Aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 18:04:54 (1122)

1997-11-11 18:04:54# 122. lþ. 22.18 fundur 109. mál: #A aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[18:04]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um aðgerðir til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu sem 1. flm. hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir reifaði ítarlega í sínum málflutningi. Ég vil ítreka þá skoðun hennar að hér er annað dæmi um tillögu sem samræmist hugmyndafræði samþættingar. Lagt er til að sett verði á laggirnar nefnd sem bendi á hvernig mæta skuli betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna í grunnskólum landsins, þ.e. það á að horfa á grunnskóla landsins út frá kynjuðu sjónarmiði. Það er alveg ljóst, eins og fram kemur í greinargerð og ræðu flutningsmanns, að veruleg ástæða er til að ætla að stundum þurfi að nota mismunandi aðferðir til að ná sem bestum árangri með hvort kyn fyrir sig þar sem ljóst er að kynjamunur er í þroska á þessum árum. Það má nefna t.d. fínhreyfingar, kynþroska, félagsþroska og ýmis önnur svið sem þýðir líka að ákveðinn menningarmunur myndast í hópum hjá stúlkum og drengjum. Vinátta og hópar eru oft kynbundnir á þessum aldri á neðri stigum grunnskólans þannig að fyrir utan þennan kynjamun sem kemur fram, sem að verulegu leyti er oft talinn eiga sér menningarbundnar orsakir, þá vitum við að það eru ákveðnar staðalmyndir sem börn hafa fyrir sér í uppeldi og ákveðnar fyrirmyndir sem virðast hafa þau áhrif að ákveðnir þættir eru frekar styrktir í hegðun stúlkna annars vegar og drengja hins vegar.

Það var minnst á hjallastefnuna áðan í leikskólum landsins og það er einmitt gott dæmi um það að markvisst er reynt að taka t.d. á atriðum eins og að stúlkur eigi ekki að vera leiðtogar og þær eigi allar að vera jafnar, þá er reynt að þjálfa þær í að taka forustu. Sömuleiðis að drengir eigi síður að sýna tilfinningar því skal leyfa þeim að vera tilfinningaverur, að leyfa drengjum að tjá sínar tilfinningar, hvetja þá til að gráta líka eins og stúlkur ef þeir meiða sig o.s.frv. Markmiðið með þessu er að út úr uppeldinu komi einstaklingar af báðum kynjum sem séu sem sterkastir á sem flestum sviðum og heil svið persónuþroskans verði ekki vanrækt.

Sú sem hér stendur hefur verið háskólakennari í uppeldisfræðum í mörg ár og hefur einmitt stundað rannsóknir á þessu sviði, menntun og kynferði, og átti m.a. kost á því að taka þátt í samnorrænu verkefni sem heitir Nordlilja þar sem markmiðið var að kanna hvernig hægt er að stuðla að því að kynjum sé ekki mismunað í skólum. Það verkefni lagði í sínum lokatillögum megináherslu á kennaramenntunina. Ég ætla ekki að endurtaka mikið af þessari umræðu að sinni, hæstv. forseti. Ég ræddi það í fyrra þegar þessi tillaga var til umræðu, en það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því hvað það gengur seint að koma þessu inn í kennaramenntunina. Það var alveg ljóst þegar þetta ákveðna verkefni, Nordlilja-verkefnið, var til umræðu að það mætti ákveðnu áhugaleysi og jafnvel andstöðu innan aðalkennaramenntunarstofnunar landsins, Kennaraháskóla Íslands. Það er að vísu tekið fram í greinargerðinni að þessi atriði séu kennd í þróunarsálfræði bæði við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Ísalands og Háskólann á Akureyri en ég vil ítreka að þetta er alls ekki nóg. Ég hef grun um að um leið og einhver einn áhugasamur kennari hættir störfum, þá virðist vera hætta á að öll umfjöllun detti út í kennaramenntuninni. Það þarf ekki nema að einn kennari fari í rannsóknarleyfi. Það þarf því að tryggja það að inn í námskrár fyrir kennaramenntunarstofnanir sé tekið markvisst á þessum málum. Fyrir stuttu var mér bent á að það eina sem væri í boði í kennaramenntuninni núna, fyrir utan þessa örlitlu umfjöllun í þróunarsálfræði, væri eitt endurmenntunarnámskeið í Kennaraháskólanum.

Ég tel, hæstv. forseti, að þetta sé það mikilvægt atriði og það mikið af rannsóknum sem liggi fyrir, samanber hina góðu greinargerð sem fylgir málinu, að ástæða sé til að taka ákveðið á málum og er kennaramenntunin þar algert lykilatriði. Þess vegna vil ég ítreka það, hæstv. forseti, að tillagan nái nú fram að ganga að þessu sinni, að meiri hluti þingsins sjái sóma sinn í því að taka þessi mál af alvöru og sýni þann pólitíska vilja sem þarf og í framhaldinu verði gert markvisst átak í því að taka á málinu, ekki síst innan kennaramenntunarinnar.