Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:28:38 (1072)

1997-11-06 15:28:38# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:28]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, nefndi í umræðum um ræðu utanrrh. um utanríkismál sérstaklega störf alþingismanna á alþjóðlegum vettvangi og ræddi hvers vegna þessi störf næðu ekki eyrum þingmanna og umfjöllun um skýrslur um alþjóðastarf væri á tíðum heldur fátækleg á Alþingi. Ég held að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafi haft rétt fyrir sér að tengja þetta umræðum um utanríkismál í dag vegna þess að skýrslur alþjóðanefndanna, starf alþjóðanefndanna og það starf sem fer fram í utanrrn. eru svið sem eru að mínu mati ekki nógu vel tengd og ég held að Alþingi geti fyrst og fremst sjálfu sér um það kennt.

Ég er sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að það þyrfti að bæta úr þessu og mér finnst að það væri tímabært að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið leituðu aðferða til þess að gera starfið, sérstaklega starf þingmannanna, betur samhæft, gera það markvissara og skapa meiri tengsl á milli starfs þingmannanna og þeirrar vinnu sem fer fram innan utanrrn.

[15:30]

Það er svo að þótt sendinefndir Íslands á erlendum vettvangi séu að sjálfsögðu fámennar og hafi ekki á að skipa þeim bakstuðningi sem sendinefndir annarra þjóða hafa, þá eru þar duglegir einstaklingar sem geta gert verulega mikið gagn fyrir þjóðina ef þeir hafa ákveðið vinnulag ef ég mætti segja svo og beita sér að málefnum í samræmi við ákveðna forgangsröð. Sjálfur hef ég starfað á slíkum vettvangi, í þingmannanefnd NATO, ÖSE og einnig nú á síðari árum og einkum og sér í lagi á Evrópuráðsþinginu. Ég verð að segja eins og er að þegar ég lít yfir þennan feril, þá finnst mér að mikið skorti á að menn raði í forgangsröð þeim verkefnum sem þeir telja mikilvægt að fást við og þar sem íslenskir hagsmunir eru þungvægir. Ég held þess vegna að það væri ómaksins vert að taka þá vinnu upp í samvinnu þingsins og framkvæmdarvaldsins að setja fram ákveðna forgangsröðun verkefna og áhersluatriði sem þingmenn gætu beitt sér að á þeim vettvangi sem þeir vinna. Ég tek dæmi. Bæði innan ÖSE og innan Evrópuráðsþingsins og raunar mun víðar er fjallað um mjög mikilsverð hagsmunamál íslensks atvinnulífs. T.d. er sjávarútvegsstefna Evrópuríkja, annars vegar innan Evrópusambandsins og hins vegar á þeim vettvangi þar sem öll Evrópuríkin koma saman, þ.e. Evrópuráðinu, mörkuð með ýmsum hætti. Það eru skrifaðar skýrslur um þessi mál og í ljósi skýrslnanna eru settar fram þingsályktanir sem beint er til framkvæmdarvaldsins. Þessar skýrslur, þó að hver og ein af þeim marki ekki stefnuna sjálf, tengjast öðrum skýrslum og tengjast þessari heildarvinnu, þessu flókna samstarfi sem stefnumörkun í ýmsum málaflokkum er orðin í Evrópu. Þetta er flókið ferli. Sérhvert skref sem stigið er skiptir hins vegar máli og við eigum að reyna að koma að þessum málum eins vel og mögulegt er. Ákveðnir málaflokkar eiga að vera þannig að Íslendingar eiga aldrei að láta sér tækifæri úr greipum ganga, að koma að málunum og standa vörð um íslenska hagsmuni. Við eigum að velja okkur ákveðin svið þar sem við stöndum alltaf vaktina og þar sem við gætum þess að mál fari ekki í gegn án athugunar sem snerta íslenska hagsmuni.

