Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 17:34:56 (1119)

1997-11-11 17:34:56# 122. lþ. 22.17 fundur 101. mál: #A þingsköp Alþingis# (mat á stöðu kynjanna) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[17:34]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn í þessa umræðu þar sem ég er einn af flm. málsins, rétt til að undirstrika hvað hér er merkilegt mál á ferðinni að mínu mati.

Eins og fram hefur komið í umræðunni snýst málið um að koma jafnréttismálunum inn í alla málaflokka löggjafarvaldsins. Stefnan sem hér um ræðir og kölluð hefur verið samþætting eða ,,mainstreaming`` nær bæði til löggjafarvaldsins og til framkvæmdarvaldsins á ýmsum sviðum. En hér er fyrst og fremst verið að beina athyglinni að löggjafanum, þ.e. að með hverju einasta frv. sem verður samþykkt á Alþingi sem lög og hverri þáltill. fylgi mat á áhrifum þess á stöðu kynjanna. Þetta krefst þess að sjálfsögðu að einhver stofnun leggi fram þetta mat. Miðað við núverandi kerfi væri ekki óeðlilegt að það væri skrifstofa jafnréttismála og það yrði þá metið út frá tiltækum gögnum og það komi fram með nál., miðað við þingsköpin, hvaða áhrif þetta mál, sem Alþingi ætlar að fara að samþykkja, hefur á stöðu kynjanna í þjóðfélaginu. Löggjafinn er einn liður í þessari samþættingarstefnu og grunnforsendan og mjög eðlilegt að byrja á því að þessi stefna nái inn til löggjafans. Þessi stefna er í bæklingi skrifstofu jafnréttismála kölluð samþætting þó það sé ef til vill ekki besta orðið. Vissar grunnforsendur þurfa að vera fyrir hendi til að hægt sé að hrinda henni í framkvæmd og þar á meðal eru upplýsingar. Ég tel að kynskipt tölfræði þurfi að liggja fyrir í þjóðfélaginu, það þurfi að liggja fyrir ýmsar upplýsingar til að hægt sé að horfa á samfélagið út frá kynjuðu sjónarmiði. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega fagna bæklingum Hagstofunnar. Árið 1994 kom út bæklingur sem hét Konur og karlar og nú var að koma út ný útgáfa af þessum bæklingi. Svona vinna frá hinu opinbera er grunnforsenda fyrir því að hægt sé að framkvæma þá greiningu sem hér er ætlast til. Ég vil fagna því sérstaklega að svona grunnupplýsingar eru nú þegar tiltækar, en það voru þær ekki til dæmis þegar Kvennalistinn steig sín fyrstu spor. Enda held ég að þessi bæklingur, sem kom út árið 1994, hafi verið fyrsti bæklingurinn af þessu tagi.

Í öðru lagi er mikilvægt að til staðar sé pólitískur vilji og alveg skýrt sé hver ber ábyrgð á þessari framkvæmd. Það er okkar mat að því miður hafi verulega skort á þennan vilja í núv. ríkisstjórn. Þó við höfum haft hér jafnréttislög í gildi í rúm 20 ár þá er með ólíkindum hvað hægt gengur að koma á einföldum atriðum sem þó eru yfirlýst stefna stjórnvalda hverju sinni og tekið er fram í jafnréttislögum að eigi að gera. Í því sambandi vil ég nefna sem dæmi svör við fyrirspurn minni um framkvæmd á 12. gr. jafnréttislaganna þar sem fram kemur að vel flestir ráðherrar í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar hafa brotið þessa grein jafnréttislaganna frá því að hún var lögtekin árið 1991. Þarna eru þó undantekningar og þar vil ég sérstaklega nefna jafnréttisráðherrana sjálfa sem hafa verið duglegastir við að fara að þessum lögum. En af einhverjum ástæðum virðast þeir ekki hafa haft þann kraft og það vald eða þann framkvæmdavilja sem þarf til að benda samráðherrum sínum í ríkisstjórnunum á að þarna séu lög sem beri að fara eftir. Það er auðvitað umdeilanlegt hvort það er á ábyrgð jafnréttisráðherranna í viðkomandi ríkisstjórn eða forsrh. En það er alla vega merki um að pólitískan vilja skortir. Þess vegna tel ég að ef Alþingi samþykkti tillögu af þessu tagi þá væri það merki um raunverulegan pólitískan vilja fyrir þeim markmiðum sem svífa yfir vötnum í jafnréttislögunum. En því miður virðist þetta vera frekar sýndarmennska en nokkuð annað ef ekki er vilji til að framkvæma lögin.

