Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:51:51 (1047)

1997-11-06 12:51:51# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:51]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að það er ekkert mál að taka upp passann en það er bara ekki nóg að taka upp passann, þú þarft hugsanlega að standa í langri biðröð --- það er svolítið mikið mál. Þeir sem hafa verið að ferðast núna til útlanda, meira að segja til Norðurlandanna, geta séð þar gífurlegar biðraðir og drottinn hjálpi okkur ef við eigum að standa í þeim.

Ég er alveg sammála síðasta ræðumanni að það er mjög hagkvæmt að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það er mjög hagkvæmt að fá inn alla þá veltu sem þar fer fram inn í þjóðarbúið og það skilar sér um allt land, ferðamennirnar skila sér út á landsbyggðina líka. Síðustu tölur sem voru skoðaðar varðandi uppbygginguna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Schengen, það er nokkuð langt síðan við skoðuðum tölur þar um, sýndu að Schengen-aðildin var mikill minni hluti í þeim tölum sem þar voru á ferðinni. Það er því ekki rétt að það þurfi að byggja allt upp tvöfalt. Ég skil ekki af hverju hv. þm. Einar K. Guðfinnsson telur að það þurfi að byggja allt upp tvöfalt, non-Schengen-svæði til helminga við Schengen-svæði, það kemur ekki til greina. Að sjálfsögðu verður aðalsvæðið þá í framtíðinni Schengen-svæði en mikill minni hluti non-Schengen-svæði. Þetta hlýtur hv. þm. að vera ljóst.