Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:24:45 (1070)

1997-11-06 15:24:45# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er hægt að gera ýmsum málum mun ítarlegar skil. Það er líka hægt að koma upplýsingum á framfæri með öðrum hætti ef þingmenn óska sérstaklega eftir því að við gerum grein fyrir því sem við sendum frá okkur á sviði mannréttindamála og á sviði þróunarmála, t.d. að því er varðar konur. Sjálfsagt er að verða við því en ég held að það sé nánast útilokað að setja fram allar þær upplýsingar sem ráðuneytið býr yfir í þessum málum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er mjög margt sem væri hægt að gera mun betri skil en það þarf hins vegar ekki að þýða að því hafi á engan hátt verið sinnt.

En það er líka ljóst að það eru mörg mál sem við getum sinnt mun meira ef við hefðum til þess mannafla og fé. Það er líka ljóst að við getum í mörgum tilvikum breytt forgangsröðun okkar. Þetta er alltaf erfitt. Það er alltaf vandákveðið hvaða fundi á að sækja. Við leggjum megináherslu á ákveðin mál en ég get tekið undir að mannréttindamál eru afar mikilvæg og þeim ber að sinna eins vel og við getum en við getum að sjálfsögðu látið hv. þm. í té ítarlegri upplýsingar um þá málaflokka sem hann óskaði eftir.