Í þriðja lagi, fyrir utan upplýsingar og pólitískan vilja, þarf fræðslu. Það þarf fræðslu inn í viðkomandi stofnun sem á að leggja mat á hvert einasta lagafrv. sem samþykkt er, t.d. fræðslu til starfsfólks viðkomandi stofnunar, hvort sem það yrði skrifstofa jafnréttismála eða einhver önnur. Í því sambandi vil ég taka undir orð hv. 1. flm., Kristínar Halldórsdóttur, hér áðan um það átak sem Kvennalistinn stendur fyrir núna með að fá hingað þekkta konu, dr. Agnetu Stark sem hefur staðið fyrir fræðslu af þessu tagi í Svíþjóð fyrir stjórnmálamenn, ráðherra og ekki síður fyrir embættismannakerfið. Það er mjög mikilvægt til að þessi stefna komist á að allir séu meðvitaðir um þennan tilgang og hvaða gleraugu beri að setja upp til að hægt sé að framkvæma þetta.

Ég vil einnig taka undir að það á að beina jafnréttisumræðunni inn í alla málaflokka, og það er ekki nóg að segja: ,,Jafnréttismálin eru hér í sér ráðuneyti``, heldur er þetta sýn sem á að nota á alla málaflokka. Það má segja að fyrir okkur kvennalistakonur er þetta ekkert nýtt. Stefnuskrá Kvennalistans frá upphafi hefur einmitt verið þannig upp byggð að við lítum á atvinnumál, menntamál og heilbrigðismál út frá sjónarmiði kvenna reyndar oftar. Nú er áherslan meiri á kynferði, þ.e. hvaða máli það skiptir hver stefnan er í þessum eða hinum málaflokknum út frá sjónarmiði beggja kynja. Þetta er stefna sem núna er búið að viðurkenna. Þetta er orðin stefna Evrópusambandsins í jafnréttismálum. Fjórða framkvæmdaáætlun Evrópusambandsins í jafnréttismálum 1996--2000 leggur áherslu á að öll löggjöf og framkvæmdaáætlanir byggi á því að koma þessari stefnu í framkvæmd, hvort sem fólk er að sækja um styrki, gera rannsóknir, eða annað og gífurlegir peningar eru settir í að koma þessari stefnu í framkvæmd á vegum Evrópusambandsins.

Norræna ráðherranefndin hefur einnig samþykkt að vinna í anda þessarar stefnu. Þar með má segja að íslensk stjórnvöld hafi þegar skuldbundið sig á tvennum vígstöðvum, bæði í gegnum EES-samninginn og í gegnum norrænu ráðherranefndina til að vinna að þessari stefnu. Það er svo sannarlega kominn tími til að tekið verði á þessu máli af alvöru. Ég tel mjög eðlilegt að fyrsta skrefið sé að löggjafinn viðurkenni þessa stefnu og viðurkenni það þannig að það verði ávallt hugað að því þegar verið er að breyta lögum eða samþykkja þáltill., hvaða áhrif það muni hafa annars vegar á konur og hins vegar á karla.

Ég vil því, hæstv. forseti, ítreka að hér er um mjög merkt mál að ræða, tímamótatillögu sem verðskuldar verulega athygli. Ég hefði viljað sjá hér troðfullan þingsal og troðfulla palla. Hér á pöllunum eru reyndar starfskonur Kvennalistans mættar því þær gera sér grein fyrir hvað hér er um mikilvægt mál að ræða. En því miður virðist þingheimur almennt ekki átta sig á því.

Ég vona, hæstv. forseti, að mál þetta hljóti góða framgöngu og góða umfjöllun í allshn. og í þjóðfélaginu.