Ég vil nefna sérstaklega efnahagsmálin vegna þess að ég er sannfærður um að mjög mörg önnur mál ná ekki fram að ganga, það næst ekki árangur í málaflokkunum, ef ekki er efnahagslegur grundvöllur fyrir þeim. Ég nefni sérstaklega tvo málaflokka. Ég nefni sérstaklega mannréttindamálin annars vegar og umhverfismálin hins vegar. Ímynda menn sér t.d. að það náist verulegur árangur í mannréttindamálum í Hvíta-Rússlandi á meðan efnahagsástandið er þar eins og það er? Það er útilokað. Ímynda menn sér að framgangur lýðræðishugsjóna náist í Rússlandi á meðan efnahagsástandið er þar eins og það er nú? Það er tómt mál að tala um þetta. Ef menn geta ekki ýtt undir raunverulegar efnahagsframfarir í þessum ríkjum, þá verður ekki um að ræða framfarir í mannréttindamálum sem mark er á takandi. Einnig er útilokað að Rússland, sem fær nú talsverðan styrk frá Evrópusambandinu og G7-ríkjunum til þess að takast á við sinn vanda í kjarnorkuúrgangsmálum, geti tekið á þessu vandamáli af alvöru nema efnahagur þess styrkist. Ástandið er þannig nú að af 89 héruðum í Rússlandi, þar sem sum héruðin eru reyndar á stærð við þrjú eða fjögur Evrópuríki af stærri gráðunni, eru aðeins innan við tíu sem leggja eitthvað til fjárlaganna í Rússlandi. Hin eru öll þiggjendur þannig að Rússar geta ekki aflað skatta. Rússneska ríkið aflar ekki skatta. Það greiðir ekki laun og það er raunar óskiljanlegt fyrir þingmenn eins og þá sem hér starfa hvernig þetta þjóðfélag getur lifað af. En það er að sjálfsögðu augljóst að slíkt samfélag mun ekki takast á við umhverfisvanda. Það mun ekki gera það. Og það væri ástæða til þess að fara yfir það hvernig tekist hefur verið á við vandann í kjarnorkuúrgangsmálum í Rússlandi með aðstoð G7-ríkjanna.

Svo að ég taki eitt lítið dæmi, þá meta Úkraínumenn það þannig að þungi Tsjernóbíl-vandamálisins sé um það bil 20% af fjárlögum Úkraínu á hverju einasta ári, 20% fara í þetta vandamál sem er óleyst. Vandamálið er óleyst. Og fyrir utan þetta fé fara stórkostlegir styrkir frá Evrópusambandinu í að leysa þetta vandamál og þeir eru ekki nema brot af því sem lofað hefur verið. Ég held að ég megi segja að eitthvað um 700 millj. ECU fari í þessi verkefni og það er brot af því sem talað er um að þurfi þannig að þessum málum miðar mjög lítið áfram og það er náttúrlega ekki síst vegna þess að efnahagsmál í Rússlandi eru í molum. Það er rangt sem sagt er að þau séu í jafnvægi og séu á uppleið. Þau eru enn þá á niðurleið og það er hægt að segja það mjög skýrt. Þess vegna held ég að það skipti afar miklu máli að menn taki sér fyrir ákveðin áherslusvið og Íslendingar standi á öllum vettvangi vaktina á þessum sviðum og við einbeitum okkur að því að vera virkari og vinna markvissar í þessu alþjóðastarfi.

Ég er alveg sannfærður um að mjög góður grundvöllur er fyrir því að finna samstarf við t.d. utanrrn.um svona mál. Sjálfur hef ég leitað til utanrrn. og sjútvrn. til þess að fá aðstoð við sjávarútvegsmál og sú aðstoð hefur verið látin af hendi af miklu örlæti þrátt fyrir yfirþyrmandi verkefni í þessum ráðuneytum báðum. Það er því enginn efi á því að það er enginn skortur á vilja til þess að taka á þessu máli sameiginlega. En við eigum ekki að leyfa okkur að láta eingöngu persónuleg áhugamál ráða á alþjóðlegum vettvangi hverju þingmenn sinna. Við þurfum að beina starfskröftum okkar að ákveðnum áherslusviðum og þó að það sé óskyldur vettvangur, virðulegi forseti, þá er það nákvæmlega það sama sem við eigum að gera á sviði rannsóknar- og þróunarmála. Þar setjum við ekki fram nógu ákveðna forgangsröð. Þetta hef ég viljað segja.

Ég ætla að nefna þrjú svið í bili sem ég held að við ættum að taka fyrir alveg sérstaklega. Það eru sjávarútvegsmál og málefni hafsins. Það eru orkumálin í heild og það eru umhverfismálin sem við eigum að einbeita okkur að að koma fram með íslensk áherslumál við stefnumörkunina. Það skiptir grundvallarmáli að við aukum skilning innan Evrópuríkja á sjávarútvegsmálum. Það ríkir þar mjög takmarkaður skilningur á þeim málaflokki og við eigum þar hlutverki að gegna. Það er nefnilega hlustað á Íslendinga í þessum málaflokki. Það er gert ráð fyrir því að við höfum eitthvað fram að færa. Það sama gildir um orkumálin og ég held að besta framlag okkar til t.d. mannréttindamála mundi vera að reyna einhvern veginn að ýta undir skilning á því hversu vægi efnahagsmálanna er mikið, bæði í samráði við umhverfismál og mannréttindamál.

Þetta var nú það atriði sem mig langaði til þess að koma á framfæri að gefnu tilefni sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gaf mér og ég er sammála henni. Framlag hennar til þessarar umræðu var gott. Það er nauðsynlegt að taka á þessu.

Annað atriði sem mig langar til að tala um og minnst er á í ræðu hæstv. utanrrh. þar sem segir á bls. 10:

,,Barátta fyrir umhverfisvernd fær sífellt aukinn meðbyr og er það vel. Sú umræða má hins vegar ekki verða á kostnað mannréttinda heldur verða frekar hluti af mannréttindaumræðunni. Þessir tveir málaflokkar eru ótvírætt mjög samofnir og er það reyndar eðli mannréttinda að þau eru órjúfanlegur hluti nánast hvaða málaflokks sem er hvort sem það eru öryggismál, viðskiptamál, þróunarmál eða umhverfismál``

Þessi athugasemd í ræðu ráðherrans lætur lítið yfir sér, en hún er mjög mikilvæg. Sannleikurinn er nefnilega sá, og þarna komum við aftur inn á þetta áhersluatriði sem ég benti á áðan, að mannréttindamálin þróast ekki eðlilega nema sem hluti af heild og í nánu samhengi við það sem einmitt hér er nefnt, viðskiptamálin. Um umhverfismál gildir það sama.

Vegna þess að hér hefur orðið frekar yfirborðskennd umræða um Evrópusambandið í stikkorðastíl eins og venjulega þegar sú umræða kemur upp hér --- Alþfl. hefur um það forustu reyndar að fara yfirborðskennt í þessa umræðu þó að margsinnis hafi verið reynt að fá menn til þess að ræða efnislega um mörg atriði þessarar merkilegu þróunar sem á sér stað núna í Evrópu --- þá langar mig til þess að undirstrika það að á sama tíma og samvinna, samstarfsverkefni og viðskipti aukast á milli Austur-Evrópuþjóðanna og Vestur-Evrópuþjóðanna á vissum sviðum, þá dregur í sundur á öðrum. Og innan hinna stóru áfanga Evrópusamstarfsins --- þá á ég einkum og sér í lagi við Maastricht-samkomulagið og gjaldeyrissamstarfið eða EMU --- eru í raun og veru alls konar falin atriði sem ýta undir sundrung Evrópu og virðast til þess líkleg að koma í veg fyrir að menn nái að þróa eðlilegt samstarf við Mið- og Austur-Evrópuþjóðirnar. Það vill nefnilega svo til að innan Evrópusambandsins eru markmiðin ekki ljós. Annars vegar vinna menn af talsverðri einurð að því að auka samstarfið og gengissamstarfið er að sjálfsögðu undirstöðuatriðið í því að gera Evrópusambandsríkin að einu sambandsríki. Það er augljóst mál af öllum meginþáttum EMU að það mun leiða til þess að þar verður til eitt ríki.

En á sama tíma er ljóst að EMU mun búa til stéttaskiptingu innan Evrópusambandsins. Það verða til fyrsta flokks ríki sem verða þátttakendur frá upphafi. Það verða til annars flokks ríki sem verða ekki þátttakendur frá upphafi. Það verða til þriðja flokks ríki sem eru umsóknaraðilar, þurfa að laga sig að Evrópusambandinu eins og það er án EMU og svo verða að sjálfsögðu til ríki sem munu standa utan þessa bandalags.

Það er hægt að leiða að því nokkuð sterk rök, virðulegi forseti, að þessi mótsagnakennda þróun Evrópusambandsins sé þáttur í því að einangra stór ríki eins og t.d. Rússland og eins og ég sagði áður: Á meðan Vestur-Evrópa er á uppleið og Mið-Evrópa milli vita, þá er Austur-Evrópa á niðurleið.