Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:30:44 (1057)

1997-11-06 14:30:44# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:30]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar upplýsingar. Mér heyrist sem ráðherrann geri frekar ráð fyrir því að dokað verði við með að leggja samninginn frá 19. desember 1996 fyrir þingið til staðfestingar uns botn er fenginn í málið í heild sinni. Það er auðvitað stefna út af fyrir sig og ég ætla ekki að fara að ráða hæstv. utanrrh. eitthvað í þeim efnum. Ég er ekki áhugamaður um þá lausn sem verið er að reyna að koma í höfn og það hefur ítrekað komið fram. Ekki vegna þess að ég telji það ekki verðugt viðfangsefni að viðhalda Norræna vegabréfasambandinu sem slíku, heldur vegna þess að fjöldamargir þættir tengjast þessum Schengen-samningi sem hafa nánast ekkert með það að gera, en eru þó mótgagnaðgerðir til að draga úr ókostum þess að opna fólki för yfir landamæri án skoðunar. Þar á ég m.a. við þetta gífurlega upplýsingakerfi sem tengist Schengen og það eftirlitskerfi, persónunjósnir er óhætt að segja, sem tengist þessu og lesa má einmitt út úr ræðu hæstv. ráðherra.

Varðandi fíkniefnin, sem reynt hefur verið að andmæla að tengist þessu máli, þá er víða í löndum Evrópusambandsins einmitt mikil umræða um þau í tengslum við opnun landamæra. Frakkar hafa nýlega ítrekað þá stefnu sína að taka ekki í gildi ákvæði Schengen-samningsins vegna ágreinings við Hollendinga sérstaklega og þeirra málafylgju í þessum efnum, svoleiðis að sannarlega eru ekki öll kurl komin til grafar. Ég held að íslensk stjórnvöld ættu að fara yfir málið í heild áður en þau fara að leita á þetta val sem þarna er um að ræða.

Hvað varðar stækkun flugstöðvarinnar þá finnst mér það mjög óeðlilegt og óráðlegt að fara að verja fjármagni, hundruðum milljóna, til þess (Forseti hringir.) að gera ráð fyrir lausn í sambandi við hugsanlegt samstarf við Schengen eða á grundvelli þess samnings (Forseti hringir.) og byggja flókin mannvirki á Keflavíkurflugvelli í því skyni áður en menn sjá í land með þetta mál.