Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:40:08 (1061)

1997-11-06 14:40:08# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að gefa tilefni til frekari umræðu um þetta mál sem er sannarlega umræðunnar vert. Ég ítreka að sá tónn sem íslensk stjórnvöld gefa í þessum efnum er mikið áhyggjuefni. Ég held að við séum á mjög hættulegu spori að ætla á opinberum vettvangi, eins og hæstv. ráðherrar hafa gert, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ítrekað á þessu ári að tala án þess að tala skýrt um frjáls félagasamtök, NGO, eins og það er skammstafað á enskunni. Hvernig ætla menn að draga mörkin? Eru menn í almennu stríði við frjáls félagasamtök? Ég held að Íslendingar verði, ef þeir ætla að taka þessa stefnu sem hér er verið að ræða, að tala miklu skýrar. Þeir verða þá að gefa út opinbera skrá um hvaða samtök þeim eru þóknanleg og hver ekki nema þeir séu að gagnrýna heildina. Þetta gengur engan veginn upp. Ég tek alveg undir og hef gert það ítrekað, og það þekkja menn hér á Alþingi, að ég hef ekki tekið undir þann málflutning sem varðar einhverja almenna friðun lífvera t.d. í hafinu. Ég hef tekið það mjög skýrt fram og þann málflutning þekkja menn. En menn geta alveg rætt það við frjáls félagasamtök og menn eiga að halda uppi gagnrýni á það sem menn telja gagnrýnivert af fullum þrótti að sjálfsögðu. En frjáls félagasamtök eru nú einu sinni hluti af okkar samfélagi og þau endurspegla að sjálfsögðu umræðu og hugmyndir sem eru í löndunum þar sem þau starfa, þau bara endurspegla það og menn geta ekki verið að líta á þau sem blóraböggul númer eitt. Þau eiga stuðning eða endurspegla sjónarmið sem eru uppi hjá ríkisstjórnum viðkomandi landa. (Forseti hringir.) Ekki eru það frjáls umhverfissamtök sem hafa komið í veg fyrir hvalveiðar öðrum fremur. Það eru ríkisstjórnir landanna (Forseti hringir.) þó að slík samtök hafi vissulega kynt þar undir. En þau eru bandamenn okkar, (Forseti hringir.) jafnvel sömu samtök, í öðrum málum sem varða lífshagsmuni Íslendinga.