Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:15:36 (1081)

1997-11-06 16:15:36# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:15]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu um utanríkismál, sem ég tel ákaflega gagnlegt plagg og er mun þægilegra að ræða þau mál þegar svo ítarleg gögn liggja fyrir.

Ég tel að það sé rétt sem hér hefur verið haldið fram að líklega er minni ágreiningur um utanríkismál nú en oft áður á Alþingi þótt ágreiningsefni séu vissulega til staðar, eins og t.d. NATO og ESB eins og fram hefur komið. Ef til vill erum við of föst í hefðbundinni orðræðu, samanber greiningu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar áðan, kannski erum við alls ekki að ræða það sem skiptir mestu máli --- stóru mál framtíðarinnar eins og afstaðan til ESB augljóslega er.

Á síðasta þingi lagði ég fjölmargar fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra í þessari umræðu sem hann hafði ekki tíma til að svara vegna þess forms sem haft er á umræðunni. Því miður er það mjög lítið breytt nú og því mun ég takmarka mjög spurningar mínar til ráðherrans en vona að hann nái að svara að þessu sinni.

Ég vil byrja á að fagna því að ráðherrann hyggst hefja vinnu til að meta öryggisþarfir landsins. Ég tel að mjög mikilvægt sé að sjá dálítið fram í tímann hvað gerist eftir árið 2001 þegar núverandi bókun við varnarsamninginn við Bandaríkin rennur út.

Þá vil ég taka undir þá skoðun hæstv. utanrrh. að Schengen-samstarfið sé mjög mikilvægt ef á að halda í hið mikilvæga norræna vegabréfasamband en að sjálfsögðu verður slíkur samningur að samræmast utanríkisstefnu okkar að öðru leyti, samanber þá erfiðu stöðu sem Danir virðast vera komnir í nú. Í skýrslu ráðherrans kemur skýrt fram að nú á sér stað ákveðin þýðing á síðasta samningi og viðræður standa til við Ísland og Noreg. Ég vil því spyrja hvenær ráðherrann telji að málið verði lagt fyrir þingið. Er það fyrirsjáanlegt núna?

Í þriðja lagi vil ég taka undir það sjónarmið að umræða um mannréttindamál vill oft verða fyrirferðarlítil og of fyrirferðarlítil þegar utanríkismál eru rædd á Alþingi. Ég tel að ræða þurfi meira um málefni flóttamanna, málefni kvenna í þróunarlöndum eða annarra hópa sem þola gróf mannréttindabrot. Vegna ummæla hæstv. utanrrh. áðan um að Íslendingar styðji konur í þróunarlöndum þá vil ég endurtaka hve það voru mér mikil vonbrigði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á sl. ári að ekki var mannafli til að fylgjast með starfi í fastanefndinni um mannréttindamál þar sem einmitt var verið að fjalla um framkvæmd á samþykktum kvennaráðstefnunnar í Peking. Ég vona að einhver breyting hafi orðið þar á, en það er mjög bagalegt ef við getum ekki fylgst með því starfi því ég tel að við Íslendingar höfum þar ýmislegt fram að færa.

Það er alveg ljóst að það viðgengst enn þá að litið er á vinnuframlag kvenna í heiminum, sérstaklega í þróunarlöndum, sem ókeypis auðlind sem hvergi kemur fram í hagtölum. Það eitt og sér tel ég að sé ein stærsta skekkjan í öllum hagtölum heimsins og ég er ekki ein um þá skoðun. Vinna kvenna í þróunarlöndum er oft nátengd náttúrunni og nú eru hagfræðingar farnir að verðleggja náttúrauðlindir í vaxandi mæli. Það kom t.d. fram nýlega á ráðstefnu um orkumál og þótti mikil frétt. Við erum að reyna að verðleggja sjávarauðlind okkar með auðlindagjaldi og ég tel að þarna sé oft um mjög nátengd mál að ræða, þ.e. mat á náttúruauðlindum og vanrækt vinnuframlag kvenna, og að þetta verði ein af stóru byltingunum í upplýsingasamfélagi framtíðarinnar, að þetta mun skekkja allar hagtölur í næstu framtíð og allar hugmyndir okkar um hvaða þjóðir eru ríkar og hvaða fátækar. Ég tel að við Íslendingar með okkar fallegu náttúru ættum að geta staðið vel að vígi þegar kemur að þessum nýju reikningsskilum ef við verðum ekki búin að eyðileggja ímynd landsins með óhóflegri mengun.

Áður en ég kem að lokaatriði máls míns, sem eru mengunarmálin, þá langar mig í framhaldi af þessari umræðu um konur og þróunarmál að spyrja hæstv. utanrrh. í tengslum við fyrirspurn mína til félmrh. í gær um hugsanlega aðstoð við konur í Eystrasaltsríkjunum í framhaldi af jafnréttisráðstefnu sem var í Lettlandi á sl. sumri. Það kemur í ljós að verulega fjármagn vantar til að fylgja eftir þeim tengslum sem þar mynduðust. Norðmenn hafa farið þá leið að fá að nota hluta af sinni þróunaraðstoð til að geta fylgt eftir þessum tengslum og hafa einmitt verið í samskiptum við utanríkisráðuneytið í Noregi í þeim tilgangi. Þess vegna vil ég sérstaklega spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji að það gæti verið glufa til að styrkja þau samskipti nánar í gegnum þróunaraðstoð og peninga.

Þá er ég komin að lokaatriði máls míns, sem eru umhverfismálin og ráðstefnan í Kyoto í desember. Nú þegar hafa Japanar lýst því yfir að þeir ætli ekki bara að standa í stað miðað við Ríó-samkomulagið heldur ætli þeir að reyna að minnka útblástur á gróðurhúsalofttegundum um 5% fyrir árið 2010 og Evrópusambandið setur takmarkið hærra og miðar við 15% lækkun. En hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera? Minn skilningur, hæstv. forseti, er sá að Íslendingar ætli að fá að auka sinn útblástur eða heildarlosun á gróðurhúsalofttegundum frá því sem það var árið 1990. Röksemdirnar sem eru notaðar í þessari skýrslu og hafa komið fram hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar áður eru að mínu mati alls ekki trúverðugar. Því vil ég að lokum spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé bjartsýnn á að málflutningur af því tagi sem kynntur er í skýrslu ráðherrans verði viðurkenndur í Kyoto.