Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:44:18 (1085)

1997-11-06 16:44:18# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að það sé vandi á höndum í þeirri sameiningarumræðu sem átt hefur sér stað milli ákveðinna stjórnmálaflokka og sá andi hefur komið fram í dag. En að ætla sér að leysa þann vanda með því að segja sem svo: ,,Við skulum spyrja þjóðina.`` Ég leyfi mér nú að lýsa eftir því hvort samstaða sé um spurningarnar sem á að bera fram. Liggur það fyrir hvernig viðkomandi flokkar ætla þá að tala í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu? Ætla menn að mæla með því að það verði samþykkt að sækja um aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni eða ætla menn að mæla á móti því? Þetta er náttúrlega ekkert annað en leið til þess að reyna að hlaupa frá málinu.

[16:45]

Það mætti sjálfsagt líka setja það fram alveg eins og var sett fram með fiskveiðistefnuna, að það beri að afnema lögin um sjávarútveginn árið 2001 og menn eigi að athuga hvort menn finni eitthvað út úr því fram að þeim tíma. Það mætti sjálfsagt finna líka þá leið að segja sem svo að stefnt skuli að því að segja sig úr NATO árið 2005 og reyna svo að finna út úr því hvort hægt sé að finna eitthvað í staðinn fram að þeim tíma. Þetta er náttúrlega ekkert annað en flótti frá raunveruleikanum. Ég veit að það er ekki flótti af hálfu Alþfl. að fara þessa leið með þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er flóttaleið fyrir hina til þess að búa til einhvern hrærigraut sem enginn botnar í.