Ljósleiðari

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:10:11 (1149)

1997-11-12 14:10:11# 122. lþ. 23.9 fundur 222. mál: #A ljósleiðari# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:10]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég verð eins og fleiri að biðja hæstv. ráðherra um að skýra betur svarið við annarri spurningunni. Þýðir svarið að NATO hafi borgað 1,5 milljarða og að Póstur og sími hafi borgað 2,5 milljarða? Það var spurt hver væri hluti þess kostnaðar sem greiddur var af Póst- og símamálastofnun en ekki fékkst skýrt svar við því, heldur sagt hver leiga NATO í 20 ár væri.

Í öðru lagi vek ég athygli á þriðju spurningunni. Ráðherra upplýsti að Póstur og sími hafi sótt um 24 sjónvarpsrásir og 10 útvarpsleyfi en hygði ekki á dagskrárgerð. Ég held að þetta verði að íhuga mjög vandlega, hvort ekki sé verið að skerða möguleika annarra aðila sem eru með dagskrárgerð og eru á þessum litla markaði. Það má líkja þessu við það að ríkið leggur vegi hér á landi en það er ekki þar með sagt að ríkið þurfi að reka landflutningaþjónustu. Ég held að þetta sé dálítið alvarlegt mál, sem er ekki alveg sjálfgefið, þó menn vilji veg Pósts og síma sem mestan, að stofnunin skapi sér óeðlilega möguleika á markaði fyrir aðra að starfa á því sviði sem þeir hafa sérhæft sig á. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fjölbreytni sé ríkjandi á þessum nýja markaði og Póstur og sími ætti e.t.v. ekki að hasla sér völl á því sviði sem er honum ekki eiginlegt.