Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:30:51 (1043)

1997-11-06 12:30:51# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:30]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir í upphafi máls míns þakka hæstv. utanrrh. kærlega fyrir mjög ítarlega skýrslu, skýrslu sem er upp á 50 blaðsíður í 11 köflum, og nokkuð ítarlega ræðu sem er í 8 köflum. Það sem stendur upp úr eftir umræðurnar í morgun er það að þingmenn Alþb. og Alþfl. hafa séð ástæðu til að munnhöggvast nokkuð.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem var talsmaður Alþfl. í umræðunni, talaði nokkuð lengi og í ræðu hans var einungis komið inn á tvö atriði af öllum þeim fjölmörgu sem hægt var að taka fyrir. Aðeins var komið inn á loðnusamninginn en meginmál ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar var um Evrópusambandið. Þar var ekki kveðið lítið að orði, það var gengið lengra en oft áður og talað um að það væri mjög brýnt fyrir framtíðarhagsmuni Íslands að fara inn í Evrópusambandið. Þetta var athyglisverð ræða frá þingmanni Alþfl., talsmanni þeirra í utanríkismálum og hún vakti upp mjög margar spurningar. Maður spyr sig: Var þetta tilviljun? Er það tilviljun að svona ræða er flutt hér á þeim degi þegar landsfundur Alþb. hefst, en hann hefst kl. 5 í dag?

Þessi ræða særði að sjálfsögðu þingmenn Alþb. og var úr nokkurt spil. Maður hlýtur að spyrja sig eftir þennan morgun hver tilgangurinn var. Var tilgangurinn að reyna að einangra í þeim sameiningarumræðunum, sem eiga sér stað í þjóðfélaginu, ákveðna hv. þingmenn? Ég nefni nokkur nöfn. Hv. þm. Hjörleif Guttormsson, Svavar Gestsson, Steingrím J. Sigfússon. Eða var tilgangurinn að reyna að fá landsfund Alþb. til að taka undir stefnu Alþfl. varðandi inngöngu í Evrópusambandið? Maður hlýtur að spyrja sig að þessu eftir þessa furðulegu uppákomu í morgun.

Mig langar að koma inn á það eins og fleiri hafa gert að utanríkisþjónustan í dag hefur breyst mjög mikið. Hlutverk hennar er að aukast. Við erum aðilar að EES-samningnum. Fjölmargir fundir tengjast því, það eru norrænir fundir sem þarf að sinna. Við erum þátttakendur í fjölmörgum alþjóðasamningum sem þarf að framfylgja og kosta umfangsmikla vinnu. Einnig hefur verið gert mikið átak gagnvart viðskiptalífinu. Það er búið að opna viðskiptaskrifstofur þannig að segja má að við stöndum frammi fyrir gerbreyttu hlutverki utanríkisþjónustunnar.

Að mínu mati tel ég að þjóðin hafi ekki fyllilega áttað sig á þessu breytta hlutverki utanríkisþjónustunnar enda hefur þetta gerst nokkuð hratt. Atvinnulífið hefur gert það að einhverju leyti og að mér skilst sækir mjög mikið í viðskiptaþjónustuna sem er rekin á vegum utanríkisþjónustunnar. Þjónustan hefur líka verið að breytast að öðru leyti. Þar er að koma inn mjög margt ungt fólk til starfa og við gátum séð fyrir stuttu uppslátt á forsíðum dagblaða að það hafa ekki farið eins háar upphæðir og nú í skólagjöld fyrir börn starfsmanna sem vinna í utanríkisþjónustunni. Það er að sjálfsögðu jákvætt að ungt fólk starfar í þjónustunni en maður hlýtur að sjálfsögðu að æskja þess að það verði tekið sérstakt tillit til þessa þannig að starf þeirra sem stunda eða rækja utanríkisþjónustuna verði fjölskylduvænt. Það þarf að taka tillit til þessara ungu barna og það þarf að taka tillit til makanna. (KÁ: Fá fleiri konur.) Það er rétt sem fram kemur hér hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Að sjálfsögðu þurfa fleiri konur að koma þar að, en það eru afar fáar konur í utanríkisþjónustunni en ég hef trú á því að þeim muni fjölga í framtíðinni.

