Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:27:01 (1083)

1997-11-06 16:27:01# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á nokkur atriði sem komið hafa fram í umræðunum í dag. Ég vil byrja á að þakka mjög málefnalega umræðu sem hér hefur átt sér stað og ég tel að það ríki í reynd mun meiri samstaða um íslensk utanríkismál og íslenska utanríkisstefnu en oftast áður. Það er þó ljóst að ekki eru allir sammála um allt eins og eðlilegt er. Vil ég nefna nokkur af þeim atriðum.

Að því er varðar varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn þá hefur því verið haldið fram að mjög vandræðalegur málflutningur sé af hálfu utanrrh. og það sé nánast verið að kvarta yfir því að þar eigi sér stað breytingar. Það er alls ekki rétt. Það er óhjákvæmilegt að þar eigi breytingar sér stað og óhjákvæmilegt er að endurmeta hlutverk varnarstöðvarinnar í ljósi breytinga í heiminum. Við höfum á engan hátt neitað að taka þátt í þessum breytingum. Við höfum sagt við samstarfsaðila okkar að við viljum vinna að þeim breytingum og við skiljum að þeir vilja reka varnarstöðina með minna fjármagni. Það er skiljanlegt í ljósi þess að verið er að skera niður í fjárlögum fleiri ríkja en á Íslandi og það er alls staðar verið að reyna að spara. Þessu höfum við reynt að mæta eftir megni. En við teljum hins vegar nauðsynlegt að varnarsamningurinn sé uppfylltur og lágmarksvarnarþörf Íslands sé svarað. Uppfylla verður þær kröfur sem gera verður til stöðvarinnar í varnarsamstarfinu innan NATO. Við verðum að hafa það í huga að samstarf Íslands og Bandaríkjanna er ekki aðeins samstarf um varnir Íslands í þessu tilliti heldur jafnframt framlag þessara tveggja þjóða til samstarfsins innan Atlantshafsbandalagsins, þ.e. hluti af framlagi þessara þjóða. Málið verður því að skoðast í víðu samhengi.

En með þessu er ekki sagt að þarna eigi engar breytingar að vera. Við höfum gengið frá samningi við Bandaríkjamenn um þetta mál sem gildir fram til ársins 2001. Það verður ráðist tímanlega í að athuga með frekari breytingar. Við munum reyna eftir megni að lækka kostnað við rekstur stöðvarinnar. Það er eðlileg krafa að mínu mati að verð á þeirri þjónustu sem varnarstöðin þarf að kaupa lúti markaðslögmálum en jafnframt þarf að hafa í huga að þessi þjónusta verður ávallt að vera fyrir hendi. Þess vegna verður í sumum tilvikum að kosta nokkru til þannig að hún sé ávallt á staðnum og hægt sé að ganga að þjónustunni.

[16:30]

Þetta er málaflokkur sem hefur valdið nokkrum deilum en þó minni deilum en oftast áður. Við munum vinna að því, eins og þegar hefur verið tekið fram, að endurmeta þetta mál á næstu missirum.

Hér hefur jafnframt verið talað allmikið um Evrópusamstarfið og því haldið fram að ekkert sé verið að sinna því samstarfi og við Íslendingar sitjum aðgerðarlausir á þessu sviði. Ég er ekki þeirrar skoðunar að eina leiðin til að sinna þessu máli sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mér virðist stundum að það komi fram í málflutningi Alþfl. að þessu máli verði ekki sinnt öðruvísi. Þetta er alrangt. Auðvitað geta menn sótt um aðild að Evrópusambandinu en þá þarf að meta hvort það sé líklegt að þetta sama Evrópusamband gangi að þeim kröfum sem við Íslendingar þurfum að setja fram og hvort það sé líklegt til árangurs eða að við náum þeirri niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir þjóðina. Að mínu mati bendir ekkert til þess í dag að slík niðurstaða fáist og ég ætla ekki að fara nánar út í það. Þetta er mitt mat eftir að hafa rætt þetta mál við fjölmarga aðila. Auðvitað höldum við þessu máli vakandi með ýmsum hætti.

