta að jöfnuði, baráttu gegn fátækt, baráttu gegn umhverfisvá, baráttu fyrir betri heilsu, jafnrétti, húsnæði, menntun o.s.frv.

Af þeim grundvallaratriðum sem ég hef rakið leiðir að áherslur okkar að því er varðar friðar- og öryggismál byggjast í raun og veru á þessum meginþáttum og engu öðru. Hlutirnir eru stundum settir þannig upp að því er okkur varðar eins og upphaf þeirrar umræðu sé í raun og veru spurningin um hersetuna og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Svo er ekki, upphafið eru þau grundvallaratriði sem ég rakti áðan.

Við teljum hins vegar að baráttan fyrir friði og friðsamlegum lausnum á öllum vandamálum sem upp kunna að koma í heiminum séu mjög mikilvæg aðalatriði. Ég horfi á það í þrennu lagi.

Í fyrsta lagi sem nauðsyn þess að við náum eins víðtækri samstöðu og mögulegt er um það sem ég kalla efnahagslega öryggismálastefnu sem byggist á þeim forsendum og áherslum, mannréttindaáherslum, jafnaðar- og félagslegum áherslum sem ég rakti áðan.

Í annan stað viljum við að þessi barátta fyrir friði og friðsamlegum lausnum beinist að því að styrkja almennt alþjóðlegt friðar- og öryggiskerfi og við teljum mjög mikilvægt að Sameinuðu þjóðirnar séu styrktar í þessu sambandi. Við höfum oft látið það koma fram að við teljum að það sé eðlilegt að Ísland setji sér það markmið, þó að það gerist kannski ekki alveg á næstunni, að það fái aðild að öryggisráðinu. Við teljum líka mjög mikilvægt í þessu sambandi að leggja áherslu á eflingu og styrkingu ÖSE sem ég kem nánar að hér á eftir og hæstv. utanrrh. gerði ágætlega skil í ræðu sinni og skýrslu.

Þriðji þátturinn í baráttunni fyrir friði og friðsamlegum lausnum í heiminum er auðvitað sá að takmarka almennt séð getu ríkja og ríkjabandalaga til að reka hernað. Þess vegna styðjum við afvopnunarkröfur og við styðjum kröfur um að hin gömlu hernaðarbandalög hverfi eða breytist í grundvallaratriðum.

Af þessum ástæðum, öllum þessum grundvallarþáttum, erum við í raun og veru með þá stefnu uppi sem við höfum gagnvart Atlantshafsbandalaginu annars vegar og bandarísku hersetunni á Íslandi hins vegar. Að því er varðar Atlantshafsbandalagið teljum við að það sé óhjákvæmilegt að Íslendingar beiti sér fyrir því að Atlantshafsbandalagið leggi niður allan stórstríðsvígbúnað af hvaða tagi sem er og dragi úr vígbúnaði sínum smátt og smátt og skipulega með það að markmiði að leggja sig niður, með það að markmiði að ÖSE yfirtaki óhjákvæmilega öryggisgæslu og verði friðar- og öryggissamtök Evrópu en Sameinuðu þjóðirnar aftur á heimsvísu.

Hér er um það að ræða að við höfnum Atlantshafsbandalaginu eins og það er, sem hernaðarbandalagi. Á dagskrá fundarins á eftir er frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum sem er þáttur af þessari stefnu okkar gagnvart Atlantshafsbandalaginu og ég ætla því ekki að rekja þann þátt nánar. Við óttumst það hins vegar að ef NATO breytist ekki þá geti það orðið til þess að byggja upp spennu austan við bandalagið og að við lentum í sömu sporum og við vorum í fyrir fáeinum árum meðan kalda stríðið var í algleymingi.

Að því er varðar hersetuna sjálfa er hins vegar mikilvægt að mínu mati að vísa til þess sem fram kemur í skýrslu utanrrh. á bls. 30. Þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Að Íslandi beinist engin bein hernaðarógn í dag.``

Þetta er upp úr skýrslu utanrrh. Því er með öðrum orðum slegið algjörlega föstu að að Íslandi beinist engin bein hernaðarleg ógn í dag.

Síðar í skýrslunni er aðeins fjallað nánar um þessi mál. En þrátt fyrir þessa niðurstöðu er sagt, með leyfi forseta:

,,Í grundvallaratriðum hafa ekki skapast þær aðstæður í öryggismálum að ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi varnarmála landsins.``

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst þessi niðurstaða ráðuneytisins ekki í samræmi við forsenduna. Mér finnst að staðan sé núna þannig að menn eigi einmitt að fara í viðræður og könnun varðandi það hvað á að taka við þegar herinn fer héðan, þ.e. bandaríski herinn.

