Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:13:02 (1041)

1997-11-06 12:13:02# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GHH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:13]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir sem tekið hafa til máls byrja á því að færa hæstv. utanrrh. þakkir fyrir þá ítarlegu skýrslu sem hér er lögð fram sem fylgiskjal við ræðu ráðherrans. Á þessari skýrslu sést hve gríðarlega umfangsmikil verkefni það eru sem fjallað er um í utanrrn. og margþætt og margslungin og hvað þetta litla ráðuneyti þarf að beina kröftum sínum að mörgum mismunandi málum og hvað hinir tiltölulega fáu starfsmenn þess þurfa að vera sérfræðingar í mörgum málum. Þetta sýnir okkur líka fram á nauðsyn þess að standa vel að málefnum þjónustunnar, gera henni kleift að sinna þessum málefnum eins og við sem sjálfstætt ríki ætlumst til að sé gert því að í þessari skýrslu getur að líta ótrúlega breitt málefnasvið þar sem Íslendingar hafa nánast alls staðar beinna og óbeinna hagsmuna að gæta.

Það hefur verið vikið að því í þessari umræðu að starfandi sé sérstök nefnd á vegum ráðherra að fara yfir framtíðarsýn að því er varðar málefni utanríkisþjónustunnar og gera tillögur í þeim efnum. Það er vissulega svo að þessi nefnd er að störfum og utanrmn. Alþingis á þar aðild eins og kunnugt er. Ég geri mér vonir um að niðurstaðan af því nefndarstarfi verði heildstæð stefna sem ekki þarf að verða mikill ágreiningur um á Alþingi því að eins og umræður sem þessar bera með sér hefur mjög fækkað ágreiningsmálum á sviði utanríkismála hér í þinginu. Og umræður eins og í dag eru ekki nema svipur hjá sjón að því er varðar átök milli manna um einstök mál miðað við það sem áður var og undanskil ég þá ekki ágreining þeirra væntanlegra flokksbræðra, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Össurar Skarphéðinssonar fyrr í morgun.

[12:15]

Utanríkismálanefnd þingsins hefur eins og efni standa til reynt að fylgjast með starfi utanrrn. og helstu málefnum þar eftir föngum. En nefndin hefur frá því að síðast urðu umræður um skýrslu utanrrh. átt þess kost að fara tvívegis út fyrir landsteinana í kynnisferðir. Sú fyrri var til Norfolk í höfuðstöðvar Atlantshafsstjórnar Atlantshafsbandalagsins og þangað fóru fulltrúar allra þingflokka nema Alþb. Sú ferð var vissulega fróðleg og gaf okkur öllum að ég hygg mikla innsýn inn í það starf sem þar er unnið og þær miklu breytingar sem eru að eiga sér stað að því er varðar hernaðarsamvinnuna innan bandalagsins og hin pólitísku málefni sem þar eru til umfjöllunar.

Við áttum þess einnig kost að heimsækja kollega okkar í Evrópuþinginu, þá þingmenn sem fjalla um málefni Norðurlandanna og Íslands sérstaklega. Þau samtöl eru reyndar hefðbundin og ýmist koma þessir þingmenn hingað eða fulltrúar utanrmn. hitta þá á heimavelli þeirra. Það er hins vegar athyglisvert að það er ekki að merkja á þeim viðmælendum vorum neinn sérstakan áhuga á því að Íslendingar blandist í hóp þeirra og gerist aðilar að Evrópusambandinu. Þetta nefni ég bara til fróðleiks en ekki sem sérstakt innlegg í þá umræðu en ég hygg að það sé nokkuð almennt bæði meðal þingmanna og stjórnenda Evrópusambandsins að þeir sjá sér engan sérstakan hag í því í framtíðinni að Ísland gerist þar aðili.

Vissulega eru óskýr mörk milli þess sem mætti kalla utanríkismál í hefðbundnum skilningi og innlandsmálanna. Það höfum við margrætt hér. Það er ekki hægt að fjalla um umhverfismál án þess að vikið sé jafnframt að utanríkismálum og sama má í rauninni segja um viðskipti og fjölmargt fleira.