Á hinn bóginn leggjum við áherslu á að styrkja samstarfið við Evrópusambandið. Við höfum styrkt sambandið innan Evrópska efnahagssvæðisins og lagt heilmikla vinnu í það með samstarfsþjóðunum og náð að mínu mati mjög góðum árangri þannig að þær þarfir sem við höfum í þessu samstarfi eru að miklu leyti uppfylltar. Við höfum líka lagt áherslu á að ganga til samstarfs við Evrópusambandið og þjóðir þess um Schengen, þ.e. frjálsa för fólks milli allra þessara landa. Þetta er að mínu mati mjög mikilvægt mál og treystir böndin við Evrópusambandið. Við leggjum sem sagt áherslu á mjög gott samstarf við Evrópusambandið og erum að reyna að treysta þessi bönd með ýmsu móti.

Nú ætla ég ekki að mæla á móti því eða afneita því að sá tími geti komið eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði, að Íslendingar telji rétt að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Um það getur enginn fullyrt nú. Það væri rangt af okkur að standa þannig að málum í dag að byggðar væru einhverjar sérstakar hindranir til að koma í veg fyrir það ef það verður mat þjóðarinnar að sækja um aðild er fram líða stundir. Það er á engan hátt verið að byggja upp slíkar hindranir. Ég tel t.d. að Schengen-samstarfið muni leiða til þess að auðveldara verði fyrir Íslendinga að taka slíka ákvörðun ef menn telja það rétt þegar fram líða stundir. Það er líka alveg ljóst að sú styrking sem hefur orðið í samstarfinu á innri markaðnum og líka pólitísku samskiptin við Evrópusambandið og jafnframt sú mikla breyting sem hefur orðið innan Atlantshafsbandalagsins, allt er þetta til þess fallið að auðvelda það, ef menn telja það hagkvæmt þegar fram líða stundir, að sækja um aðild. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé ekki rétti tíminn að gera það. En ég vil alls ekki fullyrða að það geti ekki komið að því einhvern tímann síðar. Við eigum að ræða þessi mál málefnalega en ekki vera að ásaka hvert annað um að menn séu að vanrækja hagsmuni Íslands í þessu sambandi. Ég tel að núv. ríkisstjórn sé að rækja hagsmuni Íslands á þessum vettvangi og styrkja samstarfið og tengslin við Evrópuþjóðirnar.

Að því er varðar loftslagsbreytingarnar sem hér hafa komið allmikið á dagskrá þá er það sennilega eitt alstærsta mál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir á alþjóðlegum vettvangi og staða okkar er ekki að öllu leyti mjög góð í því sambandi. Við höfðum fyrir árið 1990 lagt mikið af mörkum til að draga úr útblæstri hér á landi. Við höfum hitað okkar hús upp með rafmagni eða heitu vatni og farið í margvíslegar framkvæmdir til að draga úr mengun. Það á ekki við um allar þjóðir. Það á t.d. ekki við um þjóðir Mið-Evrópu og Austur-Evrópu sem nú óska eftir því að ganga í Evrópusambandið. Evrópusambandið hefur komið sér saman um að minnka útblástur um 15%. En þeir hafa líka gert samning um að það verði mjög misjafnt eftir þjóðum þannig að sumar þjóðir þurfi ekkert að draga úr útblæstri, aðrar þjóðir geti aukið hann en enn aðrar þurfa að draga mikið úr. Það er líka ljóst að þegar Mið-Evrópuríkin og Austur-Evrópuríkin ganga inn í Evrópusambandið mun það mjög auðvelda þær skuldbindingar sem Evrópusambandið hefur tekið á sig.

En þegar kemur að Íslandi þá höfum við farið fram á að tekið sé tillit til okkar sérstöðu. Við höfum bent á að við eigum hér endurnýjanlega orkugjafa sem menga ekki og að það sé ekki í samræmi við þau makmið sem menn eru að reyna að ná að koma í veg fyrir að þessir orkugjafar séu nýttir. Ef Íslendingar væru t.d. aðilar að Evrópusambandinu þá er alveg ljóst að eitt af því sem ríki Evrópusambandsins vildu leggja af mörkum til þessara mála væri að nýta orkugjafana á Íslandi og það væri sérstakt framlag í því sambandi. En af því að við stöndum einir þá ætla menn að líta á Ísland eins og allar þjóðir Evrópusambandsins. Við getum að sjálfsögðu ekki gengist undir svona skuldbindingar vegna þess að ef við gerum það þá erum við í reynd að skrifa undir að hætta að nýta þessa orkugjafa á Íslandi og loka okkur inni.

