Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:53:22 (1048)

1997-11-06 12:53:22# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að koma inn á það atriði sem kom fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, þ.e. málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ég vil taka fram í upphafi að það hlýtur að vera alveg augljóst að allt sem tryggir frjálsa för fólks hlýtur að auka flutninga og gera það líklegra að ferðamenn fari á milli landa. Ég er alveg sannfærður um það að ef við verðum ekki aðilar að Schengen verður umferðin um Flugstöð Leifs Eiríkssonar minni. Sá kostnaður, sem þar er verið að tala um til viðbótar, er að mínu mati mjög lítill miðað við það pólitíska vægi sem þar er í húfi. Vilja menn að Norræna vegabréfasambandið líði undir lok? Vilja menn ekki starfa með þjóðum Evrópusambandsins að þessum málum? Það hefur gífurlega pólitíska þýðingu.

Gert er ráð fyrir því að fyrsti áfangi stækkunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar kosti um það bil 1.100 milljónir, annar áfangi kosti um það bil 1.700 milljónir sem þarf að taka í notkun árið 2005, fyrri áfangann árið 2000. Það er alveg ljóst að það verður að ráðast í þessar framkvæmdir miðað við þær aðgerðir sem hefur verið farið í í flugstöðinni varðandi tekjuauka án þess að skuldir flugstöðvarinnar aukist, þ.e. að skuldirnar verði svipaðar árið 2005 þegar framkvæmdunum er lokið og þær eru í dag. Allir hljóta að sjá að þetta eru framkvæmdir sem verður að fara í. Ég fullyrði að ef tekin yrði svo óskynsamleg ákvörðun af íslensku þjóðinni að vera ekki með í Schengen þá væri hægt að spara eitthvað en það væri tiltölulega mjög lítið miðað við þann kostnað sem menn yrðu fyrir, ekki bara peningalegan heldur pólitískan kostnað, ef menn ákveða að standa þar utan.