Í umræðunni hefur nokkuð verið vikið að þróunaraðstoð Íslendinga og ég vil nota tækifærið og fagna þeirri stefnu sem kynnt hefur verið að því er varðar aukin framlög til þeirra mála á næstu árum en ég tel jafnframt að það sé hárrétt sem hefur komið fram að það þarf að skipuleggja mjög vel með hvaða hætti slíkum fjármunum er varið vegna þess að það er gagnslaust að kasta peningum í slík verkefni ef þau eru ekki nægilega vel undirbyggð eingöngu til þess að reyna að mæta eða fylla mælikvarða alþjóðastofnana um hlutföll af t.d. þjóðartekjum sem varið sé til slíkra mála.

Við Íslendingar höfum gert ýmislegt í þessum efnum sem kemur ekki fram á slíkum mælikvörðum. Ég segi þetta að gefnu tilefni vegna umræðnanna rétt áðan. Við höfum lagt lóð okkar á vogarskálarnar með ýmsum hætti, t.d. að því er varðar uppbygginguna í Eystrasaltslöndunum sem er ekki skilgreind sem bein þróunaraðstoð og það getum við alveg eins gert víðar. Ýmsar af stofnunum íslenska ríkisins hafa sett starfsmenn í að hjálpa til við að byggja upp sambærilega starfsemi í þessum löndum. Ég nefni Hagstofuna, ég nefni bankaeftirlitið, ég nefni Geislavarnir og þannig mætti lengi telja ýmsar þær stofnanir á Íslandi sem hafa beinlínis tekið það að sér og færa það á sinn rekstur, a.m.k. að miklu leyti, að veita aðstoð á þessum stöðum. Þannig mætti eflaust hugsa sér eitthvert víðtækara samstarf annars staðar í heiminum.

Í yfirliti sem utanrrh. flutti var drepið á fjölda mála og að sjálfsögðu er ekki hægt að gera þeim öllum skil í þessari stuttu umræðu. Mig langar að nefna lítillega fiskveiðimálin og hagsmuni okkar gagnvart nálægum ríkjum. Ég tel að við eigum að kosta kapps um að leysa þann ágreining sem er uppi gagnvart nágrannalöndum okkar á sviði fiskveiða og að því er varðar önnur mál þeim tengd. Ég fagna því sem fram kemur í ræðu ráðherra og gerðist á síðasta sumri að við höfum náð samkomulagi við Dani og Grænlendinga um lögsögumörk er lúta að línunni milli Íslands og Grænlands og afmörkun lögsögu í kringum Kolbeinsey. Þetta er dæmigert mál þar sem þrjár vinaþjóðir hefur greint á um skilgreiningar sem átti bara að setjast niður og reyna að leysa og það tókst vegna þess að það var vilji fyrir því hjá öllum aðilum. Segja má að þetta sé ekki stórt hagsmunamál en á það getur reynt síðar meir og það var skynsamlegt að reyna að leysa málið núna þegar ekki voru bein hagsmunatengsl í augsýn. Það verður þá auðveldara að greiða úr ágreiningi um slík mál þegar fram í sækir. Ég vænti þess að þingmál til staðfestingar þessu samkomulagi komi fram í þinginu í vetur.

Að því er varðar ágreiningsmálin við Noreg má segja að ekki horfi byrlegar en áður eftir stjórnarskiptin þar í landi. Ég hafði tekið eftir því í norsku kosningabaráttunni í haust að talsmenn Miðflokksins þar í landi, sem er reyndar systurflokkur flokks utanrrh. hér, höfðu gert því skóna að rétt væri að færa út norsku efnahagslögsöguna í 250 sjómílur. Þessar fréttir fóru mikið til fram hjá fjölmiðlum á Íslandi en þær urðu athyglisverðari eftir að Miðflokkurinn komst í ríkisstjórnina í Noregi og eftir að menn fóru að tala um þetta í alvöru, sérstaklega þegar í ljós kom að embætti sjávarútvegsráðherra Noregs hafði fallið þessum flokki í skaut.

