Markaðshlutdeild fyrirtækja

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 13:35:18 (1126)

1997-11-12 13:35:18# 122. lþ. 23.1 fundur 210. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (málmbræðsluver) fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[13:35]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 223 hefur hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, beint til mín svohljóðandi fyrirspurn um markaðshlutdeild málmbræðsluvera:

Hefur ráðherra upplýsingar um markaðshlutdeild tveggja stærstu málmbræðsluvera landsins?

Stærstu fyrirtæki í málmbræðslu eru Íslenska álfélagið hf. og Íslenska járnblendifélagið hf. og nýtt fyrirtæki sem er að hefja starfsemi á næsta ári í álframleiðslu, Norðurál hf. Á það ber að leggja áherslu að þessi fyrirtæki starfa ekki á samkeppnismarkaði hér á landi.

Framleiðsla Íslenska járnblendifélagsins fer öll til útflutnings og hið sama gildir að mestu um Íslenska álfélagið. Árið 1996 seldi álfélagið tveimur íslenskum fyrirtækjum alls 42 tonn af álhleifum og í ár 24 tonn af álhleifum vegna framleiðslu sinnar.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hver er hlutdeild þeirra í kaupum á orku til orkufreks iðnaðar?

Hlutur Ísals og Járnblendifélagsins er tæplega 95% af orkusölu til stóriðju. Af sölu raforku í landinu er hlutur þeirra 47%.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra ástæðu til, með tilliti til markaðshlutdeildar þessara fyrirtækja, að setja lög sem takmarka umsvif og starfsemi þeirra umfram það sem samkeppnislög segja til um?

Eins og fyrr segir starfa þessi fyrirtæki ekki á samkeppnismarkaði hér á landi. Á meðan svo er kemur ekki til kasta íslenskra samkeppnisyfirvalda um starfsemi þeirra.