Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:35:20 (1059)

1997-11-06 14:35:20# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:35]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki loka okkur inni. Hvert er þetta svæði sem á að opna? Það er Vestur-Evrópa, það er Evrópusambandssvæðið. En hvernig bregðast menn við út á við? Þetta svæði er að loka sig af gagnvart öðrum hlutum heimsins. Ísland verður skuldbundið til þess að rifta mörgum tvíhliða samningum sem varða afnám vegabréfaskyldu í krafti þessa. Það verður að hlýða Evrópusambandinu í öllum efnum að því er varðar þessi mál, hlýða Evrópusambandinu, og hefur enga leið til að stöðva þar ákvarðanir og verður að ganga á dyr ef Evrópusambandið verður ekki við okkar frómu óskum, sem við vissulega getum borið fram.

Þetta með frjálsa för fólks. Ég hef á ferðum mínum erlendis ekki fundið neitt tilfinnanlega fyrir því að þurfa að fara í gegnum vegabréfaeftirlit á landamærum. Auðvitað metum við það fyrirkomulag sem var á Norðurlöndum í góðu gildi, Norræna vegabréfasamninginn. Það var ósköp þægilegt, enda margir Íslendingar búsettir þar, en ég hef ekki fundið nein tiltakanleg vandamál við það að ferðast um Vestur-Evrópu þar sem við þurfum að sýna okkar skilríki ef óskað er eftir. Menn skulu því ekki gera mikið úr þessu og menn eiga að líta á ókostina í sambandi við tölvukerfin sem ekkert þingræðislegt eftirlit er með og sem hægt er að misbeita og hér stendur í ræðu hæstv. ráðherra: ,,Jafnframt fylgir því stóraukið samstarf yfirvalda um eftirlit með glæpamönnum, hryðjuverkamönnum og öðrum þeim sem kynnu að vilja misnota hið nýfengna frelsi.`` Í þessum textum sem varða Schengen (Forseti hringir.) er vikið að þeim sem gætu verið hættulegir öryggi ríkisins og þar eru menn, hæstv. ráðherra, komnir út á grátt svæði.