Aðgerðir í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:17:23 (1152)

1997-11-12 14:17:23# 122. lþ. 23.10 fundur 235. mál: #A aðgerðir í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Árið 1993 var samþykkt þál. um framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna á árunum 1993--1997. Í þeirri áætlun er lögð áhersla á að framkvæma tillögur starfshóps um jafnréttisfræðslu frá árinu 1990, en þar er m.a. stefnt að því að náms- og kennslugögn séu án kynjafordóma og staðalmynda og jafnan samin og endurskoðuð með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi, sbr. lið 9.23.

Þá er í lið 9.25 stefnt að því að í grunn- og framhaldsskólum verði boðið upp á nám í fjölskyldufræðum sem felist m.a. í umfjöllun um stofnun, umhirðu og rekstur heimilis, næringarfræði, barneignir, uppeldi og samskipti kynjanna.

Báðir þessir liðir eru mikilvægir til þess að skólastarf samræmist 10. gr. jafnréttislaganna sem fjallar um jafnrétti í skólastarfi. Við kvennalistakonur höfum flutt till. til þál. til að ýta undir framkvæmd þessara liða, samanber tillögu mína um úttekt á námskrám og kennslubókum með hliðsjón af jafnréttislögum sem flutt var 1994 á 118. löggjafarþingi, og tillögu Birnu Sigurjónsdóttur og annarra um fræðslu til að búa nemendur undir þátttöku í samfélaginu með áherslu m.a. á fræðslu um samskipti kynjanna og fjölskylduábyrgð. Hvorug þessara tillagna var samþykkt þrátt fyrir góðar undirtektir umsagnaraðila.

Í greinargerð með fyrrnefndu tillögunni er m.a. fjallað um gátlista Námsgagnastofnunar og rætt um að ekki sé ljóst hvort nokkurt eftirlit sé haft með því að farið sé eftir því sem þar er lagt til né hvort gert hefur verið átak í að endurskoða eldri námsbækur að þessu leyti. Einnig segir í greinargerðinni að ekki sé vitað til að nokkurt eftirlit hafi verið haft með þeim bókum sem kenndar eru í framhaldsskólum að þessu leyti. Þá segir í greinargerðinni að það sé mjög mikilvægt að foreldrar, kennarar og Námsgagnastofnun geti losað sig við bækur sem ekki fullnægja ákvæðum jafnréttislaganna og hvernig hægt sé að koma því við.

Í maí 1996 skilaði félmrh. skýrslu til Alþingis um stöðu jafnréttismála. Þar segir um lið 9.3 að Námsgagnastofnun hafi fengið tilmæli um að allt námsefni væri skoðað með tilliti til jafnréttissjónarmiða og að Námsgagnastofnun hefði þessi tilmæli á gátlista til nýrra höfunda. Ekkert nánar kemur fram um þann lið og um kennslu í fjölskyldufræðum verður ekki séð að nokkuð hafi verið gert. Af þessu tilefni hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hvernig hefur framkvæmdin verið á liðum 9.2.3 Námsefni og 9.2.5 Nám í fjölskyldufræðum í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna (1993--97)? Er síðarnefndi liðurinn til umræðu við yfirstandandi endurskoðun á námskrám fyrir grunn- og um framhaldsskóla?