Ég tek heils hugar undir það sem fram kemur í ræðu hæstv. utanrrh. að Norðurlandasamstarfið er hornsteinn okkar utanríkismála. Þrjú norræn ríki eru í Evrópusambandinu og að sjálfsögðu er það vettvangur okkar til þess að hafa áhrif inn í Evrópusambandið, óbein áhrif. Þetta er gífurlega mikilvægt. Þessi Evrópumál voru einmitt rædd á vegum Evrópunefndar Norðurlandaráðs í vinnuferð sem við fórum til Brussel í sumar. Þar ræddum við m.a. við sendiherra norrænna ríkja og þar kom fram í máli danska sendiherrans, Skytte, að hann taldi að þegar fleiri ríki verða komin inn í Evrópusambandið, muni Norðurlöndin vinna meira saman sem blokk en þau hafa ekki gert það beint hingað til. Hann taldi að þegar Eystrasaltsríkin verða komin þar inn, sem er líklegt í framtíðinni, og Pólland og fleiri lönd, mundu Norðurlöndin fara að vinna meira saman sem blokk og jafnvel með Eystrasaltsríkjunum og Póllandi. Þetta þótti mér mjög athyglisvert.

Mig langar líka í þessari umræðu að koma inn á opnun sendiráðs í Finnlandi í Helsinki sem ég tel vera afar jákvætt skref. Ég hef verið talsmaður þess mjög lengi að við opnuðum þar sendiráð og það er á nokkrum rökum reist sem ég hef komið á framfæri í blaðagreinum og víðar. Það er m.a. vegna þess að Finnland er núna komið inn í Evrópusambandið og er þar eitt af hörðu ríkjunum að margra mati. Þeir geta verið talsmenn okkar í mörgu. Þeir eru jaðarþjóð eins og við. Þeir eru ekki í samkeppni við okkur, t.d. á sjávarútvegssviðinu. Þeir hafa mikla þekkingu á viðskiptamálum í Eystrasaltsríkjunum og í Rússlandi og þetta eigum við að nýta okkur. Við Íslendingar erum frekar vel liðnir innan Eystrasaltsríkjanna og þetta er framtíðarmarkaður fyrir okkur, við eigum að nýta okkur það. Það er skoðun mín að það sé afar brýnt að við nýtum okkur þessi skref og ég er algerlega mótfallin því sem hefur komið fram á þinginu nú fyrir ekki svo löngu að það ætti að sameina sendiráð okkar á Norðurlöndunum í eitt eða tvö. Það tel ég vera mikið skref aftur á bak en Norðurlöndin eru akkeri okkar í utanríkismálunum. Þeir hafa aðstoðað okkur gagnvart Evrópusambandinu og okkar hagsmunum og það væri mikill skaði að draga niður í starfseminni sem við erum að sinna á Norðurlöndunum í gegnum sendiráð okkar.

Annað mál sem hefur verið mikið rætt á norrænum vettvangi eru umhverfismálin og þar vil ég sérstaklega taka út umhverfismál á Kólaskaga en þar eru vandamálin gífurlega umfangsmikil. Þar liggja kjarnorkukafbátar undir skemmdum og einhverjar líkur eru á því að þar geti orðið umhverfisslys. Ef slík slys verða þar mun það örugglega hafa mikil áhrif á sjávarútvegsmarkað okkar þannig að það er mikið hagsmunamál fyrir Norðurlöndin og ríkin í norðri og okkur að mikið átak verði gert á Kólaskaga.

Varðandi sjávarútveginn almennt og norrænt samstarf hefði ég viljað sjá hér í framtíðínni miklu meira samstarf á milli hinna vestnorrænu þjóða, þ.e. Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga. Þessar þjóðir hafa allar orðið fyrir ákveðnum skakkaföllum vegna framgöngu umhverfissamtaka með misjöfnum hætti þó. Ég held að það væri afar æskilegt að þessar þrjár þjóðir mundu skoða þann möguleika að samræma sjávarútvegsstefnu sína, samræma veiðarfæri og annað slíkt til þess að geta komið heildstætt fram gagnvart umhverfissamtökum í framtíðinni. Það væri áhugavert að heyra, verði hæstv. utanrrh. með lokaorð, hvort hann sjái þetta fyrir sér sem möguleika.

Mig langar líka að koma inn á önnur mál sem tengjast Evrópusambandinu, þ.e. Schengen. Ég tel brýnt að við staðfestum þann samning sem ríkisstjórnin hefur undirskrifað, ég tel það mjög æskilegt að við tökum hann í gegnum þingið sem fyrst en þó ekki væri nema til þess að bæta okkar samningsstöðu gagnvart framtíðarsamningum um Schengen við Evrópusambandið, af því að nú er búið að innlima Schengen í Evrópusambandið. Það væru mjög sterk skilaboð að sýna það svart á hvítu að við viljum ganga inn í Schengen. Það styrkir samningsstöðu okkar. Ég held að það sé æskilegt að við göngum inn í Schengen vegna þess að það er skoðun mín að gagnvart öllu samstarfi við Evrópusambandið eigum við að liggja mjög þétt upp að því. Við erum inni á hinum einsleita markaði og við eigum að vera eins nálægt Evrópusambandinu og við getum án þess þó að ganga inn í það og Schengen er hluti af því. Ég held líka að ef við förum ekki inn í Schengen getum við orðið fyrir ákveðnum skakkaföllum í ferðaþjónustunni og þar vil ég minna á eitt atriði aðallega. Það eru passarnir. Í framtíðinni má sjá fyrir sér að ekki verði notaðir passar á Schengen-svæðinu. Menn þurfa bara að sanna hverjir þeir eru með því að sýna ökuskírteini, kreditkort eða eitthvað slíkt. Ef fjölskylda t.d. í Þýskalandi ætlar að fara til Íslands eða til Noregs, segjum að Noregur sé í Schengen en ekki við, sem er staða sem gæti hugsanlega komið upp, þyrfti sú fjölskylda að útvega sér passa ef hún ætlaði til Íslands. Hún þyrfti að láta taka myndir af sér, borga eitthvert þjónustugjald og standa í því brasi sem því fylgir. Ég held að það gæti skaðað okkur að kalla það yfir þá túrista sem hingað vilja koma.

