Ljósleiðari

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 13:58:28 (1145)

1997-11-12 13:58:28# 122. lþ. 23.9 fundur 222. mál: #A ljósleiðari# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[13:58]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 235 hef ég borið fram eftirfarandi fyrirspurnir til samgrh. um ljósleiðara:

1. Hver var heildarkostnaður við lagningu ljósleiðara um landið?

2. Hve stór hluti þess kostnaðar var greiddur af Póst- og símamálastofnun og hve stóran hlut greiddu aðrir?

3. Hvernig verður samkeppnisstaða aðila í útvarps- og sjónvarpsrekstri tryggð þegar Póstur og sími hf. hefur rekstur á þessu sviði?

4. Er fyrirhugað að jafna kostnað við beinar útsendingar sjónvarpsefnis um ljósleiðara frá landsbyggðinni?

Málefni Pósts og síma hf. hafa verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu en sú umræða kom til eftir að þessar fyrirspurnir voru bornar fram. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að landið verði allt eitt gjaldsvæði og því ber að fagna.

Ég vil aðeins geta um þessa grundvallarákvörðun sem er skyld fjórða hluta fyrirspurnarinnar en ég hef ekki tíma til að blanda mér í umræður um gjaldskrárhækkanir sem fylgdu samhliða en hafa nú að hluta gengið til baka enda voru þær ekki tilefni þessara fyrirspurna á sínum tíma. Þær lúta að tvennu: Stofnkostnaði Pósts og síma hf. við dreifikerfi og ljósleiðara og jöfnun kostnaðar við sendingu útvarps- og sjónvarpsefnis beint frá landsbyggðinni, en tæknin hefur nú gert slíkt mögulegt. Jöfnun aðstöðu í þessum efnum er einn þáttur í því jafnræði sem ætti að ríkja með höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Aukinn fréttaflutningur utan af landi eykur þá tilfinningu meðal þjóðarinnar að við séum ein þjóð í einu landi og ekki veitir af að efla þá tilfinningu. Ekki síst er sjónvarpið öflugur miðill í þessu efni.

Nú hafa þær fréttir borist að Póstur og sími ætli að hefja sjónvarpsrekstur um breiðband og leggja til þess allmikla fjármuni. Í ljósi þess að fyrirtækið ræður eitt yfir því tæki sem ljósleiðarinn er vakna spurningar um samkeppnisstöðu og hvort ekki sé þörf á lögum og reglugerðum um þetta mál. Það hefur komið fram að Póstur og sími sækir um 22 sjónvarpsleyfi og 10 útvarpsleyfi og hyggst endurvarpa erlendum stöðvum að mestu með þessum leyfum. Útvarpsréttarnefnd hyggst aðeins úthluta leyfum til eins árs vegna óvissunnar og því koma margar spurningar upp í þessu sambandi, fleiri en bornar eru upp á þingskjalinu en ég legg þessar fyrirspurnir fyrir hæstv. samgrh.