Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 17:27:24 (1118)

1997-11-11 17:27:24# 122. lþ. 22.17 fundur 101. mál: #A þingsköp Alþingis# (mat á stöðu kynjanna) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[17:27]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 1. flm. frv., Kristínu Halldórsdóttur, hefur Alþingi markað skýra stefnu en það hefur stundum þótt skorta á að menn yrðu hér sammála um aðferðir. Ég er nokkuð viss um að það frv. sem hér liggur fyrir verður samþykkt, ekki eingöngu vegna þess að flutningsmenn þess koma úr öllum flokkum heldur sýnist mér að Alþingi Íslendinga sé sá einn kostur í rauninni að samþykkja þessa aðferð til að hlúa að jafnrétti kynjanna og stuðla að því að það verði sem mest. Þar vil ég nefna í fyrsta lagi sem meginástæðu að Ísland er aðili að lokaályktun kvennaráðstefnunnar í Peking. Ísland hefur tekið undir það sem þar kemur fram, en þar er einmitt lögð áhersla á að sjónarhorn kynjajafnréttis verði fléttað inn í alla opinbera stefnumótun eins og hér er lagt til.

Í öðru lagi vil ég nefna að í skýrslu samstarfsráðherra Norðurlandanna um störf norrænu ráðherranefndarinnar kemur fram í kaflanum þar sem sagt er frá norrænu embættismannanefndinni um jafnréttismál að í rauninni er mælt með þessari aðferð því að þar segir, með leyfi forseta:

,,Ein aðferð sem ráðherranefndin leggur einkar ríka áherslu á er að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum stefnumótunar í nánasta umhverfi, í sveitarstjórnum, við stjórn landsins og á vettvangi Norðurlanda.``

Hér sýnist mér að ráðherranefndin sé einmitt að tala um samþættingu og í þriðja lagi vil ég nefna að það hefur komið fram að í næstu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem mun gilda frá og með upphafi næsta árs sé lagt til að þetta sjónarhorn verði lagt til grundvallar, þ.e. að lagt verði mat á stöðu kynjanna á viðkomandi sviði og hvaða áhrif ný lög eða ályktanir hafi á þá stöðu.

[17:30]

Herra forseti. Það má segja að samþætting sé ný aðferð í jafnréttismálum. Hv. 1. flm., Kristín Halldórsdóttir, gat þess áðan að Kvennalistinn hefði haft sambærilegt sjónarmið þessu að hluta þannig að ef til vill værum við ekki með alveg nýja aðferð hér. Það sem er nýtt er að aðferðin er nú viðurkennd alþjóðlega. Hún er viðurkennd á vettvangi Norðurlandaráðs og ef tillaga um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar gengur eftir þá verður hún líka viðurkennd hér og því endurtek ég að ég er ekki í nokkrum vafa um að frv. verður samþykkt.

Hér er lagt til að mat verði lagt á stöðu kynjanna á öllum þeim sviðum sem hv. Alþingi fjallar um og að þannig verði tryggt að sjónarmið kynjajafnréttis séu höfð með frá upphafi og gildir þá einu hvort um er að ræða tillögur í samgöngumálum eða sjávarútvegi. Til hliðsjónar við slíkt mat þarf að taka tillit til þess hvort aðgerðirnar muni leiða til aukins jafnréttis og þá að það kynið sem kann að eiga undir högg að sækja standi að minnsta kosti ekki verr eftir en áður. Það þarf að taka tillit til þess hvort áhrifin leiða til aukinnar þátttöku beggja kynja. Það þarf líka að taka tillit til þess hvaða þýðingu breytt stefna hefur fyrir fjölskyldulíf, ekki bara kvenna heldur líka karla og hvaða áhrif breytt lög eða nýjar áherslur kunna að hafa á atvinnuþátttöku bæði karla og kvenna, þátttöku þeirra í félagslífi og ekki síst á stjórnmálaþátttöku karla og kvenna. Jafnframt, þegar fjallað er um atvinnumálin, að skoðað verði sérstaklega hvort breytt stefna í sérhverjum málaflokki hafi áhrif á kynskiptingu vinnumarkaðarins, hvort hún stuðli að meiri blöndun eða hvort hún jafnvel geri vinnumarkaðinn enn kynskiptari.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gat þess í upphafi máls síns að mjög hljótt hefði verið um þetta þingmál. Það er alveg rétt. Það hefur ekki verið mikið um það fjallað. Ég er hins vegar viss um að sú aðferð sem hér er lögð til mun verða meira í umfjöllun á næstunni. Það vill gjarnan verða svo að undanfararnir fá kannski ekki þá maklegu umfjöllun sem mál þeirra eiga skilið. En aðferðin sjálf þarfnast umræðu í okkar samfélagi og það verður að koma henni á dagskrá. Ég er viss um að svo verður. Það er hlutverk okkar sem hér erum að gera það og koma því á framfæri við þá sem eiga að koma því til þjóðarinnar að hér er um stefnumarkandi mál að ræða sem skiptir máli og er ekki, eins og ég gat um áðan, einskorðað við Ísland heldur hluti af alþjóðlegri breytingu á nálgun varðandi jafnréttismál, nálgun sem við ætlum okkur að taka þátt í vegna þess að við teljum nauðsynlegt að horfa á jafnréttismálin frá þessu nýja sjónarhorni til þess að við getum náð árangri.