Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:42:18 (1084)

1997-11-06 16:42:18# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:42]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að þessi umræða hefur um margt verið góð og að það er mjög mikilvægt að við ræðum saman utanríkismál. Það er mikilvægur og stór málaflokkur. Ég kem í andsvar vegna orða ráðherrans um að málflutningur Alþfl. sé á þá lund að það verði að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að það sé eina leiðin til að finna út hvort við eigum heima þar. Ég verð að segja að ef ég væri spurð þessarar spurningar, hvort ég sé sammála þessu, að þá mundi svar mitt eiginlega vera bæði já og nei. Mér leiðist svolítið þessi einföldun á umræðunni. En það hefur reyndar verið gagnrýnt hér í dag að hún sé einföld af okkar hálfu. Formaður Alþfl. hefur tekið undir þau viðhorf og stefnumörkun sem Gróska hefur sett fram. Og hvað er það? Jú, það er að kanna með þjóðinni fyrst hvort það eigi að sækja um aðild. Ég sá það í viðtali við ráðherrann að hann gerði lítið úr því. Ég segi: Já og nei. Ég mundi ekki rétta upp hönd með því að á morgun yrði bara sótt um án einhvers undanfara. Ég mundi heldur ekki rétta upp hönd með því að þjóðin yrði spurð á morgun í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um málið. Þetta byggir á því að fyrst sé rætt opið um málið og skoðað hvaða niðurstaða yrði um kosti og galla samkvæmt þeirri könnun. Og þegar það lægi fyrir yrði þjóðin spurð: Vill þjóðin að sótt sé um? Þetta er leið sem formaður Alþfl. hefur nefnt að hann gæti hugsað sér að fara vegna þess að málið er svo umdeilt hjá þjóðinni, fyrst og fremst vegna þess að flokkarnir hafa ekki viljað taka það til umræðu.