Nú eru hugmyndir um 250 mílna efnahagslögsögu við Noreg út í bláinn og kannski þarf ekki að eyða miklum tíma í að ræða það en það kemur mér hins vegar á óvart og er heldur til óþæginda að hin nýja ríkisstjórn sem hefur tekið við völdum þar í landi skuli í upphafi a.m.k. vilja sýnast vera herskárri en sú sem áður var við völd. En hvað sem því líður er nauðsynlegt að leiða deiluna um Smuguna og réttindi Íslendinga til veiða í Barentshafinu til lykta. Það er ekki við Norðmenn eina að fást í því efni og það er fagnaðarefni að það skuli vera búið að leggja drög að samstarfssamningi við Rússa um fiskveiðimál vegna þess að hagsmunir þeirra á þessu svæði eru miklir. Það má vel vera að okkur takist ekki að leysa deiluna við Norðmenn nema á þríhliða grundvelli með Rússa sem þriðja aðila.

Ég vil víkja, herra forseti, einnig nokkuð að málefnum Sameinuðu þjóðanna sem komust nokkuð í brennidepil í septembermánuði þegar framkvæmdastjóri samtakanna kom hér við og átti m.a. fund með utanrmn. þingsins. Sá fundur var einstaklega fróðlegur og ánægjulegur og þar tókst okkur að ræða fjöldamörg málefni sem eru ofarlega á baugi á vettvangi samtakanna og sem við Íslendingar eigum að láta okkur skipta. Ég nefni þar fyrst endurskipulagningu og umbætur á starfi samtakanna en framkvæmdastjórinn vann það afrek að mínum dómi að leggja fram heildstæðar tillögur um það langþráða efni mjög snemma eftir að hann tók við stjórnartaumnum.

Nú er það að vísu svo að öflugasta ríkið innan Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkin, hefur ýmsa fyrirvara við þessar tillögur og sérstaklega í Bandaríkjaþingi eru ýmis ljón á veginum þannig að þetta mál er ekki í höfn en ég fagna því að í skýrslu utanrrh. kemur fram mikill stuðningur við þessar umbótatillögur. Það er alveg ljóst að það kerfi sem byggt var upp árið 1945 og hugsað í ljósi aðstæðna á þeim tíma á ekki lengur að öllu leyti við og þess vegna þarf að breyta skipulagi og starfsháttum Sameinuðu þjóðanna í ljósi breyttra aðstæðna. Þar spilar inn í kerfið sem byggt var upp í kringum öryggisráðið og hverjir eiga aðild að því, hvaða ríki eiga þar föst sæti, hvernig má tryggja öðrum ríkjum þar eðlileg áhrif o.s.frv. Það er orðið tímabært að reyna að leysa þennan hnút og hleypa t.d. Japönum og Þjóðverjum að með föst sæti í ráðinu og væntanlega einnig fulltrúum Afríku og Suður-Ameríku.

En það er fleira sem vert er að nefna varðandi málefni Sameinuðu þjóðanna. Ég vil sérstaklega drepa á jarðsprengjubannið og samninginn um það sem verður undirritaður í Ottawa í desember. Í skýrslu ráðherrans kemur fram að við munum væntanlega verða þar stofnaðilar en Kanadamenn hafa tekið lofsvert frumkvæði í því máli og sama er að segja um okkar góðu granna, Norðmenn. En þar eru líka ljón á veginum vegna þess að hvað sem segja má um jarðsprengjurnar eru þær að mörgu leyti vopn fátæka mannsins. Þær eru mjög ódýrar í framleiðslu og þær eru áhrifaríkar til síns brúks þó að þær séu ógeðsleg vopn og bitni iðulega á þeim sem síst skyldi. Þær eru reyndar líka þess eðlis að þó ódýrt sé að framleiða þær og koma þeim fyrir er mjög dýrt að ná þeim upp aftur. En við Íslendingar eigum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þessu máli og ég efast ekki um að svo verður gert.

Að því er varðar önnur málefni, herra forseti, vil ég fagna því að Íslendingar stóðu fyrir æfingunni Samverði á síðasta sumri. Utanríkismálanefndarmenn fengu aðstöðu til að fylgjast með þeirri æfingu og það var mjög mikilvægt framtak af Íslands hálfu að standa fyrir þeirri æfingu og mjög ánægjulegt hverjir tóku þar þátt, ekki síst að Rússar, Úkraínumenn og ýmsir fyrrverandi bandamenn þeirra úr gamla Varsjárbandalaginu sáu ástæðu til þess að vera með. Það er auðvitað tákn um breytta tíma, tákn um gerbreyttar aðstæður í heiminum og það samstarf sem koma skal í heimshluta okkar.