Það er því alveg ljóst að það getur komið til einhverra átaka í þessu sambandi. Ég geri mér ekki grein fyrir því á þessu stigi hvort hlustað verði á þá kröfu Íslendinga að taka tillit til okkar sérstöðu. Það er hins vegar mikill skilningur hjá mörgum þjóðum í þessu sambandi. En menn telja að erfitt sé að finna formúlu fyrir því vegna þess að aðrar þjóðir kynnu að nota það með öðrum hætti.

Nú er ég ekki að segja að við eigum ekki að taka þátt í þessum breytingum og að við eigum ekki að taka þátt í því að minnka þennan útblástur í heiminum. Við verðum að sjálfsögðu að gera það eins og aðrar þjóðir, því að þetta eru hagsmunir okkar eins og allrar heimsbyggðarinnar og Íslendingar verða að leggja sitt af mörkum í þeim efnum. En þar verður að ríkja sanngirni eins og í öllum öðrum málum. Það er sú sanngirni sem við höfum að leiðarljósi í okkar málflutningi og munum byggja á því á næstu missirum.

Herra forseti. Hv. þm. Einari K. Guðfinnsson kom lítillega inn á hvalamálið. Ég skil að bæði hann og aðrir eru óþolinmóðir í sambandi við það mál. Í því sambandi minntist hann á umhverfisverndarsamtök. Nú vil ég ekki gera lítið úr umhverfisverndarsamtökum. En ég hef haft nokkur skipti við umhverfisverndarsamtök og ég hlýt að hafa þann rétt að segja mína skoðun á þeim málum, og ég tel að ég hafi þar skyldur, ef þau beita ósanngirni og í reynd beita ódrengilegum vinnubrögðum gagnvart okkur Íslendingum. Þessi samtök verða að þola það alveg eins og við verðum að þola ýmislegt í málflutningi þeirra. Við höfum talað við þau umbúðalaust og það er rétt að ein umhverfisverndarsamtök báðust afsökunar með bréfi. En það var ekki beðist afsökunar með auglýsingu í Times. Það er dálítið annað að auglýsa óhróður um eina þjóð á heilsíðum heimsblaðanna en skrifa svo eitt lítið bréf til utanrrn. þar sem tekið er fram að þetta hafi nú verið leiðinlegt og það sé afar miður að þetta hafi komið fyrir og þeir skuli nú reyna að sjá til þess að það komi ekki fyrir aftur. Svo kann það síðan að gerast að mánuði síðar birti einhver önnur deild í þessum samtökum sams konar auglýsingu, en þá segir hin deildin: ,,Því miður þá er þessi deild í Þýskalandi eða Ástralíu okkur ekkert viðkomandi.`` Það er þetta sem við erum að halda fram og við vonumst til þess að það kalli fram ábyrgari vinnubrögð þessara samtaka. Við erum ekki með þessu að gera lítið úr mikilvægi þeirra en þau verða að þola gagnrýni eins og allir aðrir og við megum ekki láta það henda okkur að láta slíku ómótmælt.

Ég trúi því að sá dagur komi að við hefjum hvalveiðar. Það hefur liðið allt of langur tími. Ég get ekki frekar en aðrir sagt klukkan hvað það verður. Ég vona að það verði sem fyrst og ég mun fyrir mitt leyti vinna að því að það verði sem fyrst því spurningin er ekki aðeins um veiðarnar vegna verðmæti hvalanna, heldur líka vegna lífríkis hafsins og þess nauðsynlega jafnvægis sem þar verður að ríkja.

Ég vil að lokum, herra forseti, þakka þessa málefnalegu umræðu sem hefur orðið til þess að styrkja mig í þeirri trú að við séum á réttri leið í okkar utanríkismálum.