Að sjálfsögðu þarf að gera ýmsar ráðstafanir á Keflavíkurflugvelli vegna Schengen. Það er brýnt að hefja þar uppbyggingu sem fyrst. Þar verður að vera svokallað non-Schengen-svæði fyrir þá farþega sem koma hingað t.d. frá Ameríku og ætla ekki inn á Schengen-svæðið, ætla til Bretlands eða annað, þeir verða að vera á non-Schengen-svæði. Þeir verða ekki tékkaðir hér inn og út strax aftur.

Varðandi varnarmál okkar að öðru leyti vil ég koma inn á, eins og hv. þm. Geir Haarde gerði, ferð utanrmn. til Bandaríkjanna í sumar. Þar hittum við háttsetta menn innan Bandaríkjahers, m.a. Sheehan, yfirmann Atlantshafsflotastjórnar NATO (SACLANT). Það voru mjög skýr skilaboð sem við fengum í þeirri ferð og þau voru að það er lögð mikil áhersla á sparnað í Keflavíkurstöðinni. Það er nokkuð sem ég tel að við þurfum að sjálfsögðu að skoða eins og gert hefur verið hjá okkur á Íslandi en þessi ferð vakti mig til umhugsunar um að það væri e.t.v. æskilegt að þingmenn færu í einhverjum litlum hópi til Washington og reyndu að ræða við þingmenn þar. Það þarf að koma okkar sjónarmiðum á framfæri, hér er um varnir okkar að tefla.

Ég vil að lokum aðeins koma inn á heimsókn herra Liens Chans, varaforseta Tævans, sem kom hingað fyrir stuttu. Þessi uppákoma var nokkuð merkileg fyrir margra hluta sakir. Ég hef verið að reyna að útskýra það fyrir sjálfri mér hvers vegna Kínverjar brugðust eins ókvæða við og þeir gerðu. Að sjálfsögðu eru margar skýringar á því en ég vil draga eina fram. Hún er sú að ef við lítum til baka er alveg ljóst að við Íslendingar vorum fyrsta þjóðin sem viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Það þótti mjög merkilegt. Við tókum upp formlegt stjórnmálasamband við þá í ágúst 1991 þegar utanríkisráðherrar þeirra landa komu hingað. Þessi gerð okkar vakti mjög mikla athygli á alþjóðavettvangi. Ísland er auðvitað lítið í valdatafli þjóðanna og við getum kannski leyft okkur ýmislegt sem stærri þjóðir geta ekki leyft sér eins og að taka frumkvæði gagnvart því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. En ef maður setur sig í spor Kínverja vita þeir auðvitað af þessu eins og aðrir. Mér finnst nokkuð líklegt að vegna þessarar gerðar okkar telji þeir okkur að einhverju leyti óútreiknanlega og hafi haft okkur svolítið undir smásjánni vegna þessa. En síðan kemur hingað herra Lien Chan og það má segja að við höfum sýnt honum ákveðna virðingu. Það er ekki hægt að neita því. Honum var boðið til kvöldverðar á Þingvöllum sem er ekki almennt venja að gera þegar ferðamenn stinga hér niður fæti. Mér finnst því líklegt að Kínverjar hafi einmitt vegna framgöngu okkar í Eystrasaltsríkjunum talið þetta vera skref sem þeir hafa hugsanlega túlkað sem svo að við værum að brjóta hér ísinn gagnvart Tævan. En það var ekki meiningin og ég vona að öldurnar lægi núna í kringum þetta mál og þetta falli allt í ljúfa löð aftur.

En ég vil að lokum ítreka það að utanríkisþjónustan hefur breyst mjög mikið eins og fram hefur komið í skýrslu hæstv. utanrrh. og ræðu og ég held að hún þurfi að verða enn þá umfangsmeiri í framtíðinni til þess að geta gætt hagsmuna okkar í síflóknari heimi.