Í skýrslu utanrrh. kemur fram í hálfgerðum kvörtunartón að Bandaríkjamenn séu alltaf að nudda um að reyna að draga heldur úr umsvifum í herstöðinni. Eða eins og segir á bls. 30, með leyfi forseta:

,,Örar breytingar í alþjóðamálum kalla hins vegar á sífellda skoðun á varnarþörfum landsins. Ekki er því að neita að stöðugur þrýstingur er af hálfu Bandaríkjanna á sparnað og hagkvæmni í rekstri varnarstöðvarinnar.``

Ég verð að segja eins og er að ég tel að hér sé um það að ræða að Íslendingar eigi að taka þessum málaleitunum Bandaríkjamanna almennt vel og þetta séu eðlileg viðbrögð af þeirra hálfu. Við eigum ekki að vera í því hlutverki að þrýsta á um það að herstöðin sé óbreytt. Við eigum auðvitað að vera í því hlutverki að reyna að átta okkur á því hvað er nauðsynlegt fyrir Ísland í þeirri stöðu sem þjóðin er núna. Ég held þess vegna, herra forseti, að varðandi herstöðina væri í fyrsta lagi skynsamlegast fyrir Íslendinga að leggja núna í þá vinnu að skilgreina markmið og öryggis- og varnarþarfir Íslendinga.

Í öðru lagi að skilgreina hvernig þeim markmiðum verður best náð í samvinnu við aðra eftir atvikum, hvar sem þeir eru í heiminum.

Í þriðja lagi að skilgreina hvað þarf til af öryggisbúnaði, fjarskiptum og öðru, til að tryggja að við náum þessum markmiðum.

Í fjórða lagi að átta okkur á því hvað við viljum sem sjálfstæð þjóð og sjálfstæðir pólitískir aðilar í þessari stofnun að komi í staðinn þegar bandaríski herinn fer.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er minnst á bókun sem gerð var fyrir skömmu fyrir árið 1996 varðandi herstöðina. Þar er bent á að gildistími bókunarinnar sé til ársins 2001. Ég held að það sé í raun og veru tilefni til þess að fara þegar að undirbúa hvað við viljum að taki við þegar þessari bókun lýkur. Ég tel að það sé skynsamlegra að við undirbúum okkur undir það strax heldur en við lendum í þeirri stöðu sem hefur oft gerst með utanrrn. á undanförnum árum, kannski ekki fyrst og fremst í seinni tíð heldur oft hér fyrr á árum, að menn hlaupi til Bandaríkjanna til að biðja þá um að vera hér áfram með svo að segja óbreytta starfsemi án þess að við höfum skilgreint okkar öryggis- og varnarþarfir sjálfir á íslenskum forsendum.

Ég held þess vegna, herra forseti, að tilefni sé til að Alþingi taki þessi mál í sínar hendur. Alþingi taki þessi mál í sínar hendur og fari yfir þau eins og þau eru, reyni að meta hlutina. Mér finnst að vel komi til greina að það geri t.d. hv. utanrmn. Alþingis eða sérstök nefnd sem yrði kosin á vegum Alþingis. Því ég segi eins og er, herra forseti, eins og ég hef reyndar áður sagt í umræðum um skýrslur utanrrh. á undanförnum árum að við stöndum frammi fyrir algjörlega nýjum heimi sem skapar okkur möguleika til að tryggja breiðari samstöðu um utanríkisstefnuna á Íslandi en nokku sinni áður í sögu lýðveldisins. Mér finnst mikilvægt að menn nálgist hlutina á þessum forsendum. Mér finnst ýmislegt af því sem hæstv. núv. utanrrh. hefur gert í þessum efnum bendi í þá átt að hann sé sammála þessum viðhorfum, að það þurfi að ná þessari víðtæku samvinnu. Ég bendi í því sambandi á nefndina sem er að fjalla um starfsemi utanríkisþjónustunnar. Ég tel það því út af fyrir sig jákvætt. En ég held að við eigum að ganga lengra og setja af stað almenna, víðtæka, pólitíska vinnu hér á Alþingi og víðar um að skilgreina þarfir okkar á breiðum grundvelli.

Ég ætlaði síðan, herra forseti, að ræða hér ýmis önnur mál, t.d. varðandi fiskveiðimálin og sérstaklega ætlaði ég að ræða hér hið vestnorræna samstarf sem mér er af ýmsum ástæðum kært og ég tel að eigi heima í umræðum um skýrslu utanrrh. Ég tel að vel hafi verið að verki staðið hvernig haldið hefur verið á þessum málum gagnvart Grænlandi að undanförnu af hálfu utanrrn. og sjútvrn. Ég tel að þær hugmyndir sem uppi eru og þær viðræður sem átt hafa sér stað t.d. um nýtingu á grálúðustofninum séu jákvæðar og ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt mál, utanríkispólitískt mál, nágrannamál fyrir Ísland að við höldum vel á öllum málum gagnvart Grænlandi og Færeyjum.

Ég vil ljúka máli mínu með því að leggja á það áherslu og hvetja svo til þess að í næstu umræðu um skýrslu utanrrh. höfum við tíma til að ræða um framtíðarsýn og þá leið sem við viljum fara að okkar framtíðarmarkmiðum í þessum efnum.