Umboðsmaður jafnréttismála

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 15:46:05 (1106)

1997-11-11 15:46:05# 122. lþ. 22.12 fundur 82. mál: #A umboðsmaður jafnréttismála# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[15:46]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni athyglisvert mál sem ástæða er til að fara nokkrum orðum um. Það er hverju orði sannara sem hv. framsögumaður frv. nefndi hér síðast, að konur eiga víða undir högg að sækja í þjóðlífinu. Ég hygg að í gegnum ár og áratugi hafi engin lög verið brotin jafnoft og jafnréttislögin og ítrekað hefur verið lagt út í það að endurskoða þau lög og skerpa á þeim til þess að tryggja betur jafnrétti í þjóðfélaginu þó að staðreyndirnar tali sínu máli að við erum ekki lengra á veg komin en raun ber vitni. Er þá sama hvert litið er, hvort litið er á valdahlutföllin í þjóðfélaginu, í stjórnmálum eða atvinnulífinu, að ekki sé minnst á launajafnréttið í þjóðfélaginu en það er til skammar hvernig hefur verið og hvernig ríkisvaldið er raunverulega ekkert betra þar en hinn almenni atvinnurekandi, við að brjóta jafnréttislögin og ákvæði þar að lútandi um launajafnrétti kynjanna.

Hv. framsögumaður nefndi endurskoðunina 1991 þar sem hv. þm. lagði til að komið yrði á fót embætti umboðsmanns jafnréttismála, en sú tillaga hafi ekki haft hljómgrunn þá. Ég hygg að ástæðan hafi verið sú að menn vildu freista þess eina ferðina enn að skerpa verulega á jafnréttislöggjöfinni, koma með ný úrræði sem ekki höfðu verið fyrir hendi og láta á þau reyna, þar á meðal kærunefnd jafnréttismála sem þingmaðurinn nefndi áðan. Eina ákvæðið í 1. gr. um að sérstaklega skyldi bæta stöðu kvenna til að ná markmiðum laganna og ákvæði 3. gr. sem ekki hefur verið nýtt hingað en ég tel fulla ástæðu til þess að séu skoðuð sérstaklega, þ.e. að tímabundnar aðgerðir eru heimilar og brjóta ekki gegn lögunum sem ætluð eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, að þau gangi ekki gegn lögunum. Á þetta ákvæði hefur ekki reynt og tel ég fulla ástæðu til þess að skoða hvernig hægt er að láta á þau reyna.

Það er til þess vitnað í grg. að í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafi um langt árabil verið starfandi umboðsmenn jafnréttismála og það sé góð reynsla af störfum þeirra og að í undirbúningi sé í Danmörku einnig sambærileg skipan mála.

Sú reynsla sem við höfum bæði af umboðsmanni Alþingis og umboðsmanni barna er mjög góð. Ég vil minna á, þegar þetta mál er til umræðu, að tregðan var mjög mikil í þinginu að koma á embætti umboðsmanns barna og hygg ég að það hafi verið árum eða áratugum saman fyrir þinginu áður en það náði fram að ganga. Það mál heyrði þá undir dómsmrn. og átti ég þá sæti í ríkisstjórn og óskaði ég eftir því, þar sem illa gekk í dómsmrn. að fá því máli framgengt, að það mál færi undir verksvið félmrn. til úrlausnar til að vinna það frv. og þá fyrst þegar sú vinna fór af stað náði málið fram að ganga. Ég vona, herra forseti, að söm verði ekki örlög þessa máls og tregðan á því að ná því fram eins og varðandi umboðsmann barna. Við erum alls ekki að tala um að setja á fót embætti sem kostar heil ósköp og sem ætti að vera ríkissjóði ofviða. Kostnaðurinn við þetta embætti er kannski 10--12 milljónir, svipað og er hjá umboðsmanni barna. Mér finnst að þetta mál gæti verði prófraun á vilja allra stjórnmálaflokka á þingi, hvað þeir meina með jafnréttismálum og hvað þeir meina með því að tryggja jafnrétti hér á landi.

Þó ég hafi ekki verið þeirrar skoðunar árið 1991 að ástæða væri til þess að koma á fót embætti umboðsmanns jafnréttismála, af því ég vildi fyrst láta reyna á þessi ákvæði, þá tel ég að tímabært sé að koma embættinu á fót. Ef tregðan er mjög mikil þá mætti vera í þessu frv., að mínu viti, einhvers konar endurskoðunarákvæði til fimm ára, að þetta yrði skoðað, og reynslan af starfi umboðsmanns jafnréttismála metin á þeim tíma.

Hv. framsögumaður nefndi að í félmn. hefði málið verið rætt á þeim nótum að rétt væri að bíða eftir heildarendurskoðun jafnréttislaganna. Mér sýnist á því ákvæði sem kemur fram hér í 3. gr. um verkefni umboðsmanns jafnréttismála og þau verkefni sem Jafnréttisráði eru ætluð samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að verið gæti um einhverja skörun að ræða vegna þess að samkvæmt frv. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þá er verkefni Jafnréttisráðs að móta stefnuna í jafnréttismálum og hafa frumkvæði að sérstökum tímabundnum aðgerðum til að bæta stöðu kvenna og vinna stefnumarkandi áætlanir í því skyni. Þannig að vera má að það þurfi að skoða jafnréttislöggjöfina samhliða.

Ég er alveg sammála hv. flutningsmanni um að engin ástæða er til þess að bíða heildarendurskoðunar á jafnréttislögunum. Þetta er sérstakt úrræði sem hér er gripið til. Og ef einhvern tímann hefur verið þörf á að stofna embætti umboðsmanns þá er það umboðsmaður jafnréttismála vegna þess að öll önnur úrræði hafa verið reynd í þessu efni. Ef komið væri á fót sérstökum umboðsmanni jafnréttismála hefði hann það verkefni sérstaklega að, eins og í grg. segir, með leyfi forseta: ,,vinna að því að stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga og fyrirsvarsmenn lögpersóna hafi í heiðri ákvæði laga, alþjóðasamninga og hliðstæðra samþykkta um jafnrétti kynjanna`` þá er ég sannfærð um að það mundi skila okkur eitthvað áleiðis.

Ég vil því hvetja til þess að málið fái góða umfjöllun í félmn. og að það fái þá afgreiðslu þannig að við getum tekið málið aftur hér til umræðu og ítreka það, herra forseti, að ég tel þetta prófraun á vilja allra stjórnmálaflokka hér á þingi, hvort þeir vilji í raun og sanni stuðla að því að flýta fyrir þeirri þróun að hér komist á jafnrétti á öllum sviðum þjóðlífsins. Ég minni á það enn og aftur að við erum ekki að tala hér um stóra fjárhæð, kannski 10--12 milljónir, og við gætum út af fyrir sig, ef menn eru með einhverjar efasemdir um þetta, látið þetta ákvæði laga um umboðsmann jafnréttismála, ef að lögum verður, einungis gilda tímabundið til reynslu til þess að sjá hvort við göngum eitthvað fram á veginn í jafnréttismálum með tilkomu umboðsmanns jafnréttismála. En um það er ég sannfærð.