Aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:09:32 (1093)

1997-11-11 14:09:32# 122. lþ. 22.2 fundur 35. mál: #A aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:09]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég misskil ekkert í þessari tillögu. Hér segir að starfsfólki verði boðið að ,,stofna sérstaka sparnaðarreikninga með hæstu ávöxtun, sem bundnir verði til þriggja til sjö ára, hjá viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis``. Þeir eru bundnir til þriggja til sjö ára. Fólk hefur ekki ráðstöfunarrétt yfir þeim. Þetta er það sem í daglegu máli er kallað skyldusparnaður. Þetta er fjáls skyldusparnaður vegna þess að menn geta farið inn í þennan feril eða sleppt því. Það er rétta hugtakið yfir það. Hv. þm. misskilur aðeins málið en það er kannski ekki meginatriðið. En ég bendi á að það sem ég er að segja í sambandi við útfærsluna, ef starfsfólk sparar og leggur öll launin sín inn á sparnaðarreikning sem fjárfestingarmöguleika, og svo hækkar gengið á hlutabréfum fyrirtækisins, þá á það val að taka allan hagnaðinn út með þeim hætti. Hins vegar er sagt að því verði frjálst að taka þetta út annaðhvort í hlutabréfum eða peningum. Það segir sig þá náttúrlega sjálft að hér er kannski ekki um að ræða mikla áhættu fyrir starfsmenn og á í sjálfu sér ekki að vera en ég er að benda á það hvaðan eiga þessi hlutabréf að koma. Það verður að hugsa til enda með hvaða hætti og hvort það á að vera hámark í sparnaðinum. Á að gefa út ný hlutabréf? Það er ekki svar, herra forseti, að vísa til hugsanlegra eignar viðkomandi hlutafélags á eigin hlutabréfum. Það er þetta sem ég er að benda á, herra forseti. Þetta er að mínu mati ekki fullhugsuð tillaga þrátt fyrir að vilji flutningsmanna standi til að örva sparnað. Það hefði verið mun nær að fara inn á þá þætti sem ég nefndi í ræðu minni og ekki hvað síst velta vöngum yfir því af hverju innlendur sparnaður er svo lítill og af hverju skuldir heimilanna hafi verið að aukast. Það er ekki, herra forseti, vegna þess að fólk er svo vitlaust að það kunni ekki að spara í hlutabréfum. Það er vegna þess að launin í landinu eru ekki hærri en svo að þau fara í nauðsynjar.