Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 16:19:25 (1110)

1997-11-11 16:19:25# 122. lþ. 22.13 fundur 84. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[16:19]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt nálgun að málinu að segja að eitthvert lítið sveitarfélag, sem er eitt af þeim sem tekur þátt í kosningum, geti komið í veg fyrir að hin sameinist. Það er ekki svo. Þegar sveitarstjórnirnar ákveða að láta fara fram kosningu eru þeim ljósar leikreglurnar. Þeim er ljóst að allir verða að samþykkja. Ef sveitarstjórnir ákveða þrátt fyrir það að láta kosningu fara fram þá er það þeirra ákvörðun. Meti þau málið þannig að ein sveitarstjórnin eða andstaða íbúa í einu sveitarfélaginu sé það mikil að tillagan verði felld eiga þau þann kost að láta fara fram kosningu án þess sveitarfélags og þar með væntanlega tryggt að málið nái fram að ganga. Ég fellst því ekki á að hægt sé að halda því fram að afstaða íbúa í einu sveitarfélagi geti komið í veg fyrir sameiningu íbúa í öðrum sveitarfélögum. Ég fellst ekki á það. Ég tel það alranga nálgun að málinu af því einfaldlega að menn ráða því frá upphafi hvernig þeir láta málið fara fram. Velji menn þann kost að öll sveitarfélögin, sem eru í viðræðunum, verði með í kosningunni og eitt þeirra eða fleiri felli vita menn það fyrir fram og þá er hægt að endurtaka leikinn í þeim sveitarfélögum þar sem málið hlaut stuðning til að vita hvort íbúarnir sem veittu málinu brautargengi séu sama sinnis um breytta tillögu. Það ber að leggja áherslu á að tillagan er breytt frá því sem var þegar menn kusu um það þegar einn eða fleiri aðilar eru ekki lengur með.

Ég vil svo svara spurningu hv. þm. Ég talaði gegn því á sínum tíma að veita þessa heimild sem veitt var fyrir tveimur árum. Það fór ekkert milli mála að ég talaði mjög gegn því. En blessunarlega fór það mál þannig í kosningunum að það reyndi ekki á ákvæðið. Það kom því ekki að sök ef svo má segja. En mér fannst það þá, og ég lét það koma fram, afar ólýðræðislegt af hálfu þeirra sem fóru fram á málið að ætlast til þess að Alþingi setti lög sem gerðu mönnum kleift að ná fram niðurstöðu þó hún yrði felld. Það fannst mér mjög ólýðræðislegt og mér finnst það enn.