Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:55:52 (1079)

1997-11-06 15:55:52# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), EKG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt og flytja hæstv. utanrrh. þakkir fyrir yfirgripsmikla ræðu og fróðlega skýrslu sem fylgir ræðunni. Ég hyggst dvelja eingöngu við eitt atriði sem er lokakafli skýrslunnar þar sem fjallað er um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Í þeim kafla skýrslunnar er einmitt vakin athygli á ályktun hæstv. ríkisstjórnar frá því í maí sl. þar sem ítrekuð er sú stefna stjórnvalda að hefja hvalveiðar hér við land að nýju. Enn fremur er vakin athygli á því að það hafi átt sér stað viðræður við önnur ríki sem málið varði, og þess enn fremur getið að fyrir dyrum standi könnunarviðræður íslenskra stjórnvalda við það sem kallað er hófsöm ríki innan Alþjóðahvalveiðiráðsins til að kanna hvort viðhorfsbreytingar til hvalveiða í atvinnuskyni, sem borið hefur á undanfarið, geti leitt til endurskoðunar á afstöðu Íslands til aðildar að ráðinu.

Hér er verið að fjalla um mál sem er búið að vera að þvælast fyrir okkur undanfarin 14 ár, allt frá því að hvalveiðibannið, illu heilli, var samþykkt hér á Alþingi. Við höfum verið að ræða þessi mál árum saman án þess að komast að nokkurri raunverulegri niðurstöðu.

Ég er alveg sammála því sem kemur fram í ræðu hæstv. utanrrh. að það vekur vissulega ugg hversu umhverfisverndarsinnum hefur tekist að fá almenning í hinum iðnvæddu ríkjum til liðs við sig gegn nýtingu á sjávarspendýrum, sem þó er fyllilega í samræmi við hugmyndafræði okkar um sjálfbæra nýtingu auðlindanna. Hér held ég að við séum komin að mjög alvarlegu máli. Það hefur tekist á alþjóðlegum vettvangi, víðast hvar, að fá menn til þess að samþykkja þessa grundvallarafstöðu um sjálfbæra nýtingu auðlindanna, og ég held að það væri mjög auðvelt að tína upp fjöldamargar alþjóðlegar samþykktir, bæði á vegum þingmanna og ríkisstjórna, þar sem tekið er undir þetta grundvallarsjónarmið. Þegar hins vegar kemur að því að fylgja því eftir að þessu leyti, þá er eins og allt hrökkvi í baklás. Og þetta er auðvitað að verða mjög alvarlegt mál fyrir okkur vegna þess að það hlýtur að leiða til þess fyrr eða síðar að úr því að menn fallast ekki á hugmyndafræði hinnar sjálfbæru nýtingar, nema þegar það hentar þeim, þá vitum við auðvitað ekki hvenær farið verður að beita þessu gegn okkur á öðrum sviðum.

Í fyrra var hér fulltrúi samtaka fiskmjölsframleiðenda sem sagði frá því að samtök sín stæðu frammi fyrir þessari ógn víða á mörkuðum, þar sem þeim væri nánast stillt upp við vegg og sagt við þá: Ef þið ekki sýnið og sannið það að framleiðsluvörur ykkar koma frá veiðum sem ekki skapa hættu gagnvart auðlindum hafsins, þá getið þið haft verra af. Þetta mál er því auðvitað miklu alvarlegra en svo að það snúist bara um hvalveiðar. Hér er verið að takast á um grundvallaratriði og spurninguna um hvort virða beri sjálfsákvörðunarrétt sjálfstæðra þjóða til þess að nýta auðlindir sínar. Við Íslendingar segjumst í orði kveðnu vilja stunda sjálfbæra nýtingu og þar með nýta hvali og önnur sjávarspendýr. Í raun fylgjum við annarri stefnu. Í raun höfum við látið undan þrýstingi þeirra samtaka sem hæstv. utanrrh. nefnir í sinni ágætu ræðu og í raun erum við með þessu í framkvæmd að fylgja eftir stefnu umhverfisverndarsamtaka á borð við Greenpeace. Það er auðvitað nöturlegt að hugsa til þess vegna þess að við höfum litið svo á að við værum m.a. að heyja baráttu gegn sjónarmiðum Greenpeace og álíka samtaka, en í raun höfum við ekki treyst okkur til þess að ganga gegn þessum sjónarmiðum.

[16:00]

Þetta er að mínu mati allt hið ömurlegasta og mér liggur við að segja hálflítillækkandi fyrir fullvalda þjóð að standa í þessum sporum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh. um þetta mál sérstaklega þ.e. með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn hyggst leiða þetta mál áfram, því eins og fram kemur í skýrslu hæstv. ráðherra, þá liggur fyrir sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að hefja hvalveiðar hér við land. Það er hins vegar setning sem er farin að verða ansi kunnugleg og menn hafa gjarnan sagt sem svo: Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvenær. En ég held að vaxandi vantrúar fari að gæta á því að menn muni hrinda þeirri stefnu í framkvæmd, sem þó styðst við mikið meirihlutaálit þjóðarinnar og er auðvitað stutt vísindalegum rökum.

Við höfum líka reynslu annarra þjóða af því hvernig þetta gekk fyrir sig. Norðmenn, sem voru í sömu sporum og við og kusu að taka slaginn, hafa verið að meta þetta. Í mjög fróðlegri grein í síðasta tölublaði Ægis er þetta rakið rækilega og þar er sýnt fram á að allt tal um að Norðmenn yrðu fyrir tjóni hefur reynst ósatt. Norðmenn stóðu þó sérstaklega illa að vígi að því leytinu til að þeir voru að efna til ólympíuleika í Lillehammer á þessum árum og lágu auðvitað mjög vel við höggi. Umhverfissamtök hvöttu til þess að menn mundu sniðganga ólympíuleikana, sniðganga norskar vörur o.s.frv. og eyðileggja þar með fyrir þeim þetta tækifæri. Ekkert af þessu gekk eftir, ekki nokkur skapaður hlutur. Þetta var allt saman tóm vitleysa.

Í skýrslu sem hagfræði- og viðskiptadeild háskólans í Björgvin gerði um þetta mál kemur í ljós að þar er að vísu hægt að benda á einhver tiltekin dæmi um fyrirtæki sem urðu fyrir skaða. Sá skaði er ekki talinn hafa verið nema um það bil 60--100 millj. kr. sem er ekki mikið af útflutningsveltu stórrar og öflugrar þjóðar eins og Norðmenn eru. Í öllum tilvikum var um að ræða skammtímaskaða sem jafnaði sig þegar frá leið. Það er því alveg ljóst mál að allar hrakspár sem fram komu í upphafi stóðust ekki.

Í þessari grein er vakin athygli á því að auðvitað verði að taka það með í reikninginn að talið er að stækkun hrefnustofnsins í Norðaustur-Atlantshafi, um 1/10, muni leiða til þess að tekjur af veiðum á fisktegundum sem hrefnan nærist á lækki um 1,3 milljarða kr. og munar nú um minna. Við sjáum því á þessu, virðulegi forseti, að auðvitað eru yfirgnæfandi rök fyrir því að við hefjum veiðarnar. Við þurfum að reka af okkur þetta leiðinlega slyðruorð sem vissulega er á okkur núna meðan við tökum ekki þessar ákvarðanir. Ég spyr sjálfan mig og aðra: Hvað eigum við eiginlega að dunda okkur lengi á þessum rúnti? Það eru 14 ár síðan við ákváðum að hætta hvalveiðum. Árið 1997 er að líða og árið 1998 að renna upp. Við hljótum að verða að svara sjálfum okkur og öðrum þeirri spurningu hvenær við hættum að láta undan sífelldum hótunum alþjóðlegra, svokallaðra umhverfisverndarsamtaka, sem hafa það á stefnuskránni að neita fullvalda þjóð um að nýta auðlindir sem hún vill nýta með skynsamlegum, arðbærum og sjálfbærum hætti.

Virðulegi forseti. Mig langaði eingöngu til að vekja athygli á þessu atriði. Það er auðvitað fjöldamargt í þessari skýrslu sem hefði getað kallað á mikla umræðu og sú umræða hefði staðið lengi dags. En þetta er atriði sem ég held að við Íslendingar sem þjóð verðum að fara að takast á við og svara þessari spurningu og þess vegna vil ég ítreka spurningar mínar til hæstv. utanrrh. að þessu leyti.