Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:24:16 (1082)

1997-11-06 16:24:16# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrstu spurningu hv. þm. þá á ég ekki von á að Schengen-málið verði lagt fram fyrr en eftir áramót. Eins og áður hefur komið fram mun þýðingu ekki verða lokið fyrr en í byrjun desember og m.a. þess vegna tel ég ólíklegt að ráðrúm verði til að leggja málið fram fyrr.

Um málefni kvenna vil ég m.a. nefna að við höfum gert ráð fyrir að 50 millj. kr. verði varið til mæðraverndar og ungbarnaverndar í Bosníu sem að sjálfsögðu tengist konum í ríkum mæli. Við höfum lagt mjög mikla áherslu á heilbrigðismál þar.

Hvað varðar Eystrasaltsríkin, þá er sjálfsagt að fara yfir það og athuga hvort þar er eitthvað hægt að gera. Ég vil hins vegar vara við því að við tökum þátt í allt of mörgum verkefnum ef það kostar það að við getum ekki framkvæmt þau verkefni bærilega sem við erum þegar byrjuð á. Þá er ég ekki að draga úr þörf á aðstoð í Eystrasaltsríkjunum.

Að því er varðar gróðurhúsaáhrifin, sem ég skal koma nánar inn á síðar, þá er ekki hægt að gera sér neina grein fyrir því hver niðurstaðan verður. Við hljótum að halda fram hagsmunum Íslands. Ég vil t.d. geta þess að nýjasta álverið sem hefur verið tekið í notkun er í Suður-Afríku og rafmagnið til þess álvers er framleitt með kolum og liggur fyrir að það er tíu sinnum meiri útblástur vegna slíks álvers, þar sem rafmagnið er framleitt með kolum heldur en vatnsorku. Við Íslendingar getum ekki samþykkt að okkur verði beinlínis meinað að nýta endurnýjanlega orkugjafa hér á landi. Með því væri öll framþróun stöðvuð. Ég mun koma nánar inn á það í mínum lokaorðum.