Ummæli forsætisráðherra um ráðstefnuna í Kyoto

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 10:33:45 (1159)

1997-11-13 10:33:45# 122. lþ. 25.91 fundur 87#B ummæli forsætisráðherra um ráðstefnuna í Kyoto# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[10:33]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það gerðust allmikil tíðindi í gær. Við heyrðum í fréttum íslenskra fjölmiðla orð hæstv. forsrh. varðandi þær samningaviðræður sem lengi hefur verið unnið að á alþjóðavettvangi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera um það skuldbindandi samkomulag helst fyrir lok þessa árs á ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. forsrh. lét þar koma fram, og við lesum í Morgunblaðinu í dag auk þess frásagnir af ræðu hans í Ósló alveg nýlega, að óvissa ríkti um það hvort Íslendingar yrðu aðilar að ályktunum um þessi efni eins og horfði efnislega um þann samningstexta sem er í mótun vegna ráðstefnunnar í Kyoto í næsta mánuði. Þetta eru stór tíðindi og ég verð að segja afar slæm tíðindi og ég brást við þessu með því að óska eftir því við forseta þingsins að við fengjum aðstöðu til að ræða þetta þó í stuttu formi væri utan dagskrár á Alþingi Íslendinga í dag. Það urðu mér veruleg vonbrigði þegar forseti tjáði mér að hæstv. forsrh. gæfi ekki kost á þessum umræðum eða þátttöku í umræðum um þetta efni utan dagskrár á Alþingi.

Ég verð að segja að mér finnst ekki vera sæmandi fyrir ríkisstjórn landsins að halda þannig á afdrifaríkustu málum að við fáum fregnir frá útlöndum um kúvendingu ef túlka má orð hæstv. forsrh. þannig, a.m.k. ef það yrði niðurstaðan að Ísland skæri sig úr í sambandi við væntanlega samninga um þessi efni á sérforsendum sínum. (Forseti hringir.) Ég harma þetta og legg áherslu á það að þingið fái aðstöðu til þess að ræða þessi